29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3390)

79. mál, endurskoðun girðingalaga

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 101 hef ég leyft mér ásamt nokkrum öðrum hv. þm. að flytja till. til þál. um endurskoðun á girðingalögum. Eins og fram kemur í grg. þessarar þáltill., er frá því skýrt, að fyrir nokkrum árum flutti ég ásamt öðrum hv. þm., sem þá átti hér setu á Alþingi, frv. til l. um breyt. á þessum lögum, og var þar gert ráð fyrir að taka einstaka þætti þeirra til afgreiðslu. Við nánari athugun á þessu máli síðar hefur komið í ljós, að nauðsyn ber til þess, að fram fari heildarendurskoðun á girðingalögunum. Ýmis atriði hafa breytzt í sambandi við þau á síðari árum, sem gera það að verkum, að endurskoðun þeirra er nauðsynleg. M.a. er bent á það í grg., að á síðari árum hafa komið til vélgrafnir skurðir, sem má telja að nokkru leyti vörzlu með aðstoð færri girðingarstrengja en ella, og enn fremur eru ákvæði þar um réttindi og skyldur vegagerðar ríkisins orðin úrelt og hafa í mörgum tilfellum komið í veg fyrir eðlileg viðskipti landeigenda og vegagerðar ríkisins. Ég hef nokkuð rætt það mál við vegamálastjóra, og er honum ljóst, að hér verður að koma til breyting, því að vegagerðin hefur orðið að fara oft og tíðum út fyrir landslög til þess að geta sinnt eðlilegum bótaskyldum í sambandi við vegagerð.

Þá er líka bent á það hér í þessari grg., að nú fer fram endurskoðun á opinberum vegum, og það fer því einkar vel á því, að endurskoðun á girðingalögum fari fram jafnframt. Þess vegna er þessi till. fram komin, að nauðsyn ber til, að þessi endurskoðun fari fram og það einmitt nú, þegar endurskoðun á vegakerfinu og á lögum þar að lútandi er í framkvæmd. Ég treysti því á það, að hv. Alþingi ljái þessu máli fylgi sitt og það nái fram að ganga á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.