07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl. till. til þál. um hækkun lána úr byggingarsjóði sveitabæja.

Allt frá því að Búnaðarbankinn var stofnaður, hefur ein af deildum bankans verið byggingarsjóður, sem lánað hefur stofnlán til íbúðarhúsa í sveitum. Tilgangurinn með starfsemi byggingarsjóðs sveitabæja er sá að gera bændum kleift að reisa ný íbúðarhús á ábýlisjörðum sínum, án þess að þurfa að stofna til lausaskulda, sem yrðu bændum lítt viðráðanlegar og búskapnum til mikils hnekkis. Í lögunum um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, 44. gr., 2. mgr., segir svo um lán úr byggingarsjóði sveitabæja:

„Lánin mega vera það hæst, að samtals hvíli á jörðinni allt að 75% fasteignamatsverðs að viðbættu kostnaðarverði þeirra bygginga, sem reistar kunna að verða. Þó má aldrei veita hærri lán en 75% kostnaðarverðs til einstakrar byggingar. Reikninga um byggingarkostnað úrskurðar bankastjóri Búnaðarbankans.”

Af þessari lagagrein er augljóst, að það er heimilt að veita lán vegna byggingar íbúðarhúsa í sveitum allt að 75% kostnaðarverðs einstakrar byggingar. Það virðist því ekki þurfa lagabreytingu til þess að hækka lánin frá því, sem verið hefur.

Á undanförnum árum hefur kostnaður við byggingu íbúðarhúsa eins og aðrar framkvæmdir í landinu farið hækkandi Og við ákvörðun lána úr byggingarsjóði sveitabæja hefur jafnan verið höfð nokkur hliðsjón af því. Um nokkurt skeið mun hámark byggingarlánanna til íbúðarhúsa í sveitum hafa verið 75 þús. kr. En á árinu 1960, að ég ætla, mun stjórn bankans hafa ákveðið að hækka þetta hámark upp í 90 þús. kr., og nær það, að því er ég bezt veit, til þeirra íbúðarhúsa, sem hafin var bygging á, eftir að gengisbreytingin var gerð í febr. 1960. Og nú nýlega munu, að ég ætla, hafa verið gerðar ráðstafanir til að hækka þetta mark enn nokkuð, sennilega í 100 þús. kr. Þessar breytingar eru vitanlega góðra gjalda verðar, svo langt sem þær ná, og stefna í rétta átt. En þrátt fyrir þetta samsvarar þessi hækkun byggingarlánanna alls ekki þeirri hækkun á byggingarkostnaði, sem orðið hefur nú að undanförnu. Ég hygg, að það sé álit þeirra, sem fylgjast vel með á þessu sviði, að byggingarkostnaður íbúðarhúsa í sveitum hafi hækkað um 75% á tímabilinu frá 1954 til 1961. Og teiknistofa landbúnaðarins mun nú áætla, að meðalíbúðarhús í sveit kosti ekki minna en 350–400 þús. kr. Þá er það augljóst, að jafnvel þótt um 100 þús. kr. lán sé að ræða úr byggingarsjóði sveitabæja, þá nemur það lán ekki meira en 25–30 % af heildarkostnaði við byggingu íbúðarhúss samkv. áætlun teiknistofu landbúnaðarins um byggingarkostnaðinn.

Á sama tíma og þessar breytingar hafa orðið á byggingarkostnaði, hafa verðhækkanir vitanlega náð til allra nauðsynjavara og rekstrarkostnaðar við búskapinn og annars þess, sem bændur þurfa að standa straum af. Af því má draga þá ályktun, að bændur þeir, sem ráðast í byggingu íbúðarhúsa, eigi enn örðugra um vik að standa straum af byggingarkostnaðinum með eigin fé heldur en ella væri. Það mun því naumast orka tvímælis, að það er fullkomlega réttmætt, sem farið er fram á í tillögu þeirri, sem hér liggur fyrir til umr., að hlutazt verði til um af hálfu ríkisvaldsins, að veitt verði mun hærri lán úr byggingarsjóði sveitabæja til íbúðarhúsa í sveitum en nú er gert. Vitanlega er okkur ljóst, sem stöndum að flutningi þessarar tillögu, að það þarf að sjá sjóðnum fyrir nægilegu fjármagni í þessu skyni, og á það hefur raunar verið bent áður og við önnur tækifæri, án tillits til þeirrar tillögu, sem hér liggur fyrir, að því vandamáli þurfi að gefa gaum og það sé í athugun. Ég ætla því ekki í sambandi við þessa tillögu að fara að ræða það fjárhagsmál á breiðum grundvelli, ég sé ekki ástæðu til þess.

En á það vil ég að lokum benda, að nú er fjallað um það hér á hv. Alþingi að koma lausaskuldum bænda í föst lán, og sú athugun, sem farið hefur fram í því efni, mun fyllilega leiða það í Ijós, að fjárhagur margra innan bændastéttarinnar sé þannig, að það sé full ástæða til þess að taka það mál föstum tökum. Þetta er vitanlega gott, svo langt sem það nær. En allir munu þó geta orðið sammála um, að það, sem mestu máli skiptir, er að búa þannig að bændastéttinni að reyna að koma í veg fyrir, að lausaskuldir safnist, sem hvíli þungt á bændum og verði búrekstrinum til hnekkis, vegna framkvæmda, sem eru hinar allra nauðsynlegustu á jörðunum, svo sem byggingar íbúðarhúsa. Þetta getur ekki orkað tvímælis, og um það munu allir vera sammála, sem um málið hugsa. En einmitt það að veita nokkuð rífleg lán úr byggingarsjóði sveitabæja vegna nýrra íbúðarhúsa í sveitum stuðlar mjög að því að koma í veg fyrir, að lausaskuldir þurfi að safnast vegna þeirra framkvæmda.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa till., nema tilefni gefist til, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn. til athugunar.