07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (3399)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Með lögum um Búnaðarbanka Íslands er gert ráð fyrir, að lána megi allt að 75% af byggingarkostnaði á hverja einstaka byggingu. Þetta hefur verið í lögum, að ég ætla, síðan lög um Búnaðarbankann voru sett. En þessari heimild í lögunum hefur aldrei verið fullnægt, vegna þess að fé hefur ekki verið fyrir hendi. Það hefur ævinlega verið þörf á því að lána meira með hagstæðum kjörum, með lágum vöxtum til langs tíma, heldur en gert hefur verið. Og það er rétt, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að lausaskuldir bænda, sem nú eru á dagskrá, eru til orðnar vegna þess, að þeir hafa fengið of lítið af lánum út á framkvæmdirnar. Það er því alveg rökrétt, þegar nú er ákveðið að bjarga bændum vegna lausaskuldanna, sem hvíla á þeim fyrir undanfarnar framkvæmdir, að reyna að gera ráðstafanir til að hækka hin föstu og hagstæðu lán, til þess að þeir þyrftu ekki aftur að lenda í því að safna lausaskuldum.

Ekki dettur mér í hug að ætla, að það sé vegna viljaleysis þeirra ríkisstj., sem setið hafa í landinu, að þeirri heimild, sem er í lögum um Búnaðarbankann, hefur ekki verið fullnægt, heldur vegna þess, að ávallt hafa verið erfiðleikar á því að útvega sjóðunum fé. Og illu heilli hefur sjóðunum verið útvegað útlent fjármagn, sem þeir hafa svo tapað á, í staðinn fyrir að útvega innlent fjármagn, sem þeir gætu lánað án þess að verða fyrir skakkaföllum. Það hefði þurft að stefna að því hverju sinni að láta sjóðina hafa innlent fé, vegna þess að það er útilokað, að bændur geti notað útlent fé með gengisáhættu til þess að byggja íbúðar- og peningshús í sveitum eða til þess að rækta fyrir.

Það er kunnugt, að sjóðir Búnaðarbankans eru mjög illa settir vegna hinna miklu tapa, sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Og ríkisstj. er nú að vinna að því að koma fótunum undir sjóðina á ný og gera þeim mögulegt að starfa, eins og alltaf hefur verið ætlazt til að þeir gerðu. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. sagði, það er nauðsynlegt að hækka útlánin frá því, sem gert hefur verið. Og það ber að vinna að því og stefna að því, að það verði gert. Og ég efast ekkert um, að þessi hv. þm. hefur alltaf haft hug á því, einnig 1958, þegar yfirfærslugjaldið var sett upp í 55% og byggingarkostnaðurinn af þeim ástæðum mun hafa hækkað um 25—30%. Fyrir þann tíma voru lánaðar 75 þús. kr. á hverja íbúð í sveit, en þrátt fyrir yfirfærslugjaldið 55% var lánið ekkert hækkað á árinu 1958, ekki af viljaleysi, heldur af getuleysi, að ég ætla. Og ég trúi því, að hv. frsm., sem talaði hér áðan, hefði einnig þá viljað beita sér fyrir því við þá ríkisstj., sem hann studdi, að lánin væru hækkuð eitthvað í líkingu við hina geigvænlegu hækkun á byggingarkostnaði, sem varð vegna bjargráðanna vorið 1958. En þetta var ekki gert, vegna þess að þá eins og ævinlega hefur verið erfitt að útvega fé.

Núv. ríkisstj. hefur heimilað að hækka lánin úr 75 þús. í 90 þús. í fyrra, og við s.l. áramót mun þetta hafa verið hækkað upp í 100 þús. kr. Það er rétt, að þetta er ekki nægileg hækkun. Þetta er ekki nema 25–30% af byggingarkostnaði. Þess vegna er þörf á því, að þetta verði aukið, og að því þarf að vinna. Ég er vongóður um, að ný löggjöf um þetta efni verði til þess að koma fótum undir búnaðarsjóðina á ný og gera þeim kleift að lána í ríkari mæli en verið hefur út á byggingar og ræktun í sveitum.

Og það er ekki nægjanlegt, þótt lán til bygginga og ræktunar í sveitum væru aukin. Það vantar nú eins og ævinlega fjármagn til veðdeildarinnar, til þess að hún geti innt sitt hlutverk af hendi. Það þarf einnig að leita eftir leiðum til þess að gera veðdeildinni fært að starfa. Veðdeildin þarf að geta lánað þeim, sem eru að byrja búskap, til bústofnskaupa, til þess að kaupa jarðir, til þess að kaupa vélar og ýmislegt fleira. Það vantar ekki, að það hafa verið fluttar tillögur um að auka fjármagn veðdeildarinnar, t.d. um það að heimila ríkissjóði að taka lán í þessu skyni eða heimila, að ríkissjóður leggi deildinni fé, en slíkar heimildir eru ekki nein lausn á þessum málum. Það er engin lausn, nema fjármagnið sé fyrir hendi, það sé útvegað og gert raunhæft.

Ég ætla ekki nú að fara að ræða um þær tillögur, sem bráðum munu koma hér fram í hv. Alþingi til lausnar á vandamáli stofnlánasjóða landbúnaðarins. Þær munu koma áður en langt um liður og ég vænti þess, að sá hv. þm., sem talaði hér áðan og hefur hug á að leysa þessi mál, verði eftir atvikum ánægður með þá lausn, sem þar er fram borin.