18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það verður nú að líta svo á, að það fjármálakerfi, sem ríkisstj. hefur nefnt viðreisn, sé um það bil búið að slíta barnsskónum og ekki sé lengur hægt að afsaka þau gönuskeið, sem það kerfi leiðir þjóðina út í, með því, að allt sé á byrjunarstigi og standi til bóta. Þau fjárlög, sem hér eru til afgreiðslu, eru hin þriðju, sem miðuð eru við þetta efnahagskerfi, og er því komin nokkur reynsla á það, hvernig það muni reynast, og því miður liggur það í augum uppi, að það ætlar að reynast því verr, sem lengra líður frá tilkomu þess.

Það, sem öllu öðru fremur einkennir efnahagskerfið „viðreisn“, er það, að íslenzkir peningar rýrna í verði með ótrúlega hröðum hætti, og til þess að vinna sama verkið í ár þarf ævinlega miklum mun meiri fjármuni en þurfti til þess á árinu næsta á undan. Þetta kemur greinilega fram á fjárlögum, og ef gerður er örlítill samanburður á því, hvernig heildarniðurstaða fjárlaganna hefur þróazt á hinum síðustu árum, kemur í ljós, að árið 1959, sem var fyrsta ár þeirrar valdasamsteypu, sem enn fer með völd í landinu, Sjálfstæðis- og Alþýðuflokksins, nam heildarupphæð fjárlaga einum milljarð og 33 millj. kr. En strax á fyrsta ári viðreisnarinnar, árinu 1960, var áætluð skattheimta ríkissjóðs af þegnunum, þ.e. tekjuöflun ríkissjóðs, áætluð 1501 millj. kr. Og árið 1961 var tekjuhlið ríkissjóðs á fjárlögum komin upp í 1588 millj. kr. þ.e.a.s. á fyrsta viðreisnarárinu hækkaði tekjuhlið fjárlaganna um 45% miðað við það, sem hún var árið 1959, árið 1961 var hækkunin komin upp í 54%, og sýnilegt er af því fjárlagafrv. og af þeim tillögum, sem fluttar eru hér af meiri hl. fjvn., að fjárlagafrv. fyrir árið 1962 muni nálgast 1750 millj. kr. að niðurstöðu. Þegar er sýnilegt, að það nær 1747 millj., en þá er orðin um það bil 70% hækkun á tekjuöflun ríkissjóðs frá því, sem hún var á árinu 1959.

Það er mikill siður talsmanna ríkisstj. að halda því fram, að allt, sem aflaga fer í þessu þjóðfélagi, stafi af einni og sömu ástæðunni, of háum kaupgreiðslum. Hvernig hefur nú þessu verið varið á því tímabili, þegar sjálfur ríkissjóðurinn telur sér nauðsyn að auka sínar tekjur um 70%? Það er ofur einfalt mál að skýra frá því, að við gerð tveggja fyrstu viðreisnarfjárlaganna, fjárlaganna fyrir árin 1960 og 1961, hafði engin kaupbreyting orðið í landinu, — engin kaupbreyting. Engu að síður þurfti ríkissjóður að hækka tekjur sínar um 54%. Á yfirstandandi ári hefur hins vegar orðið kaupbreyting. Hún nemur hjá fjölmennustu vinnustéttunum 10%, miðað við dagvinnuna. En með öllum þeim fríðindum tilreiknuðum, sem hinum nýju kjarasamningum voru samfara, er almennt talið, að kaupbreytingin í landinu hafi orðið eitthvað á milli 13 og 14%. Þessari kauphækkun er ríkissjóður að mæta með 70% tekjuhækkun hjá sjálfum sér á sama tímabili. Það er ærið verk að útskýra, hvernig það má ske, að þessi kaupbreyting eigi að vera undirstaðan að því, að skattheimta ríkisins vex svo óskaplega sem ég nú hef greint.

Ég hef drepið á það, að skattheimta ríkisins af þegnum þjóðfélagsins hefur á síðustu árum vaxið mikið, og stendur til, að hún vaxi enn á næsta ári. Nú þyrfti það ekki að vera alveg fráleit þróun, þótt ríkið tæki til sín hærri gjöld af þegnum sínum, ef þau gjöld rynnu til þess að framkvæma þarflegustu hluti fyrir þjóðina eða til þess að bæta lífskjör hennar með einhverjum hætti. Ég geri ráð fyrir því, að því muni haldið fram af talsmönnum ríkisstj., að þannig sé þessu líka varið að einhverju leyti. A.m.k. heyrir maður það oft, að mikil búningsbót sé nú orðin í tíð núv. ríkisstj. að því er varðar tryggingakerfið, almannatryggingarnar. Því miður er þar ekkert til að hrósa sér af fyrir ríkisstj. Þær upphæðir, sem þar hafa verið hækkaðar í bótagreiðslu, nema hvergi meira en því að jafna þann dýrtíðarvöxt, sem orðið hefur, en langvíðast hrökkva þær þó ekki til þess, hvað þá að þær nái þar umfram. Hér er því ekki að ræða um nein bætt kjör, ekki heldur hjá bótaþegum almannatrygginganna, þótt þeir hafi fengið nokkra hækkun bóta í krónutali. Á hinn bóginn liggur það alveg ljóst fyrir, að þeir liðir fjárlagaútgjalda ríkissjóðs, sem renna til mannvirkjagerðar, hafa yfirleitt staðið í stað eða hækkað miklum mun minna en vöxtur dýrtíðarinnar gaf tilefni til.

Það er þess vegna greinilegt, að þrátt fyrir þessa tekjuöflunaraukningu hjá ríkissjóði er nú minna framkvæmt á vegum ríkissjóðs en var fyrir tíð þess efnahagskerfis, sem nú ríkir. Framlög til samgöngumála, vegagerða, brúarsmíða og annarra slíkra samgöngumannvirkja hafa yfirleitt haldizt óbreytt í krónutali. Á örfáum liðum hafa þau aðeins þokazt upp á við, en hvergi nálægt því svo, að framkvæmdir hafi ekki orðið að dragast saman ár frá ári í þessu efni. Sama máli gegnir um hafnargerðir, og þó máske í enn ríkara mæli hefur þar verið efnt til samdráttar af ríkisvaldsins hálfu en á öðrum sviðum. Þessi sama saga hefur einnig orðið upp á teningnum, þegar litið er til gerðar flugmannvirkja, flugvallargerða og annarra þeirra mannvirkja, sem í sambandi við flugsamgöngur standa.

En þrátt fyrir þær hækkanir, sem orðið hafa á fjárlögum, og þrátt fyrir þann samdrátt, sem orðið hefur í verklegum framkvæmdum á vegum ríkissjóðs, er þar með ekki sögð öll sagan um afgreiðslu fjárlaga, því að hún heldur áfram líka utan fjárlaganna. Það hefur verið stefnt að því nokkuð markvissum skrefum af hálfu hæstv. ríkisstj. að auka einnig álögurnar á landslýðinn utan við skattheimtu fjárlaganna. Þannig hafa verið lögð á ný gjöld, sem koma ekki inn á fjárlögin. Er þar stytzt til að leita hinnar nýju hækkunar á útflutningsgjaldi, sem gerð var á s.l. ári í brbl., sem ríkisstj. gaf út þar um og liggja nú fyrir Alþ. til staðfestingar. Þá hefur einnig verið haldið áfram að innheimta ýmislegt það, sem ríkisstj. gaf loforð um að fella niður, meira og minna óljóst þó, vegna þess að það mun frá upphafi ekki hafa verið mikill vilji fyrir því að standa við þau. Svo er því t.d. varið um svonefndan bráðabirgðasöluskatt af innflutningi, sem áætlað er í fjárlagafrv. yfirstandandi árs að nema muni ekki minna en 188 millj. kr., eða um það bil 1000 kr. á hvert mannsbarn í landinu að meðaltali. Það hefur verið margrakið hér á Alþ., að þessi skattur átti að vera til bráðabirgða og var í upphafi ekki lögfestur nema til ársloka 1960, en hefur síðan verið endurnýjaður einu sinni og þá enn undir því yfirskini, að hann ætti ekki að verða neinn eilífur augnakarl í íslenzkri löggjöf. En á þessu yfirstandandi þingi hafa hv. þingmenn fengið að sjá hann færðan í nýtt form, framlengdan með nýjum hætti, sem bendir ekki til þess, að þjóðin eigi það í vændum í náinni framtíð að losna undan byrðum hans.

En þótt ekki sé um mjög fjölskrúðugar nafngiftir að ræða í auknum álögum ríkisstj., hefur hún drjúgum aukið þær, sem fyrir voru, og heldur stöðugt áfram á þeirri braut. Gengisfelling sú, sem gerð var í ágústmánuði í sumar með brbl., hefur að sjálfsögðu aukið tekjur og tekjumöguleika ríkissjóðs að stórum mun, þar eð aðflutningsgjöld öll leggjast nú á miklum mun hærri fjárupphæðir en þau áður gerðu og leggja ríkissjóði þannig til stórar fjárfúlgur umfram það, sem verið hefur. En ekkert af þessu hefur sem sagt nægt ríkisstj. til þess að koma saman fjárlögum, sem væru hallalaus. Það hefur henni ekki tekizt með fjárlagafrv., og það hefur ekki heldur tekizt að gera neinar till. af hennar hálfu, sem í þá átt benda, að fjárlögin verði hallalaus um það er lýkur.

Nú standast að vísu nokkurn veginn á tekjur og gjöld á fjárlagafrv. og í þeim till., sem gerðar eru af meiri hlutans hálfu um fjárlög: Á hinn bóginn er sá jöfnuður fenginn með þeim kynlega hætti, að burt af fjárlagafrv. er kastað lögboðnum og gersamlega óumdeilanlegum útgjaldafjárhæðum ríkissjóðs og látið eins og það sé ekki til. Þannig hefur verið felldur burt af 17. gr. fjárlaga liðurinn um ríkissjóðsframlagið til atvinnuleysistryggingasjóðs, en það framlag er ákveðið í lögum nr. 29 frá 1956, og hefur verið gerð áætlun um það, hversu hátt það þyrfti að vera, og segir sú áætlun, að ríkissjóður muni komast í greiðsluskyldu við þann sjóð á árinu 1962 um 28½ millj. kr. Þetta er líka viðurkennt í athugasemdunum við fjárlagafrv., en þar er látið að því liggja, að þetta framlag muni á árinu 1962 verða greitt með skuldabréfum og þurfi þess vegna ekki að ætla fyrir því í útgjaldaliðum fjárlaga. Síðast þegar ég vissi, og það er skammt síðan, hafði ríkisstj. enga tilraun gert til þess að ná samningum við stjórn þessa sjóðs um neins konar skuldabréfaviðskipti. En það má svo sem hugsa sér það, að ríkisstj. takist um það er lýkur að gera einhverja slíka samninga um lánveitingar úr þessum sjóði, að hún þurfi ekki að reiða fram framlag sitt í reiðu fé á næsta ári. Þó breytir það ekki því, að engu að síður er hér um að ræða ríkisútgjöld, sem eiga að standa á fjárlögum. Það er annað mál, þó að þau þurfi að standa á tveim stöðum á fjárlögunum, á öðrum staðnum sem ríkisútgjöld, en á hinum staðnum sem lántaka af ríkisins hálfu. Ég held líka, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gert hina minnstu tilraun til þess enn þá að afla sér heimilda til þess að taka lán fyrir þessu framlagi. Hér er þess vegna greinilega um áætlunarfölsun að ræða, með því að kasta þessum fjárlagalið fyrir borð og láta eins og hann sé ekki til.

Að hinu leytinu er svo rangt áætlað eða röng tala tekin inn í fjárlagafrv, varðandi niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur. Á 19. gr. fjárlaga er gert ráð fyrir 300 millj. kr. til þessara þarfa, en ráðuneytið hefur sjálft í sínum fórum áætlanir um það, að ef þessar niðurgreiðslur og þessar útflutningsuppbætur eiga að fara fram með svipuðum hætti og þær hafa gert á undanförnum árum, þá vantar á þessa upphæð 73.8 millj., til þess að hún sé í hlutfalli við þær greiðsluskyldur, sem á ríkissjóð falla af þessum ástæðum að óbreyttum reglum þar um. Nú hefur ríkisstj, eða a.m.k. hæstv. fjmrh. látið að því liggja í ræðu hér á Alþ., að fyrirhugað sé að breyta í einhverju þessum niðurgreiðslureglum, og í aths. við fjárlagafrv. stendur, að niðurgreiðslurnar séu í endurskoðun, og út á það er Alþ. svo ætlað að ákveða í fjárlögum, að 73.8 millj. kr., verði hleypt út í hækkað verðlag í landinu, en ekki fari fram niðurgreiðsla úr ríkissjóði með sama hætti og verið hefur. Þessi samskipti ríkisstj. við Alþ. minna helzt á hnífakaup að óséðu. Alþ. er ætlað að samþ. inn í fjárlög áætlanir, sem það fær ekki að vita, á hverju byggist, sem þar er farið með eins og mannsmorð, frammi fyrir Alþ., þar á að draga úr niðurgreiðslunum. Það er á hinn bóginn vitað, að þessar niðurgreiðslur munu allar vera á hinum allra nauðsynlegustu matvælum. Það eru að mestu leyti niðurgreiðslur á mjólk, kjöti, aðfluttum kornvörum og öðrum álíka þýðingarmiklum liðum, sem ekkert heimili í landinu getur án verið.

Það er þess vegna dálítið athyglisverð iðja, sem hér er höfð uppi af ríkisstj. hálfu, að leggja fram frumvörp og fá þau samþ. um lækkanir á tollum á hátollavörum. Auðvitað er það öllum ánægja, ef á einhverju sviði er hægt að spyrna gegn hinum þrotlausa dýrtíðarvexti, sem þjóðin hefur búið við um langt skeið og að mestu óbættan. En á hinn bóginn þykir mér ótrúlegt, að þeir menn, sem haft geta óblandna ánægju af niðurfellingu tolla og skatta á hátollavörunum, geri það í skjóli þess, að þeir ætli að hækka verðlagið á kjöti, mjólk og kornvörum um svo sem eins og 50% hærri upphæð heldur en þá upphæð, sem ríkissjóður afsalar sér réttinum til að taka af hátollavörum. Hverjum er ánægja að því, þótt hann geti lækkað grammófónplötur t.d. í verði um 10 kr., ef hann samtímis hækkar mjölið í grautinn hjá alþýðufólki landsins um 15 kr.? En það eru í rauninni hlutir eitthvað ámóta þessu, sem eru að gerast, ef gerð verður alvara úr því að hleypa út í verðlagið 73.8 millj. kr., sem annars væru niðurgreiðsla á brýnustu matvörum, en gefa eftir af hátollavörunum fram undir 50 millj., að því er hér hefur verið upplýst.

Ég tel, að ef Alþ. ætlar að halda einhverri virðingu, þá sé því ekki sæmandi að gera áætlanir sínar eða afgr. fjárlög út á óséðar breytingar ríkisstj. á niðurgreiðslum. Lágmark þess velsæmis, sem ég tel að ein ríkisstjórn verði að viðhafa gagnvart Alþ., ef hún ætlar að breyta hlutum eins og ég hef hér rætt um, er það, að hún geri Alþ. grein fyrir því, hvað stendur til, hverju á að breyta. Það hefur Alþ. ekki fengið að vita, og ég tel þá hv. alþm. heldur menn að minni, ég verð að játa það, ef þeir eru ánægðir með að gera slíkar milljónatuga samþykktir um hluti, sem þeir vita ekki og fá ekki að vita, hverjir eru.

Í fjvn. skilur á milli sjónarmiða Alþb. og stuðningsmanna ríkisstj. um marga hluti umfram þá, sem ég hef þegar gert að umræðuefni. Þó hefur þar verið góð samvinna um afgreiðslu margra mála og erinda, og hef ég ekki við þá hv. samnefndarmenn mína að sakast um vinnubrögð í nefndinni sérstaklega, enda þótt því sé ekki að neita, að lítill tími hefur verið ætlaður til raunverulegrar afgreiðslu á fjárlagaliðum. Og varðandi þær till., sem nefndin gerir sameiginlega, er vert að taka það fram, að þeim sér Alþb. ekki ástæðu til að beita sér á móti, enda þótt það áskilji sér óbundinn rétt um afstöðu til einstakra till. eða um aðrar brtt. um svipuð efni, sem fram kunna að koma. Flestar af þeim till., sem þar eru fluttar, eru hins vegar fluttar með góðu samþykki Alþb. við þá aðra, sem að þeim till. standa. En auk þeirra till., sem sameiginlega eru fluttar af nefndinni, þykir mér vert að geta þess, að meiri hluti fjvn. flytur nokkrar brtt. við tekjubálk frv. í nál. meiri hl. stendur að vísu, að aðrir nm. en meiri hl. séu þessum till. andvígir. Hv. frsm. og formaður nefndarinnar hefur hér leiðrétt þetta. Það ber ekki að skilja svo, ekki a.m.k. að því er Alþb. varðar, að það sé mótfallið þessum till. Hitt er rétt, að það hefur ekki gefizt tóm til þess í nefndinni að athuga tekjubálk frv. svo, að af þess hálfu hafi verið óskað eftir því að eiga samaðild að flutningi þessara till. Ráðuneytisstjórinn úr efnahagsmrn. kom að vísu á fund fjvn. síðasta daginn, sem þar var haldinn fundur til undirbúnings 2. umr. fjárlaganna, og gerði þar í stuttu máli grein fyrir horfum þeim, sem það ráðuneyti telur vera um tekjuöflun á næsta ári, en að öðru leyti hefur ekki verið tóm til að athuga tekjuhliðina, og það hefur ekki verið gert í nefndinni, heldur munu meirihlutamenn byggja sínar till. á áliti efnahagsmrn. hér um, og óskaði ég ekki eftir að eiga aðild að flutningi þeirra, enda þótt þar með sé að sjálfsögðu ekki sagt, að ég sé andvígur þeim, eins og líka hefur verið leiðrétt.

Í þeim till., sem ég hef sérstaklega sem 2. minni hl. fjvn. gert við þetta frv., eru ekki heldur till. við tekjuhliðina að öðru en því, að ég hef gert till. um það að hækka um 10 millj. kr. þá áætluðu upphæð, sem Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins skilar ríkissjóði væntanlega á n. k. ári. Ég get einnig játað það, að sú till. byggist ekki á mjög nákvæmri athugun. En þó sýnist mér í fljótu bragði, að engin ástæða sé til þess að ætla, að tekjurnar verði ekki a.m.k. þessu hærri en í frv. er gert ráð fyrir, en líklegra tel ég þó hitt, að það mætti hækka þær nokkuð umfram þetta.

Um till. þær, sem mínu nál. fylgja um útgjaldaliði fjárlagafrv., þykir mér rétt að fara nokkrum orðum sérstaklega.

Eins og hér hefur raunar verið rakið nokkuð af frsm. hv. 1. minni hl. fjvn., hefur mikið verið talað um það, bæði í ræðum og einnig í nefndarálitum, frá ríkisstjórninni og hennar stuðningsmönnum, að mikið kapp skuli framvegis leggja á sparnað í ríkisrekstri. Í nál. meiri hl. fjvn. við afgreiðslu síðustu fjárlaga voru sparnaðaráætlanir í ekki færri en 23 liðum. Fyrsti liðurinn í þeim till. var um sendiráð Íslands í útlöndum, og þar var tekið fram, að til mála þætti koma að lækka launagreiðslur til starfsmanna í sendiráðunum, einnig þætti vel koma til mála, og ríkisstjórninni var raunar sett það fyrir, að fækka sendiráðunum, og sérstaklega á það bent, að vel mætti komast af með að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum í staðinn fyrir þrjú, sem nú eru þar. Þar stóð reyndar, að enn mætti fækka sendiráðum Íslands í útlöndum, og mun það hafa verið skráð með sérstöku tilliti til þess, að ríkisstj. þóttist fækka sendiráðum Íslands á árinu 1960 með því að hafa ekki nema eitt íslenzkt sendiráð í Parísarborg. Þessi fækkun sendiráða Íslands í París úr tveimur í eitt var reyndar framkvæmd með dálítið kynlegum hætti. Hún var framkvæmd með því, að það var ekki fækkað sendiherrum, heldur var annar sendiherrann látinn vera sendiherra í stjórnarráðinu hér við Lækjartorg, en einn sendiherra sat eftir í París. En hann hafði líka yfir tveimur sendiráðum að ráða. Og það kemur líka fram á fjárlögum yfirstandandi árs, að sendiráðið í París er með útgjöld svo sem eins og tvö meðalsendiráð, enda er því við brugðið af flestra þeirra hálfu, sem í þá borg hafa komið og séð, með hverjum hætti Ísland rekur þar sína utanríkisþjónustu, að slíkt bruðl sé með fádæmum.

Ég hef að vísu ekki gert till. um það að fækka sendiráðunum í París, því að þar þykist ríkisstj. vera búin að gera skyldu sína, þótt hún hafi gert það með þessum hætti. Hitt er á hinn bóginn óumdeilanlegt, að hún á algerlega eftir að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart sínum stuðningsmönnum í fjvn., sem á sínum tíma sögðu henni að setja upp eitt sendiráð á Norðurlöndum í staðinn fyrir þrjú. Og ég hef í mínum till. rétt ríkisstjórninni eða þeim hluta ríkisstjórnarliðsins, sem vill taka sjálfan sig alvarlega, rétt þeim höndina til samvinnu með því að gera í mínum brtt. tillögu um það, að sendiráðin þrjú í Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi verði felld niður af fjárl. sem sérstakir fjárlagaliðir, en í þeirra stað komi eitt sendiráð á Norðurlöndum, sem utanrrn. mundi að sjálfsögðu setja niður þar, sem það teldi heppilegast til þess að inna af hendi sendiráðsstörf af Íslands hálfu á Norðurlöndum. Mér sýnist, að með þessum hætti og með því að ætla þessu Norðurlandasendiráði nokkru ríflegri fjárveitingu en nokkurt sendiráðanna, sem nú starfa á Norðurlöndum, hefur, ætla því 2 millj. kr. í ársþarfir, þá væri hægt að spara verulega á fjárlögum, eða spara um svo sem eins og tæpar 3 millj. kr. ríkisútgjöldin á þeim lið. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að gera hlé á máli sínu, því að það er ráðgert, að það verði fundarhlé milli klukkan fjögur og fimm?) — [Fundarhlé.]

Þegar hlé var gert á fundinum, hafði ég gert grein fyrir brtt. minni á þskj. 184 við 10. gr. fjárlaga, en þar hafði ég lagt til, að sendiráð Íslands á Norðurlöndum yrðu sameinuð í eitt sendiráð.

Við 11. gr. fjárl, hef ég leyft mér að flytja tvær brtt. Önnur fjallar um löggæzluna á Keflavíkurflugvelli, ríkislögregluna á Keflavíkurflugvelli, en til þarfa þeirrar lögreglu er á fjárlagafrv. ætlað úr ríkissjóði 4577 000 kr., sem virðist vera ólíkt ríflegar skammtað fé heldur en til margra annarra þarfa, sem á ríkissjóð kalla. Þess er að geta sérstaklega í sambandi við lögreglumál, að úr ótal áttum er mjög sótt á um það að fá aukna löggæzlu, bæði í sambandi við mannfjölgun, sem verður á einstökum stöðum vegna atvinnuhátta, og einnig þeim þorpum í nágrenni Reykjavíkur, þar sem í sambandi við skemmtanahald verður mikið um mannaferðir og nokkurrar löggæzlu þykir þörf umfram það, sem þegar er. Við öllum slíkum kröfum hefur verið daufheyrzt í fjvn. að þessu sinni. Enda þótt í rauninni sé búið að gera af Alþ. hálfu samþykktir, sem fara í þá átt, að lögreglukostnaður á slíkum stöðum eigi að greiðast með þátttöku ríkisins, þá hefur þeim samþykktum ekki verið framfylgt til þessa og daufheyrzt við umsóknum um fjárveitingar úr ríkissjóði til slíks, en eftir stendur það, að á Keflavíkurflugvelli er ætluð fjárveiting til mikils lögregluhalds. Fjvn. gerir sameiginlega till. um að lækka þennan lið um 300 þús. kr., sem svarar til þess, að fækkað verði þar í liðsafla um þrjá lögregluþjóna. En mér finnst sú lækkun, þó að ég fylgi henni, svo langt sem hún nær, vera allt of lítil og hef gert till. um það, að framlag til ríkislögreglunnar á Keflavíkurflugvelli verði lækkað um helming, og mundu ríkissjóði með því sparast 2 288 000 kr., enda sé ég ekki, að það þurfi að veita hærri fjárhæðir en svo til þess að leggja til lögreglulið til að vernda okkur fyrir verndurum okkar, enda er þá eitthvað bogið við allan þann málatilbúnað og allar þær réttlætingar, sem hafðar eru uppi hér á Alþ. og víðar um það, að þarna sé eingöngu stöð fyrir liðsafla okkur til verndar, ef við þurfum svo að halda uppi svo óhóflega dýrri löggæzlu sem gert hefur verið að undanförnu og ráðgert er að gera enn.

Ég hef einnig gert þá brtt. við lögreglumálagreinina, að niður verði lagt vinnuhælið á Kvíabryggju, sem svo er kallað í fjárlögum, en þetta vinnuhæli á Kvíabryggju er í rauninni ekkert annað en skuldafangelsi, og hef ég aldrei fengið neina útskýringu á því frá hálfu þeirra lögvísu manna, sem í ríkisstjórn hafa fjallað um fjárveitingar eins og þessa. Það hefur stundum verið siður ríkisstjórnarinnar, þegar hún hefur þurft að réttlæta með einhverjum hætti till. sínar hér á Alþ., að fá uppáskrifað blað frá lagadeild háskólans um það, að gerningur hennar væri í samræmi við stjórnarskrá landsins. Nú vildi ég sérstaklega óska eftir því í sambandi við afgreiðslu þessara fjárlaga, þar sem ætlaðar eru 1050 000 kr. til þess, að ríkið reki skuldafangelsi að Kvíabryggju, — ég vildi sérstaklega beina því til dómsmrh., að mér þætti ákaflega vænt um að fá réttlætingu á því, hvar það er leyft í íslenzkri löggjöf að reka skuldafangelsi. Ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess að leggja slík gögn fram sjálf, þá mælist ég til þess, að hún afli sér álits lagadeildar Háskóla Íslands um það, hvort hér sé um löglegt eða löglaust athæfi að ræða. Ég hef sem sagt enga réttlætingu séð á því og veit ekki til þess, að það eigi stoð í íslenzku réttarfari að reka skuldafangelsi, og hef þess vegna lagt til, að þessi fjárlagaliður verði felldur niður og ríkið hætti þeirri starfsemi sinni að halda uppi skuldafangelsi.

Við 12. gr., heilbrigðismálagrein fjárlaganna, hef ég gert eina brtt. Hún er um það, að styrkur ríkissjóðs til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða, annarra en ríkissjúkrahúsa, verði hækkaður úr 5 275 000 kr., sem í frv. er gert ráð fyrir, í 7 500 000 kr. Það er vitað mál, að ríkið á lögum samkvæmt að taka ákveðinn þátt í byggingarkostnaði sjúkrahúsa. Það dregst mjög aftur úr um það að standa skil á sínum hluta af þessum kostnaði, og einnig hefur fjárskortur til þessara þarfa orðið til þess, að heilbrmrn. hefur mjög tregðazt við að leyfa nýjar sjúkrahúsabyggingar, enda þótt þær séu óumdeilanlega þarfar og nauðsynlegar. Ég hef þess vegna gert till. um það, að þessi fjárlagaliður verði hækkaður um rúmlega 2 millj. kr., og mundi þá nokkuð rýmkast um í þessu efni. Auðvitað er sú till., sem ég hef hér gert, ófullnægjandi til þess að leysa ríkið frá sínum skyldum, þannig að ekki standi upp á greiðslur af þess hálfu, en þessi till. er þó mjög í þá áttina.

Kem ég þá að 13. gr. fjárlaganna, en við A-lið hennar, samgöngumálin á landi, hef ég gert 5 till. Fjalla þær um vegi og brýr.

Þess hefur áður verið getið hér, að framkvæmdir þær, sem ríkið á að standa straum af, hafi mjög dregizt saman vegna aukinnar dýrtíðar, þar eð fjárframlög hafa ekki hækkað til þeirra í neinu hlutfalli við dýrtíðaraukninguna. Þetta kemur sérstaklega hart niður á vegagerð ríkisins, sem einnig hefur með að gera brúarsmíðar. Vegamálaskrifstofan reiknar ævinlega út á hverju ári vísitölu byggingarkostnaðar vega- og brúa, og ef, eins og vegamálaskrifstofan gerir, talið er, að vegagerðarkostnaðurinn hafi verið 100 árið 1949, þá var hann orðinn 367 kr. að meðaltali á yfirstandandi ári, og vegamálaskrifstofan áætlar út frá því, sem hún veit um verðbreytingar nú þegar, að á næsta ári muni vísitala vegagerðarkostnaðar verða 406. Þótt ekkert væri bættur upp sá kyrkingur, sem komið hefur í vegagerðina á síðustu árum vegna aukinnar dýrtíðar, heldur aðeins reynt að halda í horfinu frá því, sem var á yfirstandandi ári, þyrfti mjög að hækka framlög til vegagerðar á fjárlögum ársins 1962.

Svipaða sögu er að segja um brúargerðirnar. Vísitala brúarsmíða var á yfirstandandi ári 393 stig, miðað við 100 1949, en á næsta ári áætlar vegamálaskrifstofan að brúargerðarkostnaður muni vera 427 vísitölustig með sama hætti.

Ég hef gert till. um það, að sem næst verði haldið í horfinu um vega- og brúargerðir á árinu 1962, miðað við það, sem var á yfirstandandi ári, og reynt að spyrna nú fæti við um, að þessar framkvæmdir dragist frekar saman en orðið er. Till. mínar í þessu efni nema samtals 5 420 000 kr., og mundi ekki verða haldið í horfinu með þeirri hækkun einni saman. En ég hef tekið tillit til þess, að ég er ásamt öllum fjárveitingarmönnum öðrum meðflm. að till., sem varða þessa liði og nema 1.4 millj., um sérstakan fjárlagalið: til vegabóta eða til samgöngubóta á landi, og einnig um hækkun á fjallvegafé um 165 þús. kr., svo að nærri lætur, að ég eigi þá alls aðild að nær 7 millj. kr. hækkun, eða 6 985 000 kr. hækkun á þessum tilteknu liðum, en það er það fé, sem þarf til þess að halda í horfinu frá s.l. ári. Ég hef hins vegar gert till. um það, að fé þetta skiptist með nokkuð öðrum hætti á hinar einstöku framkvæmdir en ég sé t.d. að hv. 1. minni hl. nefndarinnar gerir, þar sem hann lætur framlagið koma bara á tvo liði, miðar reyndar við árið 1960, og flytur þar af leiðandi nokkru meiri hækkunartill. en ég.

Ég hef lagt til, að fé þetta skiptist sem hér segir: í fyrsta lagi, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, auk þeirra till., sem fluttar eru sameiginlega af fjvn., hef ég lagt til, að til vegagerðar verði framlagið hækkað úr 20 480 000 kr. í 22 650 000 kr., til endurbyggingar þjóðvega verði framlag hækkað úr 800 þús. kr. í 1 millj., til brúargerða verði framlagið hækkað úr 11280 000 kr. í 12 250 000 kr. og til endurbyggingar gamalla brúa verði hækkað úr 1425 000 kr. í 1.6 millj. kr.

Þá hef ég einnig lagt til, að framlag til steyptra og malbikaðra vega í kaupstöðum og kauptúnum verði hækkað úr 95 þús. kr. í 2 millj. kr., enda er á því hin brýnasta nauðsyn og fjárupphæðin 95 þús. í þær þarfir, varanlega vegagerð í kaupstöðum og þorpum, nánast tiltekið hlægileg, eins og verðlag er nú orðið, og væri alveg eins sæmilegt að strika hana út af fjárlögunum og að láta hana standa þar, því að fullyrða má, að eins og verðlagi nú er komið, þá geri hún ekkert gagn og hvetji engan til þess að leggja í slíkar framkvæmdir, svo smá er hún, miðað við verðlag nú.

Þá hef ég gert brtt. við þann lið 13. gr. frv., sem fjallar um hafnargerðir og lendingarbætur. Um það framlag ríkisins gegnir því sérstaka máli, að ríkið er skuldbundið til þess eftir ákveðnum lagagreinum að greiða vissan hluta af byggingarkostnaði hafna og lendingarmannvirkja, en um mörg undanfarin ár hefur verið misbrestur á því, að ríkið stæði við skuldbindingar sínar að þessu leyti, og segi ég það ekki sérstaklega þeirri ríkisstj., sem nú situr, til hnjóðs, sökum þess að sú þróun var byrjuð fyrir hennar daga og raunar löngu fyrir hennar daga. En á hinn bóginn er því ekki að neita, að með því hækkaða verðlagi, sem stafar af viðreisnarráðstöfununum, hefur byggingarkostnaður hafnanna hækkað gífurlega, og sú þróun, að ríkið dragist aftur úr í því að standa við sínar skuldbindingar, hefur verið miklu hraðari á síðustu árum en hún áður var. Hv. frsm. 1. minni hl. hefur hér gert grein fyrir því, að ef gerðar verða þær hafnarframkvæmdir, sem ráðgerðar eru á næsta ári og vitamálaskrifstofan hefur gert áætlanir um, þá mundi það taka ríkið ekki minna en fimm ár að borga sinn hlut í framkvæmdum næsta árs og þeim skuldum, sem þegar hvíla á ríkinu, ef framlag til hafnargerðanna ætti að standa óbreytt eða lítið breytt. Ég hef þess vegna gert till. um, að framlag ríkissjóðs til hafnarbóta verði hækkað úr 13.5 millj., sem það nú er í frv., í 20 millj. Það er till. um hækkun, sem nemur 6.5 millj., en það mundi sízt af því veita, ef gera ætti greiðslufrest ríkissjóðs á sínum skuldbindingum nokkuð teljandi styttri en hann nú er. En raunin er nú þannig, að þegar ráðizt er í hafnargerð á einhverjum stað, ef sú hafnargerð kostar eitthvert verulegt fé, þá reynist hið lögákveðna ríkisframlag ólíkt ódrýgra en hafnarlögin ætlast til, vegna þess að það kemur svo seint í hendur viðkomandi hreppsfélagi, sem um hafnargerðina sér, að það hrekkur naumast fyrir meira en vöxtunum af þeim lánum, sem viðkomandi hreppsfélög eða bæjarfélög hafa orðið að taka til hafnargerðarinnar, því að vextirnir eru nú slíkir og drátturinn á því, að ríkið skili sínum framlögum, að þau verða nánast tiltekið að engu nema vaxtakostnaði af lántöku. Hér á verður því að ráða bót, því að hér er komið í hreint óefni, og verð ég að játa, að sanngjarnt hefði verið að gera hér miklum mun stærri hækkunartill. en ég hef gert. En ég hef miðað till. mínar fyrst og fremst við það að prófa til þrautar, hvort hér er ekki hægt að rýmka nokkuð um, þannig að ríkið reyni að færa sig ögninni nær því en nú er að standa við sínar skuldbindingar, enda þótt fjárframlögin í þessu skyni, að minni till. samþykktri, væru að sjálfsögðu hvergi nærri fullnægjandi.

Við 14. gr. fjárlaga hef ég gert tvær brtt. önnur er varðandi verkamannafélagið Dagsbrún, sem nú hefur eignazt mikið og að flestra áliti mjög merkilegt safn bóka og blaða, sem a.m.k. að uppistöðu til er runnið frá Héðni heitnum Valdimarssyni. Verkamannafélagið Dagsbrún hefur komið þessu safni fyrir í vistlegum húsakynnum og séð því fyrir vörzlu og ber af því mikinn kostnað. En hér er líka um að ræða hina beztu starfsemi, og með því að ríkið styrkir fjölmörg bókasöfn, sem minna er um vert en þetta safn, hef ég gert að till. minni, að orðið verði við umsókn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar um 100 þús. kr. framlag til þessa bókasafns.

Ég hef einnig gert brtt. við fjárlagaliðinn, sem nefndur er: til skálda, rithöfunda og listamanna, eða listamannalaun, eins og sá liður er oftast nefndur. Hér er í rauninni um beina launaliði að ræða, og þar eð flestir, ef ekki allir launaliðir fjárlaga hafa verið hækkaðir um 13.8%, sem er hin almenna launahækkun á snærum ríkisins, þá hefur mér þótt eðlilegt, að þessi liður væri hækkaður um sömu upphæð, og hef ég gert till. um það. Sú hækkun mundi nema 175 þús. kr. og fjárlagaliðurinn breytast úr 1260 000 kr. í 1435 000 kr.

Ég hef leyft mér að gera þrjár brtt. við 16. gr. fjárlaga, greinina, sem fjallar um atvinnumál.

Í fyrsta lagi hef ég þar lagt til, að framlag ríkisins til mjólkurbúa og smjörsamlaga hækki úr 95 þús. kr. í 2 millj. Í sérstakri lagagrein í lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins er gert ráð fyrir því, að ríkið styrki mjólkurbú og smjörsamlög með sérstökum hætti og eftir ákveðnum reglum. En það er eins með þann lið og ýmsa aðra, sem ríkið hefur í rauninni tekið á sig skyldur af, að þar hefur illa verið staðið við fjárveitingar, og stendur inni á fjárlögum 95 þús. kr. fjárveiting í þessu skyni, sem er allsendis ónóg, enda hefur allur byggingar- og búnaðarkostnaður slíkra stofnana orðið svo mikill á síðustu árum, að óhugsanlegt er að láta þennan fjárlagalið standa óbreyttan, ef ríkið ætlar þar að standa við skyldu sína. En það hefur samt verið gert, að því undanskildu, að fyrir þremur árum var þessi fjárlagaliður aðeins hreyfður til, ekki til hækkunar, heldur var hann lækkaður úr 100 þús. kr. í 95 þús. kr., og þar við hefur setið æ síðan, enda þótt skuldir ríkissjóðs hafi myndazt í sambandi við þennan lið. Ég hef lagt til, að hann verði hækkaður upp í 2 millj. Ég hygg, að hann þyrfti ekki að verða svo há upphæð að staðaldri á fjárlögum. En a.m.k. á meðan verið er að reyna að grynna eitthvað á þeim óreiðuhala, sem myndazt hefur, þá veitir sízt af því, að þessi fjárlagaliður verði hækkaður í 2 millj.

Þá hef ég lagt til, að á sjávarútvegsmálalið fjárlagafrv., 16. gr. B, verði tekinn upp nýr liður: til að hreinsa veiðisvæði bátaflotans af þorskanetaleifum 1 millj. kr. Það er á allra vitorði og veldur flestum, sem um þau mál hugsa, miklum áhyggjum um þessar mundir, að eftir að til sögunnar komu þorskanet, sem fúna ekki í sjó, hleðst á netaveiðisvæði bátaflotans alls konar netaúrgangur, sem bátar verða þar af ýmsum ástæðum að skilja eftir. Þegar er fengin reynsla af því, að slíkar netaleifar eru mjög líklegar til þess að spilla sjálfum veiðisvæðunum til frambúðar, og þykir mér einsýnt, að til þess verði að koma, að ríkið sjái um, að þorskanetaveiðisvæðin verði með skipulögðum hætti hreinsuð af slíkum drauganetum, eins og þau venjulega eru kölluð, í lok hvers veiðitímabils, og hef ég þess vegna lagt til, að til þessa verði veitt af fjárlögum 1 millj. kr.

Varðandi iðnaðarmálalið fjárlaganna, 16. gr. C, hef ég tekið upp till. um, að Iðnnemasamband Íslands fái þar 50 þús. kr. styrk. 16. gr. C á fjárlögum byrjar á fjárveitingu til Iðnaðarmannasambandsins, 150 þús. kr., og ég sé ekki, að réttlætanlegt sé að neita Iðnnemasambandinu með öllu um hliðstæðan styrk, og hef þess vegna borið þessa till. fram.

Við 17. gr. fjárlaga hef ég gert þrjár till. Eina þeirra, framlagið til atvinnuleysistrygginganna, hef ég þegar rætt. En hinar tvær fara í þá átt, að ég legg til, að framlag ríkissjóðs til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna verði hækkað úr 475 þús. í 1 millj. kr. Það er almennt viðurkennt, að íslenzkir verkamenn vinni miklu lengri vinnudag en tíðkanlegt er hjá öðrum þjóðum. Það kallar auðvitað á enn þá meiri þörf fyrir það, að verkamenn hafi aðstöðu til þess í sínu sumarfríi að koma sér fyrir til hvíldar og hressingar, þannig að þeir megi endurnýja starfsþrek sitt undir næstu átök, en í þeim efnum er ekki til neitt orlofsdvalarheimili enn sem komið er. Alþýðusamband Íslands hyggst koma slíku orlofsdvalarheimili verkalýðssamtakanna upp og væri vafalaust búið að því eða a.m.k. komið vel á veg með það, ef ekki hefðu skollið yfir þær verðhækkanir og það dýrtíðarflóð, sem fylgdi í kjölfar hinna breyttu efnahagshátta, en það hefur til þessa hindrað það, að orlofsheimili verkalýðssamtakanna gæti risið, og það er því mikil þörf á því og í rauninni má telja, að það væri ekki nema svolítil skaðabót, þótt ríkissjóður hækkaði framlag sitt um þá upphæð, sem ég hér hef nefnt, 525 þús. kr.

Þá hef ég lagt til, að félaginu Sjálfsbjörg verði veittur nokkur byggingarstyrkur. Það hefur sótt um 75 þús. kr. byggingarstyrk. Í fjvn. hefur verið samþykkt að veita því 20 þús. kr. byggingarstyrk. Sú fjárhæð er að vísu allra góðra gjalda verð, en mér finnst hún mikils til of lág. Og þegar um er að ræða félag, sem er samtök öryrkja, þá er vart að búast við því, að þeirra rammleikur sé mjög mikill á fjárhagssviðinu, og þætti mér mjög hóflegt, þótt orðið hefði verið við þeirra hógværu beiðni um 75 þús. kr. framlag, og leyfi mér að gera till. um það.

Ég hef einnig gert brtt. við 19. gr. frv., sem fjallar um niðurgreiðslur á vöruverði og uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir, og hef ég þegar gert þá tillögu að umtalsefni og sé ekki ástæðu til að fara um hana fleiri orðum.

Mér þykir vert, áður en ég lýk því að mæla hér fyrir tillögum, sem ég hef flutt á þskj. 184, að geta þess, að ég stend einnig að nokkrum fleiri brtt. ásamt nokkrum samþingsmönnum mínum úr Suðurlandskjördæmi, og þykir mér vert að geta hér einnar þeirra. Hún er við 22. gr. fjárlaga. Það er að vísu galli, að þm. hafa ekki þá tillögu fyrir framan sig, þar sem henni hefur ekki verið útbýtt hér enn þá.

Það er á allra vitorði, að mjög miklar ráðagerðir hafa að undanförnu verið uppi um það að brúa Ölfusá á nýjum stað, hjá Óseyrarnesi, þ.e.a.s. við ósa Ölfusár. Sú brú hefði mjög mikla þýðingu fyrir allfjölmenn þorp, tvö og þó raunar þrjú, þ.e.a.s. Stokkseyri og Eyrarbakka, en einnig fyrir Þorlákshöfn, sem nú stendur til að verði gerð að stærri höfn og að þar verði meira atvinnulíf en verið hefur. Þorpin Stokkseyri og Eyrarbakki eru illa sett atvinnulega, eins og nú standa sakir. Það er í rauninni að mestu hætt að reyna að bæta hafnirnar á þessum stöðum að nokkru ráði, enda setja menn þar nú alla von sína á Þorlákshöfn. En ef brú kæmi yfir Ölfusá á þessum stað, yrði fjarlægðin, sem fara þyrfti á milli þessara þorpa, Stokkseyrar og Eyrarbakka annars vegar og Þorlákshafnar, ekki meiri en svo, að vel væri hægt að nota aðstöðuna, sem þegar er í þessum tveim þorpum, til þess að styðja við atvinnulífið í Þorlákshöfn, en þó því aðeins, að þessi brú komi. Þorlákshöfn sjálf mundi einnig hafa mjög mikið gagn af því að geta nýtt vinnukraftinn, sem þarna er fyrir hendi og hefur húsnæði og ýmiss konar aðrar þarfir í sínum gömlu þorpum. Nú er það gefið mál, að brú þessi er dýrari en svo, að til hennar verði veitt fé, svo að fullnægjandi sé, á einum eða tvennum fjárlögum, og hefur mjög verið talað um það, að til þessarar brúargerðar verði að taka lán, sem síðan verði að borgast upp á nokkrum tíma. Ég er þeirri hugmynd samþykkur, og samflutningsmenn mínir að tillögunni varðandi þetta mál eru það einnig, og gerum við því tillögu um það, að á 22. gr. fjárlaga verði ríkisstj. heimilað að taka allt að 25 millj. kr. lán til þess að ljúka undirbúningi og hefja framkvæmdir við þessa brúarsmíði á Ölfusá í Óseyrarnesi.

Öðrum þeim tillögum, sem ég á aðild að við fjárlögin, vænti ég að aðrir muni gera hér grein fyrir, áður en umr. lýkur.

Ég vil þá að lokum gera grein fyrir því, að í þeim tillöguflutningi, sem ég hef hér viðhaft, liggur það að vísu fyrir, að ef fjárlög væru samþykkt með þeim breytingum, sem ég hef lagt til, þá mundu fjárlögin sýna halla. Á hinn bóginn kemur sá halli eingöngu til af tveim tillögunum, tillögunni um atvinnuleysistryggingarnar og tillögunni um framlagið á 19. gr. til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta. Það mundi hins vegar í engu aflaga fjárhag ríkissjóðs. Það mundi kannske óprýða fjárlögin fyrir þá, sem finnast það vera falleg fjárlög, ef tölurnar standast þar á, en gefa minni gaum að hinu, hvað gerist í rauninni. Ég vil að sjálfsögðu taka allan þátt í því, um það er afgreiðslu fjárlaga lýkur, að koma þeim saman án halla. En ég hef ekki gert tilraun til þess við þessa umr. málsins, heldur tel ég, að sjálfsagt sé að þrautkanna það við þessa umr., hvernig liðsstyrkur ríkisstj. hér á Alþingi bregzt við þeim tillögum, sem gerðar hafa verið í þessu efni, áður en kemur til þess, að unnið verði að því að fá tekjur eða sparnað, sem vegið geti á móti þeim halla, sem þannig yrði á fjárlögunum. Ég sem sagt hef ekki gefið gaum að því í þessari umferð að gera tillögur um það að jafna þann halla, sem á fjárreiðum ríkisins verður með því að taka tillit til þessara útgjalda, en tjái mig fúsan til þess að taka þátt í því, að hér verði afgreidd hallalaus fjárlög, án þess að út af þeim sé hent fyrirsjáanlegum fjárgreiðsluliðum, og ekki heldur viljað taka þátt í því að gera hér fjárlagaáætlanir um einhverja hluti, sem Alþingi fær ekkert um að vita, eins og virðist vera tilgangur ríkisstj, með því að lækka framlagið til niðurgreiðslnanna frá því, sem ráðuneytið telur að þær þurfi að vera að óbreyttu, án þess að gera Alþingi nokkra grein fyrir því, hverjar breytingar þar eru fyrirhugaðar. Aðrar tillögur, sem ég hef hér gert, raska ekki jafnvægi fjárlaga. Þær eru samtals í auknum útgjöldum upp á rösklega 18 millj. kr. En ég hef líka gert tillögur um ýmist hækkaðar tekjur eða sparnað í ríkisrekstrinum um nokkuð á 17. millj. kr., og það bil, sem þarna er á milli, raskar ekki greiðslujöfnuði fjárlaganna þannig, að fjárlög yrðu ekki afgreidd hallalaus, miðað við þessar tillögur.

Þegar ríkisstj. og talsmenn hennar hafa almennt rætt fjármál ríkisins, hafa þeir gjarnan haldið því fram, að afgreiðsla fjárlaga mótaðist af þrennu:

Í fyrsta lagi því, að engir nýir skattar væru á þjóðina lagðir með afgreiðslu fjárlaganna. Ég hef lítillega drepið á það, hver sannleikur það er. Hér hafa vissulega með fjárlögum verið lagðir á nýir skattar, en einkum þó auknir þeir, sem fyrir voru, og það er auðvitað ný skattheimta, þegar verðgildi krónunnar er rýrt svo, að allar tekjur ríkissjóðs af innflutningi eru innheimtar af miklum mun hærri upphæðum en áður. Það er auðvitað ný skattheimta. Hér var lagður á söluskattur á fyrsta ári víðreisnarinnar, sem hafði ekki þekkzt áður. Hann var lagður á part úr árinu 1960, hann var lagður á allt árið 1961, og það stendur einnig til að leggja hann á allt árið 1962. Að auki er búið við stórhækkað útflutningsgjald, sem að vísu standa engar tölur um hér á fjárlögum, en af þeim útflutningsskatti er þó ætlað að taka tekjur til ríkisins þarfa, eða a.m.k. hefur það verið gert á yfirstandandi ári eða stendur til að gera. Í lagasetningunni um ráðstafanir vegna breytts gengis er gert ráð fyrir því, að hluti af ríkisábyrgðargreiðslunum verði greiddur með þeim tekjum, sem fást annaðhvort af gengishagnaði eða af þessum nýja útflutningsskatti.

Þá hefur því verið haldið fram af stjórnarliðinu, að stöðugt sé unnið að sparnaði ríkisútgjalda. Það er kannske virðingarvert, að það fer í minna lagi fyrir orðræðum talsmanna ríkisstj. um þennan lið nú. Það eru ekki skrifaðir upp langir listar af göfugum áformum, enda er þegar fengin reynsla af því, hvert slík áform leiða, en það hefur ekki verið til hinna betri staða. Það eina, sem ríkið hefur sparað á undanförnum fjárlögum, eru framlögin til verklegu framkvæmdanna. Það hefur verið sparað framlag til vega, sparað framlag til brúa, sparað framlag til skóla, sparað framlag til flugvalla, sparað framlag til hafna. Við þessa umr. fjárlaga eru einungis gerðar tillögur um það, að leyfðar verði þrjár nýjar skólahúsabyggingar á árinu 1962. Þjóð, sem er í jafnörum vexti og Íslendingar eru, hlýtur auðvitað að þurfa að byggja miklu meira af skólum, ef það á ekki að koma þjóðinni sjálfri í koll síðar, með því að hún verði, þegar búið er að draga þannig saman og halda aftur af landsmönnum að byggja skólamannvirki, að taka stórt stökk í þeim efnum, sem verður ríkissjóði þá væntanlega mjög þungur baggi.

Í þriðja lagi hefur hér mjög verið talað um það, og menn setja sig gjarnan í mjög ábyrgar stellingar, þegar þeir halda því fram, að það sé höfuðmarkmið að afgreiða hallalaus fjárlög. Stendur nú til að afgreiða hallalaus fjárlög, ef farið verður eftir þeim tillögum, sem hér eru fram komnar af ríkisstj. hálfu? Ég segi nei og aftur nei. Ég hef þegar sýnt fram á það, að hér hefur verið efnt til rúmlega 100 millj. kr. halla á fjárreiðum ríkisins, því að það er auðvitað engin afgreiðsla á einu máli að taka ákveðnar greiðslur, sem ríkissjóður verður að inna af hendi, og nefna þær ekki á fjárlögunum. En auk þess er stöðugt í vaxandi mæli efnt til óbeins halla á fjárlögunum með því að standa ekki við þær skuldbindingar, sem ríkið á að standa við samkvæmt lögum, en svo er um framlagið til hafnargerða, svo er um framlagið til íþróttasjóðs, svo er um framlagið til mjólkurbúa og smjörsamlaga, svo er um framlagið til sjúkrahúsa, svo að nokkuð sé nefnt. Við ekkert af þessu er staðið samkvæmt lögum, og er það raunverulega ekkert annað en halli á fjárlögum að ætla minni fjárhæðir til þess arna heldur en þær, sem vitað er að ríkið verður að standa við lögum samkvæmt.

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. og hv. meiri hl., sem hana styður í fjvn., taki þessi mál til nokkurra hugleiðinga, áður en hér verður gengið til afgreiðslu fjárlaga. Því miður sýnist mér, að hér færist allt meira og meira í það horf, að það sé í rauninni ekki Alþingi, sem afgreiði fjárlög, heldur komi þau nokkurn veginn fullsköpuð ofan úr því virðulega stjórnarráði og það sé í rauninni ekkert annað en leiðinlegt formsatriði að þurfa nokkuð að vera að leggja þau fyrir Alþingi. Þannig virðist hv. fjárveitinganefndarmeirihluti hafa stöðugt minna um fjárlögin og fjármálapólitíkina að segja, og ef svo heldur fram sem horfir, gætu þm. máske átt von á því, að umsögn þess meiri hl., sem styður ríkisstj. í fjvn. um afgreiðslu fjárlaga, kæmist niður í það að verða eitthvað á þessa leið: Við leggjum til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Til þessa er að vísu ekki komið nú. Og ég vil alvarlega brýna það fyrir þingmönnum, að menn eru ekki kosnir til þessarar samkundu til þess eins að segja já og amen við öllu því, sem stjórnarráðið segir við þá. Það er fólkið í landinu, sem hefur kosið þá til þess að fjalla um m.a. og ekki sízt fjárlögin, deila þar niður tekjum ríkissjóðs sem réttlátast til þegna þjóðfélagsins, og þótt mönnum kunni að finnast, að þeir, sem í ráðuneytinu sitja, séu bæði miklir menn og ágætir, þá leysir það engan þm. frá þeirri skyldu að hugsa sjálfstætt um afgreiðslu fjárlaga og framkvæma hana eftir beztu vitund.