07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (3400)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru fáein orð að gefnu tilefni frá hæstv. landbrh. Hæstv. ráðh. segir í tilefni af þeirri till., sem hér liggur fyrir um að lána meira út á íbúðabyggingar vegna stórhækkandi kostnaðar við byggingarnar, að það sé mikil þörf á því að hækka þessi lán, og það er gott, að hæstv. ráðh. sér það. En hann segir, að það hafi einnig áður verið mikil þörf á því að lána meira út á íbúðabyggingar í sveitum og víðar, menn hafi sjálfsagt verið fullir af vilja til þess áður að gera svo og séu það enn, skilst mér, en það hafi bara ekki verið hægt, því séu mikil takmörk sett, hvað hægt sé að ná saman af fjármagni til að greiða fyrir þessari lánsfjárþörf.

Í framhaldi af þessu segir svo hæstv. ráðh., að sjóðir Búnaðarbankans hafi verið mjög illa leiknir á undanförnum árum, því að menn hafi gripið til þess ráðs að taka handa sjóðunum erlend lán, og er svo helzt að heyra á hæstv. ráðh., að þetta hefðu menn alls ekki átt að gera. Það er a.m.k. ekki hægt að skilja öðruvísi þetta tal hæstv. ráðh. um það, hvað sjóðir Búnaðarbankans hafi verið herfilega leiknir og illa við þá skilið, vegna þess að í þetta var ráðizt.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að menn hafa sjálfsagt gjarnan viljað lána meira en gert hefur verið út á íbúðabyggingar á undanförnum árum. Það, sem lánað hefur verið, hefur takmarkazt af því, hvað menn treystu sér til að útvega mikið fé í þessu skyni, innanlands eða erlendis.

En þess ber að gæta, að á þessum árum, sem hæstv. ráðh. mun þarna eiga við, þ.e.a.s. árunum áður en núverandi valdasamsteypa kom til greina, var ósleitilega haft í umferð í landinu allt það fjármagn, sem í landinu safnaðist. Það fjármagn, sem safnaðist í landinu inn í bankakerfið, sparifé landsmanna, var lánað út. Og það var gengið eins langt í því, að Seðlabankinn endurkeypti afurðalán, til þess að auka útlánin í landinu, eins og menn á þeim árum töldu fært. Það var því áreiðanlega ekki á þeim árum hægt að saka einn eða neinn um, að það fjármagn, sem til ráðstöfunar var innanlands, væri ekki notað til þess að greiða fyrir fólki á einn eða annan hátt með útlánum, bæði úr lánsstofnunum þeim, sem fólk lagði sparifé sitt inn í og einnig að öðru leyti, t.d. frá Seðlabankanum, sem sá um afurðalánaveitingarnar.

En sannleikurinn var sá, að þó að þessu fjármagni væri öllu beitt og það látið vera í umferð, þá tókst ekki samt að fullnægja lánaþörfinni, eins og menn töldu lífsnauðsyn að gera, og þá var gripið til þess úrræðis að taka lán erlendis til viðbótar, og það fé var svo lánað út í ýmis fyrirtæki hér innanlands og þ. á m. landbúnaðinum í gegnum sjóði Búnaðarbankans. Nú má kannske segja, að það hefði átt að taka meira, við skulum segja t.d. af hinu almenna sparifé, en gert var og láta í þessa sjóði og taka svo aftur erlendu lánin handa viðskiptabönkunum eða einhverjum öðrum aðilum. En þessu var nú svona hagað, að viðskiptabankarnir og sparsjóðirnir lánuðu út það, sem safnaðist innanlands, Seðlabankinn sá um afurðalánin, og síðan voru tekin erlend lán í ýmsar fjárfestingarframkvæmdir, þ. á m. til landbúnaðarins. Og það er þetta, sem hæstv. núv. landbrh. kallar, að sjóðir Búnaðarbankans hafi verið sérstaklega hart leiknir, að það var tekið erlent fjármagn til að lána í landbúnaðinn. Þetta telur hæstv, landbrh. nánast hneyksli. En sannleikurinn er sá, að ef þetta hefði ekki verið gert, há hefði ekki verið unnt að koma áleiðis þeim stórstígu framförum, sem orðið hafa í sveitunum.

Nú veit ég ekki vel, hvort hæstv. landbrh, meinar, að hneykslið liggi í því, að bændum voru ekki lánuð þessi lán í erlendum gjaldeyri. Það má vera, að hæstv. ráðh. meini það, hann sé í sjálfu sér ekki að deila á, að það voru tekin lán erlendis til að veita fé í landbúnaðinn, heldur sé hann að deila á hitt, að sjóðir Búnaðarbankans skuli hafa verið svona harðlega leiknir, eins og hann orðaði það, þ.e.a.s. að sjóðir Búnaðarbankans fengu erlendu lánin, en lánuðu bændum aftur í íslenzkum krónum og tóku því á sig gengisáhættu. En nú eru þessir sjóðir Búnaðarbankans ríkisstofnanir, þannig að ríkið tók raunverulega á sig þessa gengisáhættu. E.t.v. meinar hæstv. landbrh., að það hefði átt að lána bændum þessi lán í erlendum gjaldeyri. En þá held ég að hefði nú orðið þröngt fyrir dyrum margs bóndans, ef hann hefði átt að fá ofan á aðrar sendingar frá hæstv. núv. ríkisstj., sem viðreisnarpólitíkinni fylgja, gengishækkun á lánin, hefði sem sé átt að koma hækkun á öllum lánum landbúnaðarins og öllum árgjöldum af þeim í réttu hlutfalli við þær breytingar, sem núv. ríkisstj. hefur staðið fyrir á gengi krónunnar.

En vitaskuld er ekki hægt að skilja þetta skraf hæstv. landbrh. við öll hugsanleg tækifæri um, hvað sjóðir Búnaðarbankans hafi verið illa leiknir, öðruvísi en gagnrýni á það í fyrsta lagi, að menn skyldu leyfa sér að taka erlend lán til að greiða fyrir framförum í landbúnaðinum, í stað þess að láta þar verða stöðvun, í öðru lagi gagnrýni á það, að bændum skyldi ekki vera lánað þetta fé út í erlendum gjaldeyri og þeir svo látnir borga það aftur núna til baka í honum eins og verðið á gjaldeyrinum er nú orðið fyrir tilstuðlan núv. ríkisstj. Út af þessum ráðstöfunum hefur að sjálfsögðu komið fram allmikill gengismunur eða gengistöp hjá sjóðum Búnaðarbankans. Ég segi hiklaust, og það er sjónarmið okkar framsóknarmanna, að það er ekkert meira, þó að þjóðfélagið í heild taki á sig gengistap á þessum lánveitingum til landbúnaðarins, í hvaða formi sem það er gert, en að þjóðfélagið hefur tekið á sig gengistöp á mörg hundruð milljónum kr. erlendra lána, sem tekin hafa verið í þágu þjóðfélagsins alls, eins og gert hefur verið í sambandi við ráðstafanir vegna lækkunar á gengi krónunnar, sem gerðar voru 1960 og raunar líka 1961. En þá tók ríkið á sig stórkostleg gengistöp, sem höfðu orðið eða urðu á erlendum lánum, sem höfðu verið tekin til afnota fyrir almenning í landinu með ýmsu móti, bæði til fjárfestingar og með öðru móti. Því er það ekkert annað en eðlilegur stuðningur við uppbyggingu landbúnaðarins, hliðstætt því, sem á sér stað bæði beint og óbeint við aðra uppbyggingu og fjármálastarfsemi í landinu, að ríkið taki á sig þennan gengismun eða þau gengistöp, sem hafa komið fram hjá lánasjóðum landbúnaðarins. En þeir lánasjóðir eru hreinlega ríkisstofnanir og að öllu leyti á ábyrgð ríkisins og ríkissjóðs.

Ef hæstv. landbrh. telur rangt að ætlast til þess, að ríkið taki á sig þessa þjónustu fyrir landbúnaðinn, verður hann að segja það a. m.k. alveg greinilega, hvað hann á við með þessu tali. Meinar hann þá, að það hefði alls ekki átt að taka þessi erlendu lán til að leggja í fjárfestingar, lánveitingar vegna landbúnaðarins, er það það sem hann á við, eða telur hann, að það hefði átt að lána bændum féð í erlendum gjaldeyri? Hæstv. ráðh. verður að gera grein fyrir því, hvað hann meinar og hvort af þessu tvennu það er, sem hann á við. Eða meinar hæstv. ráðh., að það hefði átt að taka eitthvert annað fé handa þessum sjóðum á þessum árum, þannig að ekki hefði þurft að taka erlendu lánin, og hvaða fé var það þá, sem hæstv. ráðh. taldi að heldur hefði átt að taka innanlands í þessa sjóði? Og hvar voru tillögur hans á þeim árum um innlent fé handa þessum sjóðum í staðinn fyrir erlenda lánsféð, sem útvegað var? Hæstv. landbrh. hefur tekið á sig þá skyldu að svara þessu með sífelldu tali sínu til hnjóðs um þá, sem stóðu fyrir að taka erlend lán inn í lánastofnanir landbúnaðarins.

Ég sagði áðan, að enginn vildi bera sér það í munn, að á undanförnum árum hefði ekki verið tjaldað öllu því, sem til var af innlendu lánsfé, þ.e.a.s. að það hafi allt verið haft í umferð, það fé, sem safnaðist fyrir í landinu sjálfu, og hef ég engan heyrt draga það í efa.

Aftur á móti hefur verið tekinn upp allt annar háttur nú um þetta efni, eins og kunnugt er og er mjög umdeilt. Sá háttur er í því fólginn að taka verulegan hluta af því fjármagni, sem myndast í landinu, þeim sparnaði, sem verður, og færa inn í Seðlabankann og halda þessu fjármagni þannig úr umferð. Og þegar þetta er haft í huga, sem ég skal ekki fara lengra út í við þetta tækifæri, vegna þess að það er ekki beint hér á dagskrá, — þó að það snerti þetta mál auðvitað fullkomlega, hví að í þessu sambandi er verið að gera sér grein fyrir því, hvaða móguleikar séu til þess að útvega fé, — ég held því alveg hiklaust fram, sem ég hef haldið fram annars staðar, en skal ekki fara lengra út í það, nema ástæða gefist til núna, að það sé heilbrigt og eðlilegt, að sparifjáraukningin í landinu sé lánuð út, að spariféð sé haft í umferð, eins og ástatt er hjá okkur. Það sé eðlilegast og heppilegast, þess vegna sé ekki hægt að tala um fjárskort í sambandi við útvegun fjármagns til hinna allra nauðsynlegustu lána, þegar fé er þannig lokað inni. Áður var ekki legið á fénu, það var haft í umferð. Sparnaðaraukningin var látin ganga í útlán, og það hefur komið fram gagnrýni á það, að það hafi verið með því teflt of djarft í fjárhagsmálum landsins yfirleitt. Gagnrýnin hefur beinzt að því frekast. Þá var ekki hægt að halda því fram, að rifuð væru seglin í því tilliti, heldur siglt fullum seglum. En nú hafa seglin verið stórkostlega rifuð að þessu leyti og er mjög umdeilt. Þess vegna vildi ég við þetta tækifæri og beint að gefnu tilefni frá hæstv. landbrh. draga það sjónarmið fram skýrt og skorinort, að það eru möguleikar til þess að leysa úr þessari lánsfjárþörf, ef menn vilja.