07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Eysteinn Jónsson:

Ég gerði kröfu til þess áðan, að hæstv. landbrh. gerði grein fyrir því, hvað hann meinti með þessu tali um, að lánasjóðir landbúnaðarins hefðu verið illa leiknir af fyrrverandi ríkisstj. og illa við þá skilið. Ég gerði kröfu til, að hæstv, ráðherra gerði grein fyrir því, hvernig hann hefði viljað fara öðruvísi að og hvernig hann hefði viljað koma í veg fyrir það, að sjóðirnir yrðu fyrir svona mikilli gengisáhættu. Ég spurði hann að því, hvort það hefði átt að vera með því, að bændum væri lánað fé í erlendum gjaldeyri úr sjóðunum. Þessu svaraði hæstv. ráðherra neitandi. Hann segist ekki hafa viljað láta lána bændum erlenda lánsféð út úr sjóðunum í erlendum gjaldeyri, ekki hafa viljað láta bændur taka gengisáhættuna. Ég spurði þá hæstv. ráðh., hvort hann hefði viljað láta þessar erlendu lántökur undir höfuð leggjast, hvort það væri það, sem hann átti við, að það hefði ekki átt að taka erlendu lánin í fjárfestingu landbúnaðarins. Ekki sagði hæstv. landbrh. það vera sína skoðun. Hann hefði sízt talið of mikið af lánsfé látið í landbúnaðinn og sízt of mikið af því erlenda lánsfé, sem þjóðin fékk. Þetta er því ljóst.

En þá þurfti hæstv. ráðh. einhvern vegina að komast út úr málinu. Og þá lét hann fallast undan spjótinu, eins og stundum er sagt í sögum. Hann datt aftur á bak, hæstv. ráðh., því að hann sagðist hafa viljað, að ríkissjóður hefði tekið á sig gengisáhættuna. Það var svar hæstv. ráðh.

Hann sagði, að ég hefði átt að láta ríkissjóð taka lánin í erlendum gjaldeyri, en lána þau svo aftur í íslenzkum gjaldeyri til lánastofnana landbúnaðarins. Sem sagt, ríkissjóður hefði átt að taka á sig gengisáhættuna. Þetta kalla ég að detta aftur á bak, því að þetta er einmitt nákvæmlega það sama, sem hæstv. ráðh. og Sjálfstfl. hefur barizt á móti. Við höfum flutt hér á þinginu einmitt tillögur um, að ríkissjóður tæki á sig gengisáhættuna fyrir sjóði landbúnaðarins, lögðum fyrir frv. í fyrra, sem var beinlínis miðað við, að ríkissjóður tæki á sig þessa áhættu og leyst yrði þannig þetta mál á þann einfalda hátt, sem auðvitað hefur alltaf verið sjálfsagður, því að vitaskuld átti bændastéttin og lánastofnanir landbúnaðarins fullan rétt á því, að hið opinbera tæki á sig þennan gengismismun, eins og mörg hundruð millj. króna annan gengismismun, sem ríkið var látið taka á sig í sambandi við gengislækkunina 1960. Þá var settur upp reikningur á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum, sem mun vera orðinn á annað hundrað milljónir. Þetta eru gengistöp á ýmsum skuldum, sem ríkisstofnanir höfðu efnt til í erlendum gjaldeyri. Þetta er okkar sjónarmið í málinu, framsóknarmanna, sem við höfum barizt fyrir, en Sjálfstæðisfl. undir forustu hæstv. núv. landbrh. hefur barizt algerlega á móti, eins og afstaðan til frv. í Ed. ber ljósastan vottinn um. Frv. var miðað við, að ríkissjóður tæki að sér nokkuð af skuldum sjóðanna, sem samsvaraði því, að ríkissjóður tæki gengistöpin að sér. Ef hæstv. ráðh. líkar ekki nákvæmlega orðalagið á frv., þá er hægt að bæta úr því og flytja annað frv., til að taka hér af allan vafa. Skora ég á hæstv. landbrh., ef hann vill ekki verða sér til minnkunar í þessu máli, að flytja frv. í samræmi við þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan, þar sem hann sagðist vera þeirrar skoðunar, að ríkissjóður ætti að taka og hefði átt að taka á sig þessa gengisáhættu.

Þá er þetta mál leyst, því að það verður að gera ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. standi við þá skoðun, sem hann hér hefur látið uppi um þetta. Hann sagði, að við hefðum lagt fram tillögu, eftir að gengisbreytingin var orðin, sem hefði verið miðuð við að gefa eftir í einu lagi eða ríkissjóður tæki á sig í einu lagi 160 millj. af skuldum þessara sjóða. Þetta er vitanlega útúrsnúningur, því að það var gert ráð fyrir því í frv., að ríkissjóður tæki að sér að greiða vexti og afborganir af þessum lánum, sem komu smátt og smátt til útgjalda árlega, en ekki lagt til að snara út 160 millj. í einu lagi á stundinni, slíkt kom vitaskuld ekki til. En aftur á móti námu gengistöp þau, sem ríkið var látið taka á sig út af öðrum lánaviðskiptum, ef ég man rétt, hátt á annað hundrað millj. Ég man ekki betur en gengistapsreikningurinn, sem settur var upp í Seðlabankanum, hafi verið nær 200 millj., þegar síðast voru gefnar upplýsingar um hann hér á hv. Alþingi. En við fluttum ekki tillögur um, að snarað væri út 150 millj., heldur aðeins, að ríkissjóður tæki á sig sem svaraði gengistöpunum.

Formlega var frv. þannig, ef ég man rétt, að það voru viss lán, sem við stungum upp á að ríkissjóður tæki að sér að greiða af. En það er vitanlega enginn ágreiningur um að breyta formi frv. okkar í það, sem hæstv. ráðh. vill, sem sagt, að það sé ákveðið, að ríkissjóður taki á sig gengistapið, og að allt kæmist nákvæmlega í það horf, sem hæstv. ráðh. vildi að ég hefði haft það. Það er eins auðvelt og hugsazt getur að koma því nákvæmlega í það horf, sem sé þannig, að ríkissjóður standi ábyrgur fyrir lánunum í erlendri mynt, en sjóðir Búnaðarbankans aftur í íslenzkum krónum til ríkissjóðs. Það er því ekkert auðveldara en að koma þessu nákvæmlega í það horf, sem hæstv. ráðh. hefði, eftir því sem hann segir nú, viljað hafa það frá upphafi.

Hitt er svo annað mál, að hv. 5. þm. Reykv. ræddi hér um þetta mál á þann hátt, að augljóst var, að hann var þeirrar skoðunar, að bændur hefðu átt að taka lán að einhverju leyti að minnsta kosti í erlendum gjaldeyri og taka gengismismun á sig, og talaði nokkuð fyrir því sjónarmiði. Það er þess vegna ekki hægt að sjá það af því, sem hér hefur komið fram í dag, hvaða hátt Sjálfstfl, hefði haft á þessu, ef hann hefði ráðstafað þessum málum. En ef ráða mætti af líkum, þá verður að gera ráð fyrir því, að það sjónarmið, sem hv. 5 þm. Reykv. flutti hér í því efni, hefði orðið sterkara en það sjónarmið, sem kom fram hjá hæstv. landbrh., eftir reynslu af öðrum efnum. Hefði því væntanlega ekki verið hikað við að koma því þannig fyrir, að bændur tækju að einhverju verulegu leyti lán í erlendum gjaldeyri, tækju á sig gengisáhættu.

Hæstv. landbrh. sagði, að framsóknarmenn væru svo ósvífnir, að þeir héldu því fram, að núv. ríkisstj. bæri ábyrgð á þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið, síðan hún kom til valda og fór að ráða löggjöfinni hér. En þessu væri alls ekki þannig farið. Núv. ríkisstj. bæri enga ábyrgð á þessu og það snerti hana ekki neitt, sem gert hefði verið. Það væri fyrrv. ríkisstj., sem bæri yfir höfuð ábyrgð á öllum þeim ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. gerði. Þetta var efnið í því, sem hæstv. ráðh. flutti áðan. En framsóknarmenn væru aftur á móti svo ósvífnir, og það væri alveg ótrúlegt, að þeir héldu því jafnvel fram, að núv. ríkisstj. ráði að einhverju leyti því, sem nú væri gert. Slíkri fjarstæðu væri haldið fram af framsóknarmönnum og blaði þeirra, Tímanum. Það sýndi bezt, hve ómerkilegur málflutningur Tímans væri, að jafnvel þessu væri haldið að mönnum, að núv. ríkisstj. bæri ábyrgð á því, sem hún gerði, að það væri hennar stefna, sem nú væri framkvæmd, og hún tæki ákvarðanir um það, hvað gera skyldi.

Ég veit satt að segja ekki, hvað á að segja um svona málflutning, svona fjarstæðu. Og þetta er auðvitað alls ekki svaravert. Hæstv. ráðh. sagði, að skýringarinnar á þessu væri að leita í því, að viðskilnaður 1958, þeirrar stjórnar, sem þá fór frá, hefði verið svo hræðilegur, að allt það, sem síðan hefði verið gert, væru afleiðingar af því ástandi, sem þá var, vel að merkja allt, sem gengur mönnum í óhag. Þó að hæstv. ráðh. tæki það ekki fram, þá er það þáttur í þessari kenningu, að hér er vitaskuld aðeins átt við það, sem gengur mönnum í óhag, sem þyngir undir fæti. Allt, sem veldur mönnum erfiðleikum og núv. hæstv. ríkisstj. gerir, það er fyrrv. ríkisstj. að kenna, en allt það, sem kann að vera mönnum til hagræðis eða koma sér sæmilega, það er auðvitað núv. ríkisstj. að þakka. Menn verða vitanlega vel að gæta þessa. Það er núv. ríkisstj. að þakka.

Þetta er málflutningurinn, sem við heyrum hér af ráðherrabekkjunum. T.d. er það sjálfsagt fyrrv. ríkisstj. að kenna, að vextir hafa verið hækkaðir stórkostlega og lánstími styttur á fjárfestingarlánum. Allar slíkar ráðstafanir eru vitanlega alls ekkert viðkomandi núv. ríkisstj., ekki á nokkurn hátt, hvað þá gengislækkanir og aðrar slíkar, gersamlega henni óviðkomandi. Aftur á móti, ef verður einhver afgangur einhvers staðar, við skulum segja á ríkisbúskap, eða ríkisstj. þvingar af bönkum og sparisjóðum fé og leggur það til hliðar í Seðlabankanum, þá er það kallaður þar afgangur, og afgangar og allt slíkt er auðvitað í allra mesta máta núv. ríkisstj. viðkomandi. Afgangurinn sjálfur, eftir að hann er kominn, er henni viðkomandi. Aftur á móti ekki tollaálögur eða þvingunarráðstafanir til að draga fé inn. Slíkar ráðstafanir eru beinar afleiðingar af gerðum fyrrv. ríkisstj. Öll tekjuöflun, allar tollaálögur og slíkt, það er allt óhjákvæmilegt, beint framhald af því, hvernig skilið var við af hendi fyrrv. ríkisstj. Allar verðlækkanir, allar tollalækkanir attur á móti, — tollalækkanir, svo sjaldgæfar sem þær eru, — þær eru að sjálfsögðu á vegum núv. ríkisstj,

En hvernig var svo þessi viðskilnaður fyrrv. ríkisstj., sem enn ræður flestu? Hvernig var sá viðskilnaður? Hvernig var þessi rúst, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala hér um áðan? Rústin var þannig, að gjaldeyrisstaða bankanna í árslok 1958 var góð og hafði batnað á árinu 1958. Það var verulegur afgangur á ríkisbúskapnum og það svo, að hann var notaður að talsverðu leyti til að fleyta núv. valdasamsteypu yfir kjördæmabreytingarárið 1959, þangað til hún þorði að taka upp núv. stefnu eftir síðari kosningarnar. Það var sem sé afgangur á ríkisbúskapnum, og gjaldeyrisstaða bankanna var góð. Hún var t.d. betri en hún var í árslok 1960. En ég hef ekki samanburðartölur til að bera afstöðuna út á við í heild saman við afstöðuna út á við núna um áramótin. En það er sjálfsagt að gera það síðar. Það var meira fjör í atvinnulífinu en nokkru sinni hefur verið fyrr eða síðar og búið að gera stórfelldar ráðstafanir til að afla nýrra framleiðslutækja í viðbót við þau, sem fyrir voru, búið að leggja grundvöll að verulegum lántökum erlendis til nýrra fjárfestingarframkvæmda í landinu, lánum, sem núv. ríkisstj. tók síðan, þó að hún þættist ætla að hætta við að taka erlend lán, og hefur talið sér til gildis það, sem fyrir þau lán hefur verið unnið, og það alveg óspart.

Ég fer ekki lengra út í þetta núna, vegna þess að tíminn er takmarkaður, en þetta var rástin, — þetta var rústin, sem núv. ríkisstj. tók við. Aftur á móti var hér einn stórfelldur hængur á, sem varð til þess, að vinstri stjórnin fór frá, og hann var sá, að dýrtíðarspólan, vísitöluskrúfan, sem hafði hækkað á víxl kaupgjald og verðlag í landinu, var þá í fullum gangi og fyrirsjáanlegt, að hún mundi hækka stórkostlega verðlag í landinu á næstu mánuðum, ef ekkert væri að gert, setja úr skorðum og koma í ólag þeim málefnum, sem ég hef verið að lýsa. Og það var ekki hægt að fá samtök í vinstri stjórninni, því miður, um að kippa þessari vísitöluskrúfu úr sambandi við kaupgjald og afurðaverð. Ég skal ekki fara út í það hér, hverjum það var að kenna. Það hefur oft verið rakið og vafalaust sjá margir eftir því nú, sem að því stóðu þá. En það fékkst ekkert samkomulag um það. Framsóknarmenn lögðu á hinn bóginn fram tillögur um að kippa dýrtíðarskrúfunni úr sambandi og reyna að stöðva sig þannig, — og þá þannig, að kaupmáttur tímakaups, sem var í okt. 1958, gæti varað. Um þetta náðist ekkert samkomulag, og þau öfl, sem vildu vinstri stjórnina feiga af pólitískum ástæðum, lokuðu í þessu atriði öllum leiðum, og þá hlaut vinstri stjórnin að hætta störfum. Það varð svo til þess, að núv. stjórnarflokkar náðu tökum á málefnum landsins.

En þetta var rústin, sem núv. stjórnarflokkar tóku við, eða hitt þó heldur. Góð gjaldeyrisstaða, batnandi gjaldeyrisafkoma, framleiðsla með meira fjöri en nokkru sinni fyrr eða síðar, bæði til lands og sjávar, og búið að undirbúa framtíðina með stórfelldum ráðstöfunum til áframhaldandi uppbyggingar. Þegar svo núv. valdasamsteypa hafði komizt yfir tvennar kosningar og breytt kjördæmaskipuninni, þá tók hún upp núverandi stefnu í efnahagsmálum landsins, sem var miðuð við að bæta jafnvægið út á við, eins og þeir kölluðu það, með því að magna dýrtíðina sem allra mest innanlands, með því að hækka sem allra mest kostnaðinn við allar framkvæmdir í landinu, en takmarka um leið aðganginn að fjármagni og halda kaupgjaldi og tekjum almennings niðri. Með þessum aðferðum sögðust þeir ætla að bæta stöðu landsins út á við.

Og einn liður í þessu kerfi, að magna dýrtíðina, en minnka fjármagnið, sem í umferð er, var ráðstöfunin til þess að binda hluta af sparifjáraukningu þjóðarinnar í Seðlabankanum, sem nú hefur leitt til þess, að um 300 milljónir af sparifé landsmanna eru lagðar dauðar í bankakerfið, í stað þess að vera í umferð í útlánum til þess að greiða fyrir mönnum með margvíslegu móti og auka framleiðslu og framleiðni í landinu.

Þetta kallar núv. hæstv. landbrh. að eiga óeyddar 300 millj. í Seðlabankanum, — menn taki eftir því: að eiga óeyddar 300 millj. í Seðlabankanum. M.ö.o.: í huga þessa hæstv. ráðh. og þeirra, sem nú ráða málum landsins, er það að eyða sparifénu, — ég vil biðja menn að taka eftir því, — það er að eyða sparifénu að lána það aftur út úr bankakerfinu til almennings í landinu, til þess að greiða fyrir áhugamálum manna eða framleiðslunni. Það heitir á máli þessa hæstv. ráðh. að eyða sparifénu. Hitt er að eiga óeytt sparifé, að loka það inni í Seðlabankanum og koma í veg fyrir, að það geti verið í umferð. (JóhH: Hefur ekkert verið lánað?) Jú, það hefur verið lánað, en það hefur verið lánað mun minna fjármagn en með góðu og skynsamlegu móti hefði verið hægt og óhætt að lána. Og það er áreiðanlegt, að aðstaða landsins út á við hefði ekki versnað, þó að margri lánbeiðninni, sem neitað hefur verið á s.1. ári, hefði verið sinnt, mörgum lánbeiðnum til þess að auka beinlínis þjóðarframleiðsluna í fjöldamörgum greinum. En þeir menn, sem aldrei s,já neitt annað úrræði til þess að bæta afkomu landsins út á við en það eitt að koma í veg fyrir, að féð sé í umferð, og eiga það, eins og kallað er, óeytt í bankakerfinu, þeir líta kannske öðruvísi á. En ég er þeim ekki sammála.

Ég tel það ekki verðbólguútlán að lána það sparifé út, sem raunverulega myndast. Hitt eru verðbólguútlán, ef Seðlabankinn er notaður til þess að dæla út í atvinnulífið, út í efnahagslífið lánsfé, sem ekkert stendur raunverulega á bak við. Og það er alveg ný kenning, sem aldrei áður hefur verið flutt, hvað þá lifað eftir, í þessu landi, að það væri verðbólguaukandi og hættulegt fyrir þjóðarbúskapinn að láta sparifé landsmanna vera í umferð.

Hæstv. landbrh. og hv. 6. þm. Reykv. vora í þessu sambandi að tala um viss lögmál, sem yrði að fylgja, til þess að ekki yrði óðaverðbólga í landinu. Ekki neita ég því, að það er ýmislegt, sem þarf að varast, til þess að það verði ekki óðaverðbólga í landinu. En ég neita því algerlega, að í því lögmáli standi, að það valdi óðaverðbólgu í landinu að nota það fjármagn, sem raunverulega er lagt til hliðar og safnast fyrir, til þess að lána út aftur. Enda hlýtur slík aðferð, þegar til lengdar lætur, að vera gersamlega óstæð og óhugsandi.

Ég vil líka alveg sérstaklega vekja athygli á því, að í þessum umr., sem hér hafa orðið um þessa þáltill., hefur komið fram rödd úr stjórnarherbúðunum, sem er fyrsti votturinn um undanhaldið í þessum efnum. Og það er, þegar hv. 5. þm. Reykv. lætur nú í það skína loksins eftir hina hörðu sókn, sem á hendur stjórninni hefur verið haldið uppi vegna þessarar óhæfu, að til mundi standa að nota eitthvað af þessu fjármagni, sem dregið er inn í bankakerfið með þessum þvingunarráðstöfunum, til þess að lána út aftur til íbúða og með ýmsu öðru móti. Þetta er byrjunin á undanhaldinu í þessum efnum, og ég fagna því, að það er þarna lát á, það er hægt að finna nú lát á í þessum efnum. Og ég spái því, að þeir, sem fyrir þessu standa, eigi eftir að láta undan þunga almenningsálitsins í þessu efni. Og ekki sízt þegar nálgast tvennar kosningar, eins og nú eru fram undan, þá mundu þeir láta undan síga í þessu efni að einhverju leyti.

Hitt er svo annað mál, hvort slíkt verður ekki aðeins stundarfyrirbrigði, á meðan verið er að komast yfir kosningarnar, sem fram undan eru, fyrst nú á þessu vori, bæjarstjórnarkosningar, og síðan aftur á næsta vori alþingiskosningar. En það ber samt að fagna því, að það vottar fyrir því, að lát sé á stjórnarliðinu í þessu efni, og hað sýnir líka, að við, sem höfum gagnrýnt þetta, höfum rétt fyrir okkur.

Hv. 5. þm. Reykv. ræddi hér nokkuð önnur atriði, þótt ekki væri það mjög mikið, og skal ég ekki fara út í að svara því. Ég sagði, að það hefði á undanförnum árum verið siglt fullum seglum í efnahagsmálum Íslendinga. Ég sný ekki aftur með það, að allir möguleikar voru notaðir til fulls, og ég tel, að það hafi verið gæfa Íslands, að þannig hefur verið á haldið. Ég tel, að við hefðum ekki staðið jafnvel að vígi, íslenzka þjóðin, og við gerum nú, ef samdráttarstefnu ríkisstj. hefði verið fylgt á undanförnum áratugum, síður en svo. En hv. þm. sagði, að ég hefði ekki viljað geta um, að það hefði verið siglt fullum seglum í strand, og strandið átti að hafa orðið um áramótin 1958 og 1959. Meiri fjarstæðu hefur tæpast nokkur hv. þm. borið sér í munn en hv. 5. þm. Reykv. í þessu sambandi, og hef ég sýnt fram á það með því, sem ég hef hér rakið um það, hvernig raunverulega var ástatt um íslenzkan þjóðarbúskap í árslokin 1958.