07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3408)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Efni þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., er það að skora á ríkisstj. að hlutast til um að hækka lán úr byggingarsjóði sveitabæja til íbúðarhúsa í sveitum, og jafnframt, að sjóðnum sé séð fyrir nægilegu fjármagni í því skyni. Ég skal engan veginn draga í efa þá þörf, sem fyrir hendi er í þessu efni. Hitt getur auðvitað verið álitamál, hvaða þýðingu samþykkt þáltill, af því tagi, sem hér er um að ræða, hefur í þessu efni, þar sem ekki er bent á leiðir til útvegunar þessa fjármagns. Annars var ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, ekki sú, að ég ætlaði að ræða hér lánamál landbúnaðarins. Þeirri hlið málsins hefur hæstv. landbrh., sem er þeim málum miklu kunnugri en ég, þegar gert ýtarleg skil, svo að ég bæti þar ekki um. En í sambandi við þær umr., sem fóru hér fram á dögunum, komu fram, sérstaklega í ræðu hv. 1. þm. Austf., skoðanir á því, hver væri orsök vandans í lánamálum þjóðarinnar, bæði landbúnaðarins og á öðrum sviðum, — skoðanir, sem ég tel að brjóti svo í bág við fram komnar upplýsingar um þróun peningamálanna að undanförnu, að þær megi ekki standa með öllu óleiðréttar. Hv. þm. sagði:

„Það vandamál, sem hér er um að ræða, og önnur slík vandamál er auðvelt að leysa, peningarnir eru til. Og ég skal segja ykkur,“ sagði hv. þm., „hvar þeir eru niður komnir. Seðlabankinn hefur nefnilega dregið úr umferð 300 millj. kr. Þar eru þessir peningar vel geymdir, og ef því fé væri ráðstafað til þess að leysa þetta vandamál og önnur slík, þá væru þau þar með úr sögunni.”

Við skulum nú líta á það, hverju sparifjáraukningin nam á s.l. ári. Hún nam 549.6 millj. kr. Ef sú skoðun væri rétt, að Seðlabankinn hefði fryst af þessu 300 millj., ætti útlánaaukningin á þessu ári að hafa numið 249.6 millj. kr. En hvað var útlánaaukningin mikil? Hún var 636.9 millj. kr. eða nærri því 100 millj. kr. umfram það, sem sparifjáraukningunni nam. Nú er það að mínu áliti að vísu engin sjálfsögð regla, að útlánaaukningin eigi alltaf að nema nákvæmlega jafnmiklu og sparifjáraukningin nam. Í þessu sambandi má minna á það, að í grg. þeirri, sem samin var fyrir efnahagsmálafrv. 1960, töldu þeir sérfræðingar, sem þá grg. sömdu, að hámark útlánaaukningar mætti ekki vera meira en 200 millj. kr. á ári, ef forða ætti verðbólgu. En jafnvel þó að á þá skoðun væri fallizt, sem hv. þm. boðaði, að óhætt væri alltaf að lána út sem næmi sparifjáraukningunni, þá var útlánaaukningin á s.l. ári nálægt 100 millj. umfram sparifjáraukninguna. Þetta tel ég að sanni það, að það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að seglin hafi verið rifuð. Það er siglt fyrir fullum seglum í þessu efni. Seðlabankinn hefur ekki dregið neina peninga úr umferð, heldur hafa útlánin aukizt jafnvel meira en varlegt er. Það er þess vegna á fullkomnum misskilningi byggt, að lausn þess vandamáls, sem hér er um að ræða, sé í því fólgin að láta Seðlabankann lána meira. Og í þessu sambandi get ég ekki látið hjá líða að minnast á þá villukenningu, sem mjög hefur verið boðuð í málgagni hv. framsóknarmanna að undanförnu, að orsök lánsfjárvandræðanna séu of lítil útlán bankanna og sérstaklega Seðlabankans. Það er í fyrsta lagi þannig, og það er e.t.v. aðalatriðið í þessu sambandi, að lán vantar til þess að byggja hús, hafnir, raforkuver, vegi o.s.frv., en hús, hafnir, vegir o.þ.h. verða ekki byggð úr seðlum. Það er fyrst og fremst gjaldeyrir og vinnuafl, sem til þess þarf. Það er í þessu, sem lánsfjárvandamálið fyrst og fremst er fólgið. Þar með er ég ekki að segja, að þetta vandamál sé óleysanlegt. En leiðin til þess að leysa það er aðeins ein, sú að auka sparifjármyndun í landinu. Það er hin ónóga fjármagnsmyndun í landinu, sem er grundvallarorsök lánsfjárvandræðanna, en ekki það, að Seðlabankinn láni ekki nógu mikið út. En þau úrræði, sem hv. framsóknarmenn hafa að undanförnu bent á til þess að leysa þetta vandamál, eru því miður algerlega neikvæð. Úrræði þeirra eru verðbólguútlán úr Seðlabankanum og lækkun vaxta. Með þessu er að vísu hægt að fá þeim, sem lán þurfa, fleiri krónur á milli handa, en það er ekki það, sem leysir vandann. Lægri vextir þýða minni sparifjármyndun en ella, og sama máli gegnir um aukna verðbólgu. Ber það að mínu áliti mjög að harma, að stjórnmálaflokkur, sem annars vill telja sig ábyrgan stjórnmálaflokk, skuli þannig snúa raunveruleikanum alveg við og boða úrræði í þessum efnum, sem ekki mundu vera fallin til þess að leysa vandann, heldur þvert á móti, ef eftir þessum tillögum væri farið, gera vandann enn þá meiri.