07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Eysteinn Jónsson:

Það er nú ekki mikið hægt að hrófla við þessu öllu með stuttri aths., en ég ætla samt að notfæra mér þann rétt, sem ég hef.

Þá vil ég fyrst algerlega mótmæla því, sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Það hryggir mig, að hann skuli halda fram því, sem hann gerði hér áðan, því að það er augljóst öllum, sem rannsaka reikninga Seðlabankans og uppgjör í peningamálum, að það hefur orðið verulegur lánasamdráttur á undanförnum árum inn í Seðlabankann út úr peningakerfinu. Bundnu spariinnstæðurnar eru orðnar 300 millj., og inndrátturinn úr peningakerfinu er meiri en nemur þessum 300 millj., því að þegar á heildina er litið, hefur bæði ríkið og viðskiptabankarnir þar fyrir utan bætt aðstöðu sína gagnvart Seðlabankanum, þannig að inndrátturinn í peningakerfinu er meiri í heild en nemur þessu innilokaða sparifé. En þegar hv. þm. ræðir þetta, þá grípur hann bara til þess að tala um sparifjáraukninguna á s.l. ári og bera hana saman við útlánaaukninguna, en sleppir úr öðrum þýðingarmiklum liðum, eins og t.d. innlánum á hlaupareikninga og öðru slíku, sem hefur áhrif í þessu atriði. Á hinn bóginn tekur hann vitanlega með í útlánunum öll lán, hversu stutt sem þau eru, þó að þau séu kannske ekki nema til viku eða mánaðar eða annað slíkt, þá tekur hann þau öll með í útlánunum, en svo aðeins sparifjáraukninguna á móti.

Það, sem sýnir heildarmyndina af þessu, er einfaldlega það, hvort Seðlabankinn hefur dregið inn úr peningakerfinu eða ekki, og það hefur hann gert og um það á ekki að þurfa að deila. Hitt er svo annað mál, eins og stjórnarblöðin hafa stundum sagt, hvort það hafi þurft að gera þetta til þess að herða að landsmönnum og draga saman framkvæmdir til að mynda gjaldeyrisvarasjóð. Það má ræða um það fram og aftur, hvort hægt er að gera slíkt með þessari aðferð. En þessi inndráttur hefur verið gerður, hann hefur verið framkvæmdur. Þetta fjármagn hefur ekki verið lánað aftur út úr Seðlabankanum, og samdrátturinn hefur verið meiri en bundnu innistæðurnar, því að þar að auki hefur verið dregið verulega úr því, sem lánað hefur verið út á afurðir, afurðalánum.

Nú sagði hv. þm. eitthvað í þá átt, og maður þekkir þessar kenningar, að úrræðið til þess að bæta afstöðuna út á við, það sé bara að láta spariféð ekki vera í umferð, draga það inn til að bæta gjaldeyrisstöðuna. Ef málið væri svona einfalt, væri ekki mikill vandi að fá góða afkomu út á við, bara að loka spariféð allt inni og þá væri allt öruggt og gott. En vitanlega veit hv. þm. jafnvel og ég, að þetta ráð er ekki einhlítt, og það er stórhættulegt, ef því er beitt að ráði, því að þá fer að draga stórkostlega úr framleiðslunni. En þetta mun ég ræða við önnur tækifæri nánar, þegar ég hef meiri tíma en til aths. En ég mótmæli þessum fullyrðingum hv. þm. um, að ég sé að leggja til verðbólgustefnu í útlánum. Það er algerlega rangt. Við höfum aðeins lagt til, framsóknarmenn, að sami háttur verði hafður á eins og tíðkaðist, á meðan framfarastefnunni var fylgt, að sparifé landsmanna væri haft í útlánum, og það er ekki nein verðbólgustefna í útlánum. Með þessu orðalagi meina ég, að Seðlabankinn sé ekki notaður til þess að draga fjármagn út úr viðskiptabönkunum, út úr umferðinni, út úr peningakerfinu.

Það er vitanlega hægt að leika svona orðaleik eins og hv. þm. reyndi, að framkvæmdir verði ekki gerðar með peningaseðlum, heldur gjaldeyri og vinnu. En vitað er, að það er hægt að draga stórkostlega úr framförum og framkvæmdum með því að láta fjármagnið ekki vera í umferð, og það er það, sem verið er að gera með þessu. Það er verið að draga úr framkvæmdum með því að taka peningana úr umferð. En að hafa peningana í umferð er undirstaða þess, að framkvæmdir og framfarir eigi sér stað, og hverjum þýðir að vera að reyna að telja mönnum trú um, að það sé einhver sérstakur búhnykkur fyrir þjóðina að draga inn fjármagn úr peningakerfinu, loka inni spariféð og neita mönnum svo um lán unnvörpum til þess að auka framleiðsluna, eins og t.d. dæmið um Harald Böðvarsson á Akranesi sýnir, sem hann sagði frá í Morgunblaðinu. Honum hafði verið neitað alls staðar um lán til þess að koma upp reykingu á síld, ekki fyrir það, að peningarnir voru ekki til, þeir voru til, því að það var verið að draga inn úr viðskiptabönkunum spariféð inn í Seðlabankann. Peningarnir voru til. En þeir voru bara ekki látnir af hendi, vegna þess að það var farið eftir þessari hugsjón hv. 11. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, og þeirri skoðun, að það væri eina leiðin til að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum að draga úr útlánum.

Mér þykir ákaflega leiðinlegt, að Tíminn skyldi vera svona neyðarlegur við hæstv. landbrh. Honum hefur sýnilega orðið mjög mikið um þetta, því að það er augljóst, að hann hefur dundað víkum saman við það að semja þá ræðu, sem hann flutti hér áðan og ég get ekki farið langt út í að svara í þessari stuttu aths., sem ég er kannske í raun og veru búinn með.

En ég vil segja þetta út af lánasjóðum landbúnaðarins og því, sem hæstv. ráðh. sagði um þá: Ég spurði hann um daginn, hver væri mín sök í sambandi við lánasjóði landbúnaðarins og lánveitingarnar til bændanna. Ég spurði hæstv. ráðh., hvort það væri mín sök, að ég hefði beitt mér fyrir því, að erlend lán væru tekin í landbúnaðinn. Og ráðh. neitaði því. Hann sagði, að sökin væri ekki fólgin í því. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvort sök mín væri fólgin í því, að bændurnir hefðu ekki verið látnir undirrita skuldbindingar í erlendum gjaldeyri, þannig að gengismunurinn kæmi á þá. Hann neitaði því og sagði, að sök mín væri ekki fólgin í því Og þá var aðeins eitt eftir: Ég hefði átt að láta ríkissjóð taka lánin og lána svo aftur stofnunum bændanna í íslenzkum krónum, ríkissjóður hefði átt að taka á sig gengisáhættuna. Þetta sagði hæstv. ráðh. Sök mín væri fólgin í því að gera ekki þetta. Ég benti hæstv. ráðh. þá á, að ef þetta væri svona, þá væri ósköp einfalt að bæta úr þessu. Það væri bara að lögbjóða það núna, sem ég vanrækti, að ríkissjóður tæki á sig gengismuninn á þessum lánum. Þá væri málið leyst. Og að efni til er það sama og við höfum lagt til núna undanfarin missiri, eftir að stjórnin skellti á gengislækkununum. Og nú hafa framsóknarmenn í Ed. fært tillögur sínar um þetta efni nákvæmlega í það horf, sem hæstv. ráðh. vildi og sagði, að ég hefði átt að gera strax, sem sé, að ríkissjóður tæki á sig gengistapið. Það er svona einfalt að bæta úr þessu. Málið er ekki flóknara en þetta. Og allt skraf hæstv. ráðh. í þessu sambandi fellur hér með gersamlega dautt til jarðar. En heilindi hæstv. ráðh. má svo aftur sjá af því, að hann virðist ekki ætla að styðja þessa lausn, sem hann segir sjálfur að hefði verið sjálfsögð frá upphafi og hægt er að setja í lög nú á svona einfaldan og sjálfsagðan hátt. Það sýnir heilindi þessa hæstv. ráðh., að hann virðist ekki setla að styðja þessa lausn núna.

Þá er hæstv. ráðh, að fjargviðrast fram og aftur um þessa sjóði, búnaðarsjóðina, stofnlánasjóði Búnaðarbankans, og segir, að þeir hafi verið leiknir svona og svona, eins og hann orðar það. Nú vil ég minna hæstv. ráðh. á það einu sinni enn, að það voru fleiri en sjóðir Búnaðarbankans, sem tóku lán í erlendum gjaldeyri í þágu fjármálastarfsemi í landinu eða atvinnuveganna. Það gerðu viðskiptabankarnir líka, þeir tóku lán í stórum stíl í erlendum gjaldeyri. En þegar ríkisstj. felldi gengið, þá beitti hún sér fyrir því, að ríkissjóður tæki á sig, — og ég bið menn að taka eftir því, — að ríkissjóður tæki á sig allt gengistap á öllum erlendum skuldum allra banka í landinu nema stofnlánabanka landbúnaðarins. Það var það eina, sem skilið var eftir og ríkið átti ekki að taka á sig. Allan annan gengismun, allt hitt gengistapið átti ríkið að sjálfsögðu að taka á sig, það var eins og sjálfsagður hlutur. Og það voru 190 millj., sem ríkið tók á sig og það skuldar Seðlabankanum í gengismun vegna þessara lána.

Nú skora ég á hæstv. landbrh. að reyna að sýna fram á það með rökum, hvaða réttlæti er í því að skilja lánastofnanir landbúnaðarins einar eftir í þessu sambandi, sem höfðu tekið lán í erlendum gjaldeyri, — skilja þær einar eftir, en láta ríkissjóð taka á sig eins og sjálfsagðan hlut gengistöp á öllum öðrum lánum hliðstæðra stofnana. Það sýnir kannske ekkert betur en einmitt þetta, hvílíkur ræfildómur hvílir yfir ráðherrastarfi þessa hæstv. ráðh., sem á að fara með málefni landbúnaðarins, að hann skuli geta setið í stólnum, eftir að annað eins hefur skeð og þetta, að það er tekið á ríkið gengistap á öllum öðrum skuldum stofnana en þessum skuldum vegna landbúnaðarins. Auðvitað sjá allir, að það, sem átti að gera í þessu, var að fara nákvæmlega eins með skuldir landbúnaðarsjóðanna og annarra hliðstæðra ríkisstofnana, því að þeir eru ríkisstofnanir.

Ég skal nú ekki reyna miklu meira á þolinmæði hæstv. forseta í þessari aths., sem átti að vera örstutt. Þó að full ástæða væri til þess, að hún væri lengri, þá verður það nú að bíða betri tíma, enda er sannleikurinn sá, að það þarf ekki langt mál í sjálfu sér til þess að svara hinni löngu ræðu hæstv. landbrh. varðandi stjórnmálin almennt. Það var eins konar stjórnmálayfirlit. Hann sagði, að það hefði verið mjög slæmt ástand, þegar núv. valdasamsteypa tók við, en aftur á móti væri allt á mjög góðri leið og hefði mjög miklu verið bjargað. Ég hef áður sýnt fram á það og við stjórnarandstæðingar, að gjaldeyrisslaða landsins í árslok 1958 var góð, afkoma ríkissjóðs var mjög góð, mikill greiðsluafgangur, og kaup á framleiðslutækjum voru óvenjulega mikil og búið að búa þannig í haginn, að þjóðin hefur yfirleitt fyrst og fremst búið að því siðan. Sú mikla framleiðsla, sem hefur orðið á undanförnum missirum, á rætur sínar fyrst og fremst að rekja til þessarar stórkostlegu uppbyggingar, sem búið var að gera, áður en núv. valdasamsteypa tók við. Lítum svo bara á eitt dæmi, ég fer ekki lengra út í það núna, vegna þess að ég hef ekki tíma til þess, afstöðuna út á við núna, eins og hún var í árslok 1960. Það ætti að vera hagstæðasti samanburðurinn, vegna þess að núv. ríkisstj. hefur lagt aðaláherzluna á að þrengja að mönnum heima fyrir til þess að reyna að laga afstöðuna út á við. Og hver er þá útkoman af þessu? Það hefur undanfarið verið talsvert gumað af því í stjórnarblöðunum, að aðstaðan út á við hafi batnað, t.d. gjaldeyrisstaðan hafi batnað og fleira slíkt. En ég vil bara benda á nokkrar staðreyndir í því sambandi. Á þessum árum, frá árslokum 1958 til ársloka 1961, hafa skuldir út á við vaxið stórkostlega, lausaskuldir til vörukaupa hafa safnazt rúmar 290 millj. og löng lán aukizt um mörg hundruð millj. Í þessu er að vísu áætlað, hvernig skuldabreytingin var árið 1961, en það mun vera áætlað af Seðlabankanum, að föstu lánin hafi það ár staðið sem mest í stað, og það er reiknað með því í þessu. Að taka gjaldeyrisstöðu bankanna eina út af fyrir sig og miða við hana er álíka og maður vildi gera upp efnahag sinn með því að gá í pyngjuna eina eða veskið án þess að skipta sér nokkurn skaraðan hlut af því, hvernig að öðru leyti væri ástatt. Þetta segi ég aðeins, — hæstv. forseti, ég er alveg að hætta, — þetta segi ég aðeins sem lítið dæmi. En ég er alveg viss um, að þetta veit hæstv. landbrh. ekki, þetta eru áreiðanlega alveg nýjar fréttir fyrir hann, því að það er alveg auðheyrt á því, sem hann seg;r. Það er enginn vandi að setja saman margra álna langa stagorðaþvælu eins og þá, sem hæstv. ráðh. flutti hér áðan, en ég er alveg viss um, að það eru alveg ný tíðindi fyrir hæstv. ráðh., að málin standa á þessa lund.

Gjaldeyrisstaða bankanna hefur batnað. En hvers vegna hefur hún batnað? Fyrir þá framleiðsluaukningu og metafla, sem orðið hefur á skipin og bátana, sem yfirleitt var búið að afla til landsins, áður en viðreisnin kom til sögunnar og fyrir þá kjaraskerðingu, sem ríkisstj. hefur innleitt og samdrátt í framkvæmdum. En þessar gjaldeyriskrónur, sem hafa safnazt saman á s.l. ári, eru dýru verði keyptar, því að þær eru keyptar því verði að leiða yfir þjóðina þá gífurlegu dýrtíðaröldu, sem við höfum séð rísa hærra og hærra með hverju missirinu, sem liðið hefur. Og hvernig er svo ástatt núna, og hvað hefur þetta kostað? Það hefur kostað, að núna er þannig ástatt í landinu, að enginn venjulegur launamaður t.d. getur lengur lifað mannsæmandi lífi á þeim launum, sem hann vinnur sér inn á venjuleguan vinnudegi, eða búið í íbúð, sem hann ætti t.d. að byggja frá grunni núna. Ástandið er svona. Það er ekki furða, þó að landbrh. sé ánægður. — Og með þessu læt ég máli mínu lokið, herra forseti.