07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

84. mál, bygginarsjóður sveitabæja

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. landbrh., ef hann heldur, að hann geti fengið bændur landsins til að trúa því, að hann hafi verið góður landbrh., þó að hann haldi stórorða ræðu á hv. Alþingi. Það þykir ef til vill réttlætanlegt, þegar menn ganga hér upp í ræðustólinn í hita umræðunnar og nota stór orð í sínum ræðum, en þegar menn mæta hér á hv. Alþingi með vélritaða ræðu, sem þeir eru búnir að sitja yfir vikum saman að semja, þá gegnir það furðu. Það gegnir furðu, að hæstv. landbrh skuli leyfa sér að nota orð eins og menn hafi ekki talað um áraraðir af viti og að þm. séu með moldvörpustarfsemi og annað því um líkt. Og hæstv. ráðh. þarf ekki að ætla það, að hann komist frá sínum vandræðum í landbúnaðarmálunum með þessum hætti.

Hæstv. ráðherra heldur að það muni verða sér til framdráttar til eilífðarnóns að vitna í vinstri stjórnina. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðherra, því að landsmenn kunnu að meta þá ríkisstj. og enn þá betur eftir að hún var farin frá og samanburður sá, sem nú er fyrir hendi, er til staðar. Þegar hæstv. ráðherra er að tala um skemmdarstarfsemi, sem hafi verið framin í sumar í sambandi við kauphækkanir, þá ætti hann að minnast þess, að þeir Sjálfstfl.-menn stóðu að kauphækkun sumarið 1958 og tóku hana til baka með löggjöf, strax og þeir réðu á hv. Alþingi, eftir áramótin 1959. Það hefur aldrei skeð í sögunni fyrr, að nokkur stjórnmálaflokkur hafi sýnt svo greinilega, hvert hann var að fara í kjaramálum, eins og þá var gert, að berjast fyrir kauphækkuninni í stjórnarandstöðu og taka hana alla til baka, undireins og þeir höfðu nokkur ráð í ríkisstjórn.

Hæstv. landbrh. var að tala um sögu í þessu sambandi og taldi sig vera að vitna í sögu. Það er svo fyrir að þakka vegna íslenzku þjóðarinnar, að hæstv, landbrh. leggur ekki fyrir sig sagnfræði, því að sú sagnfræði væri ekki mikils virði, ef dæma á eftir málflutningi hæstv. ráðherra hér áðan. En hæstv. ráðherra gleymdi alveg einu í sinni ræðu. Hann gleymdi alveg að geta um eigin afrek í landbúnaðarráðherrastóll. Hann hefur þó setið þar í hálft þriðja ár. Hver eru afrekin? Hann var að tala um það, að Eysteinn Jónsson hefði átt vangert við stofnlánasjóði Búnaðarbankans. En af hverju hefur þá hæstv. ráðherra ekki komið því í framkvæmd, sem Eysteinn átti vangert, hv. 1. þm. Austf.? En á stjórnarárum Eysteins Jónssonar sem fjmrh., á árunum 1950—1958 lagði ríkissjóður lánasjóðum Búnaðarbankans 52 millj. kr. Þá lagði ríkissjóður lánasjóðum Búnaðarbankans 52 millj. kr. Hvað hefur nú gerzt? Hefur ríkissjóður lagt þessum lánasjóðum nokkurt fé? Hann hefur útvegað lán til þriggja ára, hæstv. fjmrh. skýrði frá því í gær. Þetta eru afrekin. En það eru fleiri afrek, sem mætti nefna í stjórnartíð hæstv. núv. landbrh. Á hans valdadögum hafa lánskjör til uppbyggingar í landbúnaði stórum versnað, lánatíminn verið styttur, vextir hækkaðir, svo að nú verða bændur að greiða allt að því 1/3 hærra fyrir meðailán heldur en áður í afborgun og vexti. Þetta er framlag hæstv. ráðherra til landbúnaðarmála. Hann var ekki að skýra frá því, hæstv, ráðherra, að þegar ríkissjóður var látinn taka að sér gengismismuninn, sem var yfir 190 millj. kr., við gengisfellinguna 1960, þá voru lánasjóðir landbúnaðarins skildir eftir. Svo blása þeir stjórnarliðar sig út hér á hv. Alþingi yfir því, að framsóknarmenn skuli nú vera svo ósvífnir að ætlast til þess, að bændur landsins sitji þar við sama borð og aðrir þegnar þessa þjóðfélags. Það vantar svo sem ekki frekjuna í þá framsóknarmenn fyrir bændurna í landinu, að þeir skuli nú fara fram á það, að þeir hafi jafnrétti þarna við aðra þegna þjóðfélagsins. Það er svo sem ekki undarlegt, þó að þessi hæstv. ráðh. ætlist til þess, að bændur landsins hafi jafnrétti við aðra þegna þjóðfélagsins, þegar hann stendur fyrir því hér á hv. Alþingi að bjóða bændum landsins aðstoðarlán með okurvöxtum og sættir sig við það, að þeirra kjör séu mun verri en sjávarútvegsins. Það er því ekki undarlegt, þó að hæstv. landbrh. vilji hafa þann háttinn á, að þeim sé mismunað í þessu sem öðru.

Það er fleira, sem þessi hæstv. ráðh. hefur afrekað á þessum tveimur og hálfu ári, sem hann hefur verið landbrh. Afurðalán út á landbúnaðarafurðir voru 67% áður, en eru nú 51–54%. Er þetta gert í þágu bændastéttarinnar í landinu eða til þess að búa betur í haginn fyrir hana en ella hefði verið? Nei, það er ekki gert í þágu bændastéttarinnar í landinu, og lánsupphæðin í heild er sú sama, þótt verðið hækki og afurðirnar aukist. Það er stefna núv. hæstv. landbrh., að það skuli vera sami krónufjöldi, hvernig sem framleiðslan eykst og verð hækkar.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda á s.l. hausti var þessi hæstv. landbrh. staddur. Þar kom fram ályktunartillaga, þar sem nefnd, sem hafði starfað innan vébanda fundarins, lagði til að skýra frá því í ályktun, að fleiri jarðir færu nú í eyði en áður hefði verið í landinu. Nokkrar umræður urðu um þetta mál, og hæstv. ráðh. varð að blanda sér inn í umræðurnar til þess að forða sér frá því, að þessi ályktun kæmi út. Það hefur þó ekki verið venja ráðherra á þeim stéttarsambandsfundum, sem ég hef setið á eða verið gestur á, sem munu þó vera flestir af þeim, sem haldnir hafa verið, að ráðherra hafi blandað sér inn í umræðurnar. En hæstv. ráðherra varð að blanda sér inn í umr. til að biðja sér vægðar, og nefndin tók málið aftur af kurteisi við ráðherra sem gest fundarins.

Hv. 1. þm. Austf. benti réttilega á áðan, að það er að verða ókleift fyrir unga fólkið í landinu að hefja búskap. Verðlagið, sem þessi hæstv. ráðh. hefur haft áhrif á, hefur verið með þeim hætti, að það er ekki hægt fyrir ungt fólk í landinu að hefja búskap. Það er eitt af afrekum þessa hæstv. ráðherra, að í staðinn fyrir að lækka verðlagið í landinu, eins og hann hafði haft fyrirheit um, þá hefur verðlag á landbúnaðarverkfærum hækkað um nærri því 100% og annað eftir því. Svo kemur hæstv. ráðh. hér í ræðustól og heldur, að hann geti með stóryrðum einum komið sér frá þeirri ábyrgð, sem hann hefur í landbúnaðarmálum.

Það er alveg ljóst, að bændur landsins fylgjast betur með en svo, að hæstv. ráðherra afgreiði þá með stóryrðaræðunni, sem hann flutti hér áðan. Hann þarf áreiðanlega að endurskoða ýmislegt betur og á eftir að kynnast því betur, þegar hann fer að ræða við bændur landsins. Þeim er ljóst, hvernig hefur verið haldið á landbúnaðarmálum í ráðherratíð þessa hæstv. ráðherra. Þeim er það fullkomlega ljóst. Þeim er það ljóst, að bændum landsins hefur verið ætlaður annar og minni réttur en öðrum stéttum þjóðfélagsins. Þeim er það ljóst, að fleiri jarðir fara nú í eyði en áður. Þeim er það ljóst, að minni möguleikar eru til ræktunar í landinu, minni möguleikar að hefja búskap heldur en nokkru sinni fyrr. Þeim er það ljóst, að ríkissjóður lagði Búnaðarbankasjóðunum til fé í stjórnartíð Eysteins Jónssonar, en gerir það ekki nú. Þeim er ljóst hins vegar, að það er staðið gegn því að aðstoða sjóðina við gengismismuninn af gengisfalli hæstv. núv. ríkisstj. Og það er furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli í sambandi við tillögu þá, sem hér er til umræðu, um að hækka fjárveitingu til byggingarsjóða Búnaðarbankans, halda aðra eins ræðu og hann flutti hér, í staðinn fyrir að beita sér fyrir því, að þessi fjárveiting verði aukin, svo að lán byggingarsjóðsins hækkuðu sem nemur a.m.k. einhverjum hluta af þeirri verðhækkun, sem átt hefur sér stað fyrir framkvæmdir núv. hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum.