18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhamsson):

Herra forseti. Hv. frsm. 2. minni hl. fjvn. var að bera kvíðboga fyrir því, að hér kynni að fara svo, að meiri hl. n. segði sem svo: Við leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt. — Ég kannast nú ekki við það, að hér sé nein hætta á því. En það skyldi þó ekki vera, að hv. þm. hefði haft eitthvert annað ríki í huga, þar sem slíkur háttur kann að vera á hafður.

Hv. frsm. 1. minni hl., 3. þm. Vesturl., féll í þá freistingu að býsnast yfir því, að þessi fjárlög yrðu þau hæstu í þingsögunni. Eins og ég minntist á í framsöguræðu minni, eru ýmsir liðir fjárlaga þannig, að þeir beinlínis hljóta að vaxa með vaxandi fólksfjölgun og þjónustu við almenning. Það væri því eitthvað óeðlilegt, ef svo væri ekki, að fjárlögin hækkuðu, þegar fólkinu fjölgar eins ört og það gerir nú hér á landi.

Þá átaldi hv. þm. það, að póstur og sími skyldi vera látinn standa á eigin fótum, sagði, að það ylli hærri gjöldum notenda. Það er að vísu rétt. En ég tel það heilbrigðara en að leggja gjöldin á almenning án tillits til þess, hvort menn njóta stofnunarinnar meira eða minna. Auk þess vil ég geta þess að gefnu þessu tilefni, að póst- og símamálastjóri sagði okkur í nefndinni, er hann kom á fund nefndarinnar, að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hér á landi væru gjöld notenda hér lægri en í nágrannalöndum okkar.

Þá ræddi hv. þm. um Skipaútgerð ríkisins og hallann á henni, sem hann taldi eðlilegan og jafnvel þótt meiri væri en áætlað er í frv. Rekstur Skipaútgerðarinnar hefur verið athugaður fyrst af nefnd samkvæmt tillögu Alþingis og síðar af erlendum sérfræðingum. Þar hafa komið fram tillögur um breytingar á rekstri og skipulagi og að nokkru á tækjum fyrirtækisins, sem talið er að geti bætt afkomu þess og sparað margar millj. kr. árlega, án þess að eðlileg þjónusta þurfi að minnka.

Ummælum hv. þm. um niðurgreiðslurnar og framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs mun hæstv. fjmrh. væntanlega svara og sömuleiðis þeim ummælum, sem frsm. hv. 2. minni hl. hafði um þau atriði. Ég vil þó aðeins geta þess í sambandi við ummæli hv. þm., frsm. 1. minni hl., 3. þm. Vesturl., að þótt hluti ríkissjóðs yrði ekki til útlána á næsta ári, þá ættu venjuleg útlán atvinnuleysistryggingasjóðs ekki að þurfa að minnka frá því, sem verið hefur, því að sá háttur hefur verið hafður á að festa ekki í venjulegum útlánum nema tiltölulega lítinn hluta af árlegum tekjum sjóðsins.

Um framlög til vega, brúa og hafnargerða er það að segja, að rétt er, að víða er þar brýn þörf. En einmitt af því, hvað féð, sem til þess er veitt, er tiltölulega lítið miðað við þarfir, tel ég, að taka ætti upp í meiri mæli en tíðkazt hefur ákvæðisvinnu við brúargerð, vega- og hafnargerðir. Mér er kunnugt um, að slíkt hefur gefizt mjög vel hérlendis. T.d. hefur hluti af flugvallargerð á Ísafirði, sem nú er nýlokið, verið unninn þannig, með þeim árangri, að sá hluti verksins, sem unninn hefur verið í ákvæðisvinnu, hefur ekki farið fram úr margra ára gamalli áætlun, þrátt fyrir allar verðhækkanir, sem orðið hafa á þeim árum. Ég er viss um, að ef slík vinnubrögð yrðu upp tekin meira en nú er, þá nýttist það fé, sem til umráða er, miklu betur en nú.

Vegna ummæla hv. þm. um, að ekkert væri hugsað fyrir stofnframlögum sjóða landbúnaðarins, vil ég skýra frá því, að hæstv. fjmrh. hefur einmitt mælzt til þess, að fjvn. taki upp við 3. umr. heimild fyrir ríkisstj. til að taka 25 millj. kr. lán og endurlána Ræktunarsjóði Íslands og Byggingarsjóði sveitabæja.

Um breytingar á tekjuáætlun frv., sem hv. þm. ræddi um, hygg ég, að þær séu ekki raunhæfar, eða a.m.k. tel ég ekki, að hann hafi fært sannfærandi rök fyrir þeim.