14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (3448)

102. mál, afurðalán vegna garðávaxta

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Till. sú til þál., sem ég flyt ásamt fjórum öðrum þm. Framsfl., er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að veitt verði afurðalán út á garðávexti, hliðstætt því, sem gert er vegna sauðfjárafurða, enda séu garðávextir komnir í örugga geymslu, þegar afurðalán er veitt:

Á undanförnum árum hefur Seðlabankinn veitt lán fyrir fram út á sauðfjárafurðir, allt alt 2/3 hlutum af áætluðu söluverði afurðanna. Þessi lán bæta að miklum mun fjárhagsaðstöðu framleiðenda og þeirra fyrirtækja, sem annast sölu afurðanna, enda eru þau nauðsynleg, þar sem rekstrarkostnaður, svo sem áburðarkaup, fellur á verzlunarfyrirtækin og færist í reikninga bænda aðallega á fyrri hluta árs, en sauðfjárafurðir koma ekki á markað fyrr en að hausti og greiðast ekki að fullu fyrr en þær birgðir eru að miklu leyti seldar. En framleiðsla landbúnaðarafurða þarf að vera sem fjölbreyttust, og eftir því sem mannfjöldi vex í landinu, eftir því þarf framleiðslan að aukast.

Garðávextir eru ein af þeim tegundum matvæla, sem þjóðina má ekki skorta. Það er mjög eðlilegt, að í landbúnaðinum og innan bændastéttarinnar myndist nokkur verkaskipting, þannig að sumir bændur rækti hlutfallslega meira af garðávöxtum heldur en aðrir, því að aðstaða í héruðum til slíkrar ræktunar er misjöfn, bæði vegna tíðarfars og landgæða. Þetta er að ýmsu leyti viðurkennt í landbúnaðarlöggjöfinni. T.d. í lögunum um ræktun og byggingar í sveitum eru sérstök ákvæði um stuðning til garðyrkjubænda, og þar með er það viðurkennt, að þá framleiðslugrein eigi að meta til jafns við aðrar í landbúnaðinum. En fram að þessu hafa ekki verið veitt afurðalán út á garðávexti, hliðstætt því, sem gert hefur verið um alllangt skeið á sauðfjárafurðir.

Um rekstrarkostnað vegna garðávaxta er mjög svipað farið og um sauðfjárafurðir, þannig að kostnaður við áburðarkaup og vinnu fellur til á fyrri hluta árs, en afurðirnar koma ekki á markað fyrr en að hausti og greiðast ekki að fullu fyrr en þær eru seldar. Tillaga sú, sem hér liggur fyrir, stefnir að því, að úr þessu verði bætt og að Alþ. beini því til ríkisstj., að tekin verði upp afurðalán út á garðávexti. Tillagan er því fullkomlega réttmæt, og ég vænti þess, að hún fái brautargengi hér á hv. Alþingi. Trygging fyrir því, að ekki verði skakkaföll vegna slíkra lánveitinga sem hér er farið fram á, á að vera sú, eins og segir í tillögunni, að garðávextir séu komnir í örugga geymslu, þegar afurðalán er veitt, og enn fremur ber þess að gæta, að afurðalánin, þó að veitt yrðu hliðstætt því, sem gert er á sauðfjárafurðir, nema ekki meira en helmingi til 2/3 hlutum af verði vörunnar.

Ég vil að lokum geta þess, að aðalfundur Stéttarsambands bænda, sem haldinn var s.l. haust, tók þetta mál til umr. og gerði í því svofellda ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1961 ítrekar tillögu frá síðasta aðalfundi um, að bankarnir láni afurðavíxla út á kartöflur eins og aðra framleiðsluvöru, enda séu kartöflurnar metnar og komnar í tryggar geymslur:

Þessi tillaga okkar framsóknarmanna er því borin fram í samræmi við þá ályktun, sem aðalfundur Stéttarsambands bænda hefur gert að undanförnu um þetta mál.

Ég mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa tillögu, en tel eðlilegt, að umr. verði frestað og málinu vísað til nefndar. Mér finnst eðlilegt, að það verði allshn., því að hér er ekki um nein fjárútlát að ræða af hálfu ríkissjóðs samkvæmt tillögunni.