18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Áður en ég vík að ræðu hæstv. fjmrh., vil ég segja nokkur orð í sambandi við ræðu hv. formanns fjvn.

Hv. þm. sagði, að ég hefði fallið í þá freistni að býsnast yfir því, hvað fjárlögin væru há. Ég gerði grein fyrir því í minni framsöguræðu, að margar ástæður gætu legið til þess, að fjárlög hækkuðu ár frá ári, og þyrfti það ekki að vera neikvætt. En hins vegar gerði ég einnig grein fyrir því, hvað þyrfti að vera til staðar, til þess að hækkun fjárlaga væri eðlileg, og sýndi fram á það með ljósum rökum, að það væri ekki til staðar í sambandi við þetta fjárlagafrv., og af þeirri ástæðu dæmdi ég það fyrir það, hvað það var hátt.

Um tekjuáætlun pósts og síma er ekki annað að segja en það, sem ég tók hér fram áðan, að hún hefur verið hækkuð svo mikið, að póstur og sími er nú látinn annast að öllu leyti sína uppbyggingu, og það er gert með auknum álögum á almenning.

Um Skipaútgerð ríkisins mun ég svo ræða seinna og sömuleiðis atvinnuleysistryggingasjóð.

Um ákvæðisvinnuna í brúa- og vegagerð og hafna verð ég nú að segja það, að fjárveitingar til þeirra framkvæmda þurfa að vera ríflegri en nú er, ef ákvæðisvinnu á að verða þar verulega við komið. Ég sýndi fram á það í ræðu minni í dag, hvað mjög hefði úr þessu dregið, og það er nú svo með brúargerðir, að það má teljast gott, ef er brú í annarri hverri sýslu á landinu, en áður fyrr var venjulega a.m.k. ein brúarframkvæmd í hverri sýslu. Þess vegna held ég, að fjárveitingar til þessara framkvæmda þurfi verulega að aukast, áður en ákvæðisvinna kæmi þar nokkuð að notum.

Um tekjuáætlunina sagði hv. formaður, að ég hefði rökstutt það lítið, hvernig við byggðum upp okkar tekjuáætlun. Ég skýrði þó frá því hér í dag, að við byggðum hana á þeim upplýsingum, sem ráðuneytisstjórinn í efnahagsmrn. hefði gefið í fjvn. Fyrst skal tekið fram, að við höfðum ekki langan tíma til þess að velta þessu fyrir okkur, þar sem ráðuneytisstjórinn mætti hjá okkur eftir hádegi á laugardag og við urðum að vera búnir að skila nál. og till. um hádegið í gær. Hins vegar voru mín rök fyrir tekjuáætluninni áreiðanlega sterkari en þau rök, sem hv. formaður hafði til að mótmæla henni, því að þau voru engin.

Þá vil ég snúa mér að hæstv. fjmrh., sem hélt hér langa ræðu, áður en fundarhlé var gert. Að vísu var nú orðið svo, að útlit var fyrir, að hann ætlaði ekki að geta verið hér við fjárlagaumr., og hefði það að sjálfsögðu orðið nýtt í sögu þingsins.

Hæstv. ráðh. vék að togaraútgerðinni í landinu, og ég ætla ekki að fara að ræða það mál hér við þessa umr. Hann taldi, að efnahagsráðstafanir hæstv. ríkisstj. hefðu ekkert við togaraútgerðina komið. Trúi þeir, sem trúa vilja, að vaxtahækkun hæstv. ríkisstj. hafi ekki komið við togaraútgerðina. Mér sýnist af þeim gögnum, sem ég hef séð, að þeir skuldi það mikið, togaraútgerðarmenn, að vaxtahækkun komi áreiðanlega við þá.

Hæstv. ráðh. ræddi mikið um ríkisábyrgðirnar og þær aðgerðir, sem þeir hefðu gert viðvíkjandi ríkisábyrgðunum á s.l. sumri í sambandi við gengisbreytinguna. Það er um þær að segja, að í sumar hefur setið á rökstólum nefnd til þess að vinna að því, hvernig eigi að fara með eldri ríkisábyrgðir, sem á voru fallnar. Sú nefnd gerir tillögu til ráðuneytisins um, að verulegur hluti af þessum ríkisábyrgðum verði innheimtur. Það er sáralítið, sem nefndin gerir tillögu um að verði eftir gefið, heldur verði þessu breytt í löng lán til þess að gera aðilum kleift að endurgreiða það, sem ríkið hefur orðið að greiða fyrir þá. Nefndin gerir einnig ráð fyrir því, að þær ábyrgðir, sem á hafa fallið á þessu ári, sem eru að verulegu leyti vegna þess, að það hefur ekki verið hægt að innheimta hjá útgerðarmönnum vegna laganna um stofnlánadeild sjávarútvegsins, — nefndin gerir fastlega ráð fyrir því, að þessar ábyrgðir verði innheimtar, þegar áhrifa þessara laga hættir að gæta og stofnlánin eru afgreidd. Það hefur verið til þessa með þeim hætti, að það hefur verið gengið að frystihúsunum eða hafa verið greiddar ábyrgðir fyrir þau, og er reiknað með því, að hæstv. ráðh. fylgi þessari reglu. En það verður að segja, að það eru góð viðskipti í sambandi við þessar ríkisábyrgðir. Í fyrsta lagi er búið að ætla verulega fjárhæð til þeirra á fjárlögum. Í öðru lagi er till. um að innheimta þær að mestu leyti. Og í þriðja lagi á svo að taka gengishagnaðinn til þess að mæta þeim. Ef ríkissjóður tryggir sig alls staðar svo vel sem hér er, þá þarf hann ekki að kvíða um sín viðskipti.

Þá kom hæstv. ráðh. að niðurgreiðslunum og útflutningsuppbótunum á landbúnaðarvörur. Það, sem var aðalatriðið í því, sem hann þar sagði, og gladdi mig, var, að hann sagði, að við útflutningsuppbæturnar yrði staðið, enda tók ég það fram í ræðu minni í dag, að ég gerði ráð fyrir því. í öðru lagi sagði hann, að það yrði ekki velt yfir á fólkið í verðhækkunum niðurgreiðslunum eða lækkun þeirra, eins og við gerðum ráð fyrir. Og í þriðja lagi, að engu væri slegið föstu um breytingar á niðurgreiðslunum. Það var einmitt þetta, sem ég og hv. 6. þm. Sunnl. vorum að taka fram hér í ræðum okkar í dag, að við vildum ekki ganga út frá því að afgreiða fjárlögin eftir einhverjum hugsanlegum reglum, sem enginn vissi, hverjar yrðu. Við höfðum af því reynslu um skattanefndirnar í fyrra, þegar gert var ráð fyrir því þá, að skattalögunum eða skattálagningunni yrði breytt, og þá var í athugasemdum fjárlagafrv. reiknað út frá þessu nýja kerfi, sem er ekki farið að sjá dagsins ljós enn.

En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um áætlanir framleiðsluráðs, vil ég leiðrétta það nokkuð. Hæstv. ráðh. var að vefengja áætlanir ráðsins í fyrra. Það lá fyrir fjvn. áætlun frá framleiðsluráði upp á 21 millj. 250 þús., en 1. des. sendi framleiðsluráðið nýja áætlun upp á 19.8 millj. Nú segir hæstv. ráðh., að þetta verði 18 millj. Það liggur ekki fyrir enn þá, hver fjárhæðin verður, um það hef ég fengið upplýsingar, og þess vegna hygg ég, að þessi áætlun sé nærri lagi. Hins vegar var líka á það bent af framleiðsluráði, að ef minnkaður yrði útflutningur á dilkakjöti, mundi það þýða, að niðurgreiðslurnar yrðu hærri og þess vegna kæmi það nokkurn veginn út á eitt. Ef hefur verið minni útflutningur en gert var ráð fyrir, sem mun ekki nema neinni fjárhæð, þá er það vegna þess, að niðurgreiðslur hafa farið fram úr áætlun, eins og hæstv. ráðh. tók fram. En því er til að svara, að framleiðsluráðið hefur ekki verið beðið um neina áætlun núna. Framleiðsluráð hefur ekki verið beðið um neina áætlun núna, og þess vegna hentar það ekki hér á hv. Alþ., að verið sé að slá fram, að það sé ekki hægt að fara eftir áætlun frá framleiðsluráði, það sé eitt í dag og annað á morgun. En heldur svo hæstv, ráðh., að þrátt fyrir vafasamar áætlanir, sem liggja ekki fyrir, frá framleiðsluráði, þá geti ríkisstj. áætlað til niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta minni fjárhæð, lækkað þetta um meiri fjárhæð en sem nemur öllum útflutningsuppbótunum, og tekur það svo fram, að hún hafi ekki hugsað sér að láta verðhækkun eiga sér stað á þeim vörum, sem hún hefur til þessa borgað niður, og ekki slegið föstu um neina breytingu á reglum til útborgana? Hvernig á að koma þessu heim og saman? Það er ekki hægt að segja, að það eigi engu að breyta, en jafnframt að halda því fram, að það sé eðlilegt að áætla þessa upphæð um 74 millj. kr. minna en gert er ráð fyrir.

Út af þessari upphæð, 74 millj. kr., vil ég taka það fram, að við höfum þessa upphæð frá formanni fjvn. samkvæmt þeim upplýsingum, sem hann gaf okkur í n., eftir að við höfðum beðið um þær þar, og ekki beðið um, að það yrði nein önnur upphæð en reiknað væri með útflutningsuppbótunum eins og þær voru áætlaðar og niðurgreiðslunum óbreyttum. Þetta eru 73.8 millj. kr., sagði formaður skýrt og skilmerkilega, lét okkur það í té, eins og óskað var, og það er sú tala, sem við erum hér að ræða um. Þess vegna er ekki hægt að komast fram hjá þessu atriði nema með því að breyta reglunum eða áætla minni útgjöld en gera má ráð fyrir, og ég vil ekki trúa því, að hæstv. ráðh. vilji taka það sem góða og gilda vöru að fá bagga upp á 70 millj. kr. umfram fjárlagaáætlun.

Þá tók hæstv. ráðh. til að ræða um útflutning á landbúnaðarvörum, og þar var mikið mál um að tala. Og það minnti sannarlega á, þegar hæstv. ráðh. hefur verið að tala um fyrirætlanir sínar í sparnaðarmálum og öðru slíku, sem hefur svo ekki orðið meira en upptalningin ein. Hann var að tala um, að það mætti áreiðanlega koma þessum málum betur fyrir en nú væri gert. Að vísu tók hann svo fram, áður en lauk, að það mundi ekki hafa áhrif á niðurgreiðslurnar á næsta ári. Hæstv. ráðh. hélt, að það hefði engin breyting orðið í sambandi við útflutningsverzlun landbúnaðarins í eina öld, það færi nákvæmlega í sama farveg og var fyrir einni öld. Á síðari hluta 19. aldarinnar var sauðaútflutningurinn eini útflutningurinn á landbúnaðarvörum hér. Það hefur orðið breyting á því, því að nú flytjum við ekki út lifandi fé. Á fyrstu þrem tugum og fram á fjórða tug þessarar aldar var það saltkjötsútflutningurinn, sem átti sér stað hér. Og það voru samtök bændanna í landinu, sem tóku með myndarlegu viðbragði, þegar þeir þurftu að breyta frá saltkjötsflutningnum yfir í frosna kjötið, og það er ekki fyrr en á fjórða tug þessarar aldar, sem farið er að flytja frosið kjöt út. Og svo heldur hæstv. ráðh. því fram hér á hv. Alþingi, að þetta renni í sama farvegi og fyrir heilli öld. Ég held, að hæstv. ráðh. þyrfti að kynna sér þetta mál dálítið betur, áður en hann fer með slíka sleggjudóma hér á hv. Alþingi um þá menn, sem hafa sýnt myndarskap í verzlun með landbúnaðarafurðir. Því er meira að segja haldið fram hér á hv. Alþingi í sambandi við annað mál, að sölustöðvar bændanna í landinu séu svo fjárhagslega vel stæðar, að það þurfi ekki að veita þeim svipaða aðstoð í sambandi við skuldaskilin og sölustöðvum sjávarútvegsins. Og svo kemur hæstv. fjmrh. og heldur því fram, að þessu hafi verið sérstaklega illa stjórnað. Það fer ekki saman, hvort við erum hér að ræða um útflutningsuppbætur eða lánamál bændanna.

Þá kom hæstv. fjmrh. að því að tala um verklegar framkvæmdir, og meginkjarni í því, sem hann þar sagði, var einmitt það, sem er meginkjarni í störfum hæstv. ríkisstj. eða stefnu hennar, og það var, að það yrði að stilla fjárfestingunni í hóf, þess vegna yrði að gæta að því, að uppbyggingin í landinu yrði ekki of mikil, og sannarlega hefur hæstv. ríkisstj. unnið markvisst að því. Hæstv. ráðh. gat þess, að framlag til veganna hefði hækkað á þessum árum frá 1958 um 46%, þegar fjárlögin hafa hækkað á annað hundrað prósent, en hann gleymdi að geta þess í leiðinni, hæstv. ráðh., að þegar þessi hæstv. ríkisstj. kom til valda, tók hún í ríkissjóð 28 aura af hverjum benzínlítra eða 14 millj. kr. af umferðinni til viðbótar því, sem áður var. Og svo býsnast hæstv. ráðh. yfir því, að framlög til vega hafi hækkað um 46%, þegar fjárlögin í heild hafa hækkað á annað hundrað prósent. Það er nákvæmlega þetta, sem ég var að halda hér fram í dag og sýna fram á að hefði gerzt, að það, sem væri um að vera, væri það, að fjárveitingin til þessara framkvæmda hefði ekki fylgt eftir hækkun fjárlaganna og þar munaði stórkostlega. Og hæstv. ráðh. staðfesti þetta. Til flugvallanna hefur hækkunin verið um 67%, þegar fjárlögin hafa hækkað á annað hundrað prósent, og til hafnanna um 60%. Þetta sýnir bara það, sem ég sýndi fram á hér í dag, að það er einmitt það, sem hefur gerzt, að féð til framkvæmdanna í landinu hefur dregizt aftur úr miðað við upphæð fjárlaganna, og það er sú þróun, sem ég taldi hina óæskilegu þróun, en það er í samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj.

Þá ræddi hæstv. ráðh. um framlag til atvinnuleysistryggingasjóðsins, taldi, að óþarfi væri að greiða það, vegna þess að sjóðurinn hefði mikið af reiðufé. En setjum nú sem svo, að þessi stefna verði upp tekin. Hvað er þá fyrir þá, sem síðar koma? Eiga þeir þá að greiða hin lögboðnu rekstrargjöld til sjóðsins og lánin að auki? Viðþol sjóðsins er ekki einhlítt í þessu tilfelli. Þó að sjóðurinn kannske í sjálfu sér þurfi ekki fé á næsta ári, þá verður ríkissjóður skuldugur um þessa fjárhæð og verður að halda áfram að greiða framlagið að óbreyttum lögum framvegis. Hæstv. ráðh. líkti þessu saman við lögin í sambandi við sauðfjárveikivarnir, þegar skiptaniðurskurður ætti sér stað. Það er sá munur á þessu tvennu, að í fyrsta lagi er það tekið fram í lögunum um sauðfjárskiptin, að þetta geti átt sér stað, og bændur vita, að hverju þeir ganga um þetta efni, auk þess sem sauðfjárniðurskurður og fjárskipti, það er ekki reiknað með því, að þau verði varanleg í þessu landi. Það er ekki reiknað með þeim sem varanlegum útgjöldum, sem árlega þurfi að greiða til. Þess vegna er það staðfesting á því, sem ég tók hér fram í dag, að það er ekki hægt að stofna til skulda vegna venjulegra rekstrargjalda, þó að það verði að gera það við framkvæmd á einstaka verkum. Það er meginmunur á þessu tvennu. Rekstrargjöldin kalla til árlega, en slík fjárveiting eins og vegna fjárskipta er ekki hugsuð að falla til árlega, heldur er hér um svo mikla fjárhæð að ræða frá sjónarmiði löggjafans í þessu skyni, að það á að jafna henni á lengri tíma. Þess vegna er þessi háttur hafður á um fjárskiptin og fjárskiptabæturnar. Það hjálpar því ekki hæstv. ráðh. út úr þessari bóndabeygju, sem hann hefur sett sig í með þetta mál sitt.

Þá kom hæstv. ráðh. að Skipaútgerð ríkisins, og hv. formaður n. vék að því líka, eins og ég tók hér fram áðan. En hann bara staðfesti það, sem ég sagði hér í dag. Það var nefnilega þetta, það hefur engin skipulagsbreyting átt sér stað. Það hefur heldur verið dregið úr þjónustunni. T.d. var Hekla látin fara í utanlandssiglingar mánuði fyrr í fyrravor en áður, og það var verið að draga úr þjónustu við landsfólkið einmitt með þeirri ráðstöfun. Það var gert til þess að jafna hallann. Og farmgjaldahækkunin núna er gerð til þess að færa yfir á fólkið, svo að ríkissjóður þurfi ekki að bera hallann. Hér er ekkert að gerast, sem menn skilja ekki. Mönnum er orðið það fullkomlega ljóst. Það er bara spurningin um það, hvort ríkið á að veita þessu fólki, er ríkisskipin þarf að nota, meiri eða minni aðstoð. Það er ekki spurning um neitt annað og auðskilið mál, og það er staðfest af hæstv. ráðh., sem hélt því fram í dag, að það hefur verið fært yfir á fólkið með hækkuðum farmgjöldum og fargjöldum, því að það hefur engu verið breytt í skipulaginu.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að ekki væri um nýja skatta að ræða, þar sem skattstofnunum hefði á engan hátt verið breytt eða skattaprósentunni. Nú tók ég fram í minni ræðu í dag um nýjar álögur á almenning í landinu, og ég endurtek það, að það hafa verulegar nýjar álögur verið lagðar á almenning í landinu á þessu ári. Ríkissjóður tók til sín gengishagnaðinn, eins og upplýst er. Hann var búinn í nóvemberlok að fá 75.4 millj. kr. af þessum nýja skattstofni. Það munar nú um minna. En ég vil segja það, að það er ekki sambærilegt, hvort um er að ræða einhverja verðlagsbreytingu á einni vörutegund erlendis eða hvort ríkisstj. breytir skráningu á gengi krónunnar. Það er verulegur munur á því. Og við flestar gengisbreytingar hefur átt sér stað skattalækkun hlutfallslega, vegna þess að stofninn hefur verið hærri, sem af hefur verið tekið. Og í þessu sambandi og sambandi við það hugsanabrengl, sem hæstv. ráðh, var að tala um að kæmi fram hjá okkur, vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að þegar hv. þm. Eysteinn Jónsson var fjmrh., þá var talað um Eysteinsskattana, en á árunum 1950–58, meðan Eysteinn Jónsson var ráðh., var hann alltaf að lækka skattana, sem fyrirrennarar hans, ráðherrar úr Sjálfstfl., höfðu lagt á þjóðina. Og það hefur sennilega orðið þarna eitthvert hugsanabrengl, þegar var verið að ræða um þessa skatta þá. Og ég er ekki alveg viss um, að hæstv. fjmrh. núv. hafi þá gert sér ljósa grein fyrir því, að stofninn, sem á var lagt, hefði hækkað vegna gengisbreytinga og annað því um líkt og því mætti ekki taka þetta svona.

Nei, því verður ekki mótmælt, að það hafa verið verulegar álögur lagðar á þjóðina á þessu ári fyrir ráðstafanir hæstv. ríkisstj., og er alveg sama, hvað hæstv. ráðh. kann um það að segja.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri nýting vegafjárins, sem skipti ekki minna máli en fjárveitingarnar, og nú væri nýtingin orðin sú, að í staðinn fyrir, að áður fyrr hefði verið unnið að 219 vegum, væri nú unnið að 100. Ég skal segja hæstv. ráðh. það, að það veitist okkur þm. Vesturl. fullerfitt að fá fjárveitingar í þá fáu vegi, sem við látum vinna í á næsta ári. Og ég skal líka segja honum það, að það verður mun minna en áður unnið í vegagerð í mínu gamla kjördæmi á næsta ári, þó að fjárveitingin hafi hækkað nokkuð í krónutölu, vegna þess að verðlagið hefur hækkað miklu meira. Þess vegna held ég, að hæstv. ráðh. ætti að vara sig á því að tala um nýtinguna, þegar fjárveitingarnar eru að verða slíkar, að það er nánast ekki hægt að skipta þeim nema í einn eða tvo vegi í héraði hverju. Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. hefur efni á því að eyða miklum tíma í umtal um nýtingu.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að ég kynni ekki að meta nógu vel hagsýslugerðina og sparnaðinn, og taldi, að það hefði ekki verið á þeim málum haldið svo sem ég hafði búizt við. Og í því sambandi gat hæstv. ráðh. þess, að það væri ekkert undarlegt, þó að erfitt væri að laga þetta eftir stjórnarár Framsóknar. í þessu sambandi vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að þegar hann ræddi hér um sín fyrstu fjárlög, þá gat hann um, að það hefði ekki verið tími til þess að undirbúa fjárlagaafgreiðsluna eins vel og hann vildi vera láta, en fyrir næstu fjárlagaafgreiðslu skyldi vera búin að fara fram gagngerð endurskoðun á fjárlagafrv. og fjárlögum ríkisins með sparnað fyrir augum. Og þessi gagngerða endurskoðun fór svo fram, áður en fjárlögin voru undirbúin fyrir 1961, og hefur vafalaust haldið áfram. Nú verð ég að segja það eins og er, að mér fyndist það engin goðgá, þó að eitthvað hefði breytzt í fjármálastjórn ríkisins og e.t.v. eitthvað til sparnaðar, þegar þessi gagngerða endurskoðun var búin að fara fram. En það hefur skeð, að þrátt fyrir leitina, þrátt fyrir gagngerða endurskoðun á fjármálastjórn Eysteins Jónssonar, þá kom það, sem þar stendur: Fjöllin tóku jóðsótt og það fæddist sáralítil mús. Það er nánast sameiningin á tóbaki og áfengi, sem er eina blómið í hnappagatinu hjá hæstv. fjmrh., og það hefur sannarlega ekki verið mikið, sem hefur þurft að hreinsa til, fyrst ekki tókst betur um alla endurskoðunina en þetta. Ég skal segja hæstv. ráðh. það, að ég bjóst aldrei við miklu af hendi hæstv. ríkisstj. í þessum efnum frekar en öðrum. Hins vegar vil ég láta ráðh. njóta sannmælis eins og aðra menn, og ég bjóst sannarlega við einhverju, og mig furðar stórkostlega, að það skuli ekkert vera komið fram af þessum 23 atriðum, sem eru talin og bent var á af meiri hl. fjvn. á síðasta þingi, eða af þeirri upptalningu, sem hæstv. ráðh. hefur verið með hér við fjárlagaafgreiðslu fyrr. Það sýnir okkur kannske betur en annað, hvað vel hefur verið haldið á fjármálum ríkisins af hendi Eysteins Jónssonar, og það sýnir okkur líka, að þetta tal hæstv. stjórnarliða nú um sparnað hefur verið af öðrum toga gert en að hugsa sér að framkvæma hann. Og mér dettur í hug í þessu sambandi, að það var nú fyrir nokkrum kvöldum, að þá var ég að lesa nýútkomna bók, þar sem teknar eru saman greinar og viðtöl við Stein Steinarr. Á einum stað segir Steinn frá því, að einn rithöfundur, sem hafði tekið að sér að þýða ljóð, kallaði blaðamenn til sín og skýrði þeim frá því, hvað hann ætlaði að gera. Og þegar hann er búinn að fara um þetta nokkrum orðum og skýra málið, þá segir hann þetta í niðurlagi greinarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Og þegar ég nú þakka honum af heilum huga fyrir þetta tilvonandi meistaraverk, vil ég nota tækifærið til þess að mótmæla eindregið og opinberlega þeirri kennisetningu gömlu mannanna, að andleg þrekvirki séu ævinlega unnin í kyrrþey og án skrums og skjalls, þó að ég af sérstökum ástæðum geti ekki rökstutt þetta nánar.“

Ég vil enda þessi orð mín og segja, að ég þakka hæstv. ráðh., þegar sparnaðurinn kemur, en það verður hægt með sanni að segja, að hann var ekki unninn án skrums og skjalls.