14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í D-deild Alþingistíðinda. (3471)

135. mál, iðnaður fyrir kauptún og þorp

Flm. (Bergþór Finnbogason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér í sameinuðu Alþingi till. til þál. á þskj. 265 ásamt hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 2. þm. Sunnl.

Till. sú til þál., sem hér er til umr., er miðuð við það, að hægt sé að leysa í heild mjög aðkallandi vandamál margra kauptúna landsins, þ.e.a.s. atvinnumál þeirra kauptúna, sem ekki hafa aðstöðu til sjávarútvegs. í grg. með þáltill. er því lýst, hvernig þessi kauptún urðu til, um leið og verzlun dreifðist um landið í kjölfar þjóðveganna. Flest þessara kauptúna hafa á síðari árum verið í örum vexti og fjölgun fólksins orðið meiri en svo, að hinir fábreyttu atvinnuvegir gætu séð öllum fyrir starfi þar. Og nú verður uppvaxandi æska sveitakauptúnanna að leita til fjarlægari staða í vaxandi mæli eftir atvinnu. En það er nokkuð áhættusamt og getur verið skaðlegt fyrir þjóðfélagið í heild, ef slíkt gerist í stórum stíl, í fyrsta lagi vegna þess, að það er hætt við, að það valdi meira hviklyndi og rótleysi meðal æskunnar að þurfa að slíta fjölskyldutengslin svo fljótt. Í öðru lagi er svo á það að líta, að ef fólksflutningar eru örir frá einum stað til annars, þá getur skapazt það öngþveiti, sem erfitt er að leysa, og er þá oft lokaráðið að leita á náðir þess opinbera um aðstoð til að leysa þann vanda. En þá vaknar spurningin um það. Hefði ekki verið skynsamlegra að leita þangað fyrr til að stöðva skriðuna, svo að jafnvægið mætti haldast öllum til heilla?

Það má eflaust um það deila, hvort æskilegt sé, að þau kauptún, sem myndazt hafa um sveitir landsins á síðari árum, vaxi meir frá því, sem orðið er. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé mjög til bóta fyrir þjóðfélagið, að þessi kauptún eflist og vaxi og þeim fjölgi í framtiðinni. Það er alveg augljóst mál, að það verður að vinna að því, að sveitirnar taki við allverulegum hluta af fjölgun þjóðarinnar á næstu árum. Og það er svo einkennilegt, að það er í nánum tengslum við kauptúnin, sem þar eru, hvort fólkið unir sér í sveitinni, því að þeirra hlutverk er að vera nokkurs konar menningarmiðstöð fyrir sveitirnar. Þangað á sveitafólkið, ef því gefst tómstund, að geta sótt það, sem það sækist eftir, en sér í hillingum í fjarlægum kaupstöðum. Það er mín skoðun, að kauptúnin geti þannig orðið hemill á þá öfugþróun, sem átt hefur sér stað á undangengnum árum, að bóndasonurinn og bóndadóttirin hafa lagt land undir fót í leit að félagslífi í kaupstöðum, en vegurinn til baka orðið of langur, og þess vegna var setzt um kyrrt. Þess vegna held ég, að það væri heillavænlegra að flytja það út í sveitirnar, kvikmyndasýningar og annað því um líkt, sem ungt fólk sækist eftir, ef vera mætti, að það gæti notið þess í tómstundum sínum í sinni heimasveit. Þá yrði vegurinn til baka ekki eins langur og erfiður, ef vonir stæðu til þess, að hægt væri að endurnýja félagsskapinn, hvort sem er í kvikmyndahúsum eða á dansleik, þegar næsti frídagur gefst. Það er því óhætt að fullyrða, að þetta er hagsmunamál þjóðfélagsheildarinnar og miklu meira mál en menn almennt gera sér grein fyrir.

Þau eru nokkuð mörg kauptúnin, sem líta þarf til í þessum efnum. Við getum nefnt Hveragerði, Selfoss, Hellu, Hvolsvöll, Vík í Mýrdal, Borgarnes, Stykkishólm, Búðardal, Hvammstanga, Blönduós og Egilsstaði. Þetta er náttúrulega ekki tæmandi upptalning, því að víðar er vísir að þorpum í miðri byggð, þótt í smáum stíl sé.

Á flestum þessara staða er nú þegar knýjandi þörf fyrir aukningu á atvinnu, einkum þó fyrir unglinga, sem foreldrar vilja halda á heimilum sínum í lengstu lög. En hvað er þá hægt að gera? Eru nokkrir möguleikar á því að auka þann iðnað, sem fyrir er á þessum stöðum, eða bæta við nýjum iðngreinum? Það á fyrst og fremst að vera hlutverk nefndarinnar, ef kosin verður, að gera tillögur um það. En benda má á, að eðlilegast væri, að þau hráefni, sem landbúnaðurinn leggur til, væru unnin mest á þessum stöðum, og kemur þá helzt til greina utan mjólkuriðnaðar skinna-, gæru- og ullariðnaður, auk þess niðursuðuiðnaður úr kjöti og garðávöxtum, því að sannleikurinn er sá, að það er sáralítið unnið úr þessu hráefni.

Tökum t.d. ullariðnaðinn, sem þó hefur verið ört vaxandi síðustu árin. Heildarframleiðslan á ull mun vera um 800 tonn, og af því magni munu vera um 600 tonn flutt og seld úr landi óunnin. Þarna virðist vera verkefni fyrir margar hendur að vinna og skapa verðmætari útflutning, þar sem 3/4 hlutar ullarinnar eru seldir óunnir úr landi. Lítum á aðra tegund af hráefni úr landbúnaðarframleiðslunni, á gærurnar. Heildarmagn þeirra mun vera um 2500 tonn. Af þeim er selt úr landi óunnið 99%. Aðeins 1% af þessu hráefni er unnið hér.

Þessar tölur eru kannske ekki alveg nákvæmar, en þær eru mjög nálægt réttu lagi, enda ekki ætiaðar til annars en að sýna, hversu geysimikið verkefni er hér óleyst og hve gullið tækifæri það er að leysa atvinnuörðugleika kauptúnanna með því að margfalda útflutningsverðmæti þessarar vöru, sem framleidd er einmitt í nágrenni þeirra.

Þó að við gerum ekki annað en að breyta þeirri ull, sem flutt er úr landi óunnin, í einföldustu gerð af peysum og teppum, þá fengjum við meira en þrefalt verð fyrir hana þannig flutta úr landi.

Þegar þessi mál hefur borið á góma í orðræðum manna á milli, þá hef ég orðið þess var, að hugur manna stefnir yfirleitt í eina átt með ullariðnaðinn í landinu, til Akureyrar. Þar séu verksmiðjur, sem bæta megi og auka við með langtum minni tilkostnaði heldur en að reisa nýjar verksmiðjur á öðrum stöðum. Þetta eru rök, en ekki fullnægjandi rök, þar sem ekki hefur enn tekizt að vinna úr nema 1/4 hluta ullarvörunnar, og er þó víðar unnin ull en á Akureyri. Þá er og á það að líta, að við verðum að ætla, að verulega aukist það ullarmagn, sem til fellur, á næstu árum, og eins mætti hafa í huga þau fallegu orð, sem mikið hafa verið notuð, að allt skuli gert til þess að halda jafnvægi í byggð landsins.

Nú er mestöll ull landsins flutt til Akureyrar og þvegin þar, og mér er tjáð, að þó að ullarframleiðsla aukist hér allverulega á næstunni, þá geti þessi þvottastöð tekið við þeirri aukningu, aðeins með því að bæta við mjög ódýrri vélasamstæðu. En þrátt fyrir þetta er ég ekki sannfærður um, að það sé rétt stefna að flytja ull, t.d. úr Vestur-Skaftafellssýslu, allar götur til Akureyrar til að þvo hana þar úr heitu vatni upphituðu með olíu, á sama tíma sem menn á Suðurlandi þurfa víða að taka á sig krók til að komast ferða sinna fyrir heitu vatni, sem enginn notar.

Ég hef hér aðeins drepið á tvö hráefni landbúnaðarframleiðslunnar, sem augljóst er að mætti gera miklu verðmætari, en vafalaust kemur margt fleira til greina. Byggingariðnaður okkar á eftir að aukast mikið og breytast frá því, sem nú er. Ný hráefni koma til sögunnar, bæði erlend og innlend, svo að vel gæti vinnsla úr þeim dreifzt um landið.

Þá er sá þátturinn eftir, sem snýr að fjárhagshlið þessa máls. Fjárhagsgeta þeirra kauptúna, sem hér um ræðir, er ákaflega takmörkuð, hvort heldur er sveitarfélaganna, fyrirtækja eða einstaklinga þar, en eins og verðlag er nú á öllum hlutum, þá þarf mikið fjármagn til að koma á fót nýjum fyrirtækjum, og er vart hugsanlegt á þessum stöðum, nema til komi stuðningur hins opinbera, annaðhvort með beinum fjárframlögum eða ríkisábyrgðum til þeirra aðila, sem hefjast vildu handa og ryðja þarna brautina. Ég held, að íbúar þessara kauptúna geti kinnroðalaust mælzt til slíkrar fyrirgreiðslu, þegar litið er til fiskiþorpanna meðfram ströndum landsins, er notið hafa margs konar stuðnings af sameiginlegum sjóði skattþegnanna. Ég er búsettur í 1800 manna bæ, sem hefur ekki notið annarra framlaga af opinberu fé en þess, sem farið hefur til rafveitu og simaþjónustu ásamt lögboðnu framlagi ríkisins til skólahalds. Það þætti einhverjum rýr hlutur af því skattfé, sem flutt er burt af staðnum. Það er gott að geta staðið á eigin fótum og þurfa ekki að leita til annarra, en þegar þrengist að freistast menn til þess að bera sig saman við samborgara sína, sem hafa haft svo langa hönd, að náð hefur til opinberra sjóða. Mér er þó vel ljóst, að margir útgerðarbæir og sjávarþorp eiga við árstíðabundna atvinnuörðugleika að stríða, sem finna þarf lausn á hið fyrsta. En sá þáttur er annars eðlis og þess vegna ekki tekinn með í þáltill. þessa, þó að hann sé engu siður brýnt rannsóknarefni. Þar hljóta önnur sjónarmið að verða ríkjandi um eflingu iðnaðarins, þar sem sníða þarf hann við hreyfanleik eftir árstíðum.

Með þáltill, þessari er ætlazt til þess, að hafin sé rannsókn á því, ef hún verður samþykkt, hvernig skipuleggja megi iðnaðinn og samræma á hinum ýmsu stöðum, og þá ávallt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum og það takmark fram undan, sem stefna verður að, að fullvinna öll þau hráefni, sem við ráðum yfir og til þessa hafa verið flutt óunnin úr landi. Með því getum við margfaldað gjaldeyristekjur þjóðarinnar, stóraukið atvinnu í landinu og myndað undirstöðu nýrra atvinnugreina, sem renna mundu nýjum og traustum stoðum undir allt efnahagslíf landsmanna. Það mundi þýða stórauknar þjóðartekjur, sem gætu orðið grundvöllur bættra lífskjara alls almennings, aukið mjög afkomuöryggi og skapað skilyrði fyrir almennum framförum og aukinni menningu. Það mundi skapa íslenzku þjóðinni beztu skilyrðin til þess að geta varðveitt og eflt efnahagslegt sjálfstæði sitt.

Fullvinnsla íslenzkra hráefna til útflutnings er sameiginlegt hagsmunamál margvíslegra stétta og hópa með þjóðinni. Hún er beint hagsmunamál verkalýðsins og þeirra, er vinna að öflun hráefna til sjós og lands, og ekki síður hinna, sem vinna úr hráefnunum og verzla með þan. Þá ætti það ekki síður að vera hugsjónamál að útrýma algerlega leifunum af nýlendustiginu úr atvinnulífi Íslendinga.

Að svo mæltu vil ég leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að að umr. þessari lokinni verði þáltill. þessari vísað til síðari umr. og fjvn.