21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í D-deild Alþingistíðinda. (3481)

144. mál, aukin afköst og bættar geymsluaðferðir síldarverksmiðja

Flm. (Alfreð Gíslason bæjarstjóri):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. hm. Reykn. (MÁM) að flytja þáltill. þá á þskj. 279, sem hér er til umr. Till. þessi er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Fiskifélagi Íslands að athuga og gera till. um, á hvern hátt megi auka afköst þeirra síldarverksmiðja, sem starfræktar eru á Suðvesturlandi. Jafnframt því fari fram athugun á því, á hvern hátt auka megi geymslurými síldarverksmiðjanna svo og hvaða aðferðir skuli notaðar til geymslu síldarinnar til þess að tryggja gæði framleiðsluvörunnar.”

Eins og kunnugt er, hafa árin 1960 og 1961 og það sem af er árinu 1962 markað tímamót í síldveiðum landsmanna hér við Suðurland. Um nokkurt árabil hafa haustsíldveiðar verið stundaðar frá verstöðvunum við Faxaflóa, en afli ekki verið svo að teljandi sé, fyrr en nú á síðustu tveim árum með tilkomu hinna stórtæku veiðitækja. Þessi síldarvertíð náði þó aldrei lengra en fram til byrjunar desember eða til jóla í lengsta lagi, að bátar fóru að búa sig undir vetrarvertíðina á þorskveiðar. Síldveiðar voru aldrei reyndar eftir áramót, fyrr en árið 1960, en þá urðu þær skammvinnar, því að síldin hvarf um miðjan janúar og var þá hætt við frekari tilraunir. Árið 1961 hélzt síldarvertíðin fram í febrúarlok, og má telja, að þetta ár hafi hin raunverulega vetrarsíldveiði hafizt hér við Suðvesturland. Eftir stutt hlé á síldveiðum í marz 1961 hófst svo vorsíldarvertíðin, sem stóð fram undir sumarvertíðina á Norður- og Austurlandi. Sennilega í fyrsta sinn í sögu síldveiðanna hér við land munu nokkrir bátar hafa það ár eingöngu stundað síldveiðar með herpinót allt árið og ekki hreyft önnur veiðarfæri og það sumir allt til þessa dags. Á árinu 1961 eru því mörkuð mikil tímamót í sögu íslenzkra síldveiða.

Notkun fullkomnari veiðitækja og upphaf vetrarsíldveiða sem og góð sumarvertið gerði það að verkum, að meira síldarmagn barst á land árið 1961 en dæmi eru til í sögu síldveiðanna hér við land. Á s.l. haustsíldarvertið hér við Suðvesturland höfðu borizt á land í aðalverstöðvunum, þ.e. Vestmannaeyjum, Keflavík, Sandgerði, Grindavík, Hafnarfirði, Reykjavík og Akranesi, samtals rúmar 700 þús. tunnur síldar hinn 31. des. 1961, en um miðjan síðasta mánuð var síldaraflinn orðinn rúmar 890 þús. tunnur í þessum verstöðvum. Af þessum afla munu hafa farið í bræðslu tæp 300 þús. mál. Aukning síldaraflans frá áramótum og fram til 15. febr. s.l. nam því rúmum 190 þús. tunnum. Af öllum þessum afla við Suðvesturland í haust og vetur bárust rúmar 260 þús. tunnur á land á verstöðvunum á Reykjanesskaga eða tæp 30% af heildaraflanum.

Eins og ég hef skýrt frá, hefur síldaraflinn á haust- og vetrarvertíð orðið geysimikill, og segir það sig sjálft, að þær síldarverksmiðjur, sem fyrir eru hér við Faxaflóann og annars staðar á Suðvesturlandi, höfðu engan veginn skilyrði til þess að taka á móti til úrvinnslu og geymslu því magni, sem barst að landi. Verksmiðjurnar vantar allar meira og minna aukið geymslurými og fleiri tæki til að vinna úr síldinni, svo sem sjóðara, pressur, skilvindur og annað þess háttar. Síldarverksmiðjan í Keflavík afkastar 1500 málum á sólarhring, en þyrfti að auka þau í 4000—5000 mál, og þyrfti hún einnig að auka geymslurými sitt úr 25 þús. og í 80 þús. mál. Afköst verksmiðjunnar í Hafnarfirði eru nú 1500 mál á sólarhring, en þyrfti að auka einnig í 4000-5000 mál og auka geymslurými sitt í 80—90 þús. mál. Afköst allra helztu verstöðva við Faxaflóa og að meðtöldum Vestmannaeyjum munu vera nú um eða lauslega yfir 12 þús. mál á sólarhring, en þyrftu að geta aukið afköst sin í 25—30 þús. mál, eftir því sem ég hef getað fengið upplýst í hinum ýmsum verstöðvum á þessu landssvæði. Á stærri verstöðvunum, svo sem í Keflavík, Grindavík, Hafnarfirði og Akranesi, þyrftu verksmiðjurnar að geta allt að því þrefaldað eða fjórfaldað geymslurými sitt eftir reynslu þeirra á s.1. haustvertíð. Í Sandgerði er nauðsynlegt, að komið verði upp síldarverksmiðju hið bráðasta, enda er sú verstöð ekki hin þýðingarminnsta af verstöðvunum við Faxaflóa og liggur vel við, er bátaflotinn kemur af miðunum.

Eins og mönnum er í fersku minni, kom það ósjaldan fyrir, að síldarverksmiðjurnar höfðu ekki undan og gátu ekki veitt móttöku þeim afla, sem á land barst. Urðu bátarnir annaðhvort að bíða dögum saman eftir löndun eða sigla á milli verstöðvanna í von um að geta losað afla sinn einhvers staðar. Olli þetta svo miklum erfiðleikum og töfum, að um tíma varð hluti síldarflotans að stöðva veiðar sínar um stundarsakir.

Auk þess, sem ég hef nú hér sagt, komu í ljós nú í haust og vetur ýmsir örðugleikar hjá síldarverksmiðjunum varðandi geymslu síldarinnar, sem stórlega hafa rýrt verðgildi framleiðslunnar og torveldað mjög vinnslu síldarinnar. Ýmis efni eða efnasambönd hafa verið notuð til geymslu síldarinnar og þá einna helzt nitrit og formalin. Reynslan er misjöfn af efnum þessum, en þó sennilega víðast góð að því leyti, að síldin geymist sæmilega í 4–6 vikur, en sá hængur er á, að hvort tveggja þessara efna er eitur og vandmeðfarið, og munu kaupendur ófúsir á að nota mjöl, þar sem þessi efni hafa verið notuð til geymslu síldarinnar. Það er því nauðsynlegt, að vísindaleg rannsókn fari fram á tegund og magni þeirra efna, sem nota beri við geymslu síldarinnar, svo að komið verði í veg fyrir, að skaðleg framleiðsla berist á markaðinn, en slíkt gæti haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Við flm. þessarar till,. teljum, að rannsóknarstofa Fiskifélags Íslands með hinum ágætu og reyndu starfsmönnum sínum hafi öll skilyrði til rannsókna og athugana í þessum efnum, og teljum því eðlilegt, að Fiskifélaginu verði falið þetta verkefni.

Okkar ágætu fiskifræðingar telja allar líkur vera fyrir því, að með hinum fullkomnu og stórtæku veiðitækjum verði nokkurn veginn öruggt áframhald á haust- og vetrarsíldveiðinni hér við Suðvesturland, og er það a.m.k. bjargföst trú allra útvegsmanna við Faxaflóa, að svo verði og að síld hafi alla tíð verið á þessum slóðum frá fornu fari, en veiðitæknin hafi ekki verið fyrir hendi fyrr en nú. Það er ekki nokkur vafi á því, að vegna ónógra afkasta síldarverksmiðjanna hér við Suðvesturland og ófullnægjandi geymslurýmis rýrnaði verðgildi síldarframleiðslunnar á s.l. hausti að miklum mun og bakaði þjóðarbúinu í heild tjón, sem jafnvel getur skipt milljónum króna.

Það er því öllum ljóst, að nauðsyn ber til þess, að athugun fari fram til úrbóta því ástandi, sem nú ríkir hjá síldarverksmiðjum þeim, sem fyrir eru, og að sú athugun fari fram fyrir næstu haustvertíð, svo að þær geti orðið starfi sínu vaxnar. Það hefur sýnt sig, að mjög tilfinnanlegt var það, að engin síldarverksmiðja er staðsett í Sandgerði, en það er ein stærsta og þýðingarmesta verstöðin við Faxaflóa. Þeir fjölmörgu bátar, sem þaðan voru gerðir út á síldveiðar, urðu að leita á aðrar verstöðvar með afla sinn, sem ekki komst í salt, frysti eða til flökunar, og varð af því mikið tjón, þar sem síldarverksmiðjurnar létu sína heimabáta ganga fyrir með alla afgreiðslu, eins og oft vill verða. Er því nauðsynlegt, að síldarverksmiðja verði reist í Sandgerði svo fljótt sem unnt er og að greitt verði fyrir því af ríkisvaldi og lánastofnunum, svo sem frekast er unnt.

Í till. okkar flm. er aðeins gert ráð fyrir því, að athugun og síðan till. verði gerðar um það, á hvern hátt megi auka afköst og geymslurými þeirra verksmiðja, sem fyrir eru, þar eð við álítum, að sú leið væri ódýrust og fljótlegust til úrbóta. Hins vegar hefur sú hugmynd komið fram og verið hreyft í blöðum, að síldarverksmiðjur ríkisins byggðu fullkomna verksmiðju í Njarðvík, og gæti slík verksmiðja verið reist jafnframt sem hluti af hafnarmannvirkjunum þar, en sú höfn er í uppbyggingu og eign ríkissjóðs. Þessi hugmynd er þess verð, að henni sé veitt athygli. Það hagar svo til frá náttúrunnar hendi, að á milli hafnargarða þeirra, sem fyrir eru í Njarðvík, er mikil fjara á föstum grunni, sem annaðhvort verður að fylla upp eða það er hægt að hagnýta hana til byggingar á fullkominni síldarbræðslu, og mundu síldarskipin geta losað afla sinn á flóði beint í sjálfar síldarþrærnar. Síldarverksmiðjur ríkisins eru dreifðar um Norðurland og Austurland til hagnýtingar sumarsíldarinnar. Það væri því ekki óeðlilegt, þótt einnig yrðu athugaðir þeir möguleikar, hvort ekki sé rétt, að ein verksmiðja yrði og byggð í Njarðvík til hagnýtingar á haust- og vetrarsíldinni, enda má telja vist, að starfstími slíkrar verksmiðju mundi verða allt að því helmingi lengri en verksmiðjanna á Norður- og Austurlandi, og ætti því rekstrarafkoma slíkrar verksmiðju að geta orðið mjög hagstæð. Þótt ekki sé bent á þessa leið í sjálfri till. okkar flm., vildi ég leggja áherzlu á það við hv. þn., sem fær hana til umsagnar og athugunar, að hún taki jafnframt fullt tillit til þessa möguleika til úrlausnar á vandamáli síldveiðanna við Suðvesturland.

Þótt keppt sé að sjálfsögðu að því, að sem mest af síldaraflanum verði unnið til manneldis og að í framtíðinni fari aðeins úrgangur, sem ekki er hægt að nota til slíks, í bræðslu, verður það ætíð svo mikið magn, sem þarf að fara í bræðsluna, að brýna nauðsyn ber til að auka afköst og geymslurými verksmiðjanna eða að öðrum kosti að byggja nýjar síldarverksmiðjur. Mér er kunnugt um, að eigendur síldarverksmiðjanna hér á Suðvesturlandi hafa fullan hug á að bæta úr þessari þörf, og hafa tveir þeirra nú nýlega farið til Noregs til að kynna sér möguleika á því, á hvern hátt þeir gætu stækkað og aukið sin afköst án mikils kostnaðar, og munu þeir eflaust koma fróðari heim en þeir fóru. En fram hjá því verður ekki gengið, að stækkun verksmiðjanna hefur mjög mikinn kostnað í för með sér, t.d. mun sjóðari og pressa kosta um 2 millj. kr. og nauðsynlegar skilvindur um 1 millj. og ofan á þetta bætast svo tollar, sem munu vera um 40 eða 45%. Stækkun verksmiðju úr 1500 mála afköstum á sólarhring í t.d. 4000 mála afköst mun láta nærri að kosti um 5—6 millj. kr. Er því nauðsynlegt, að verksmiðjunni sé á einhvern hátt séð fyrir lánsfé til þessara framkvæmda.

Þáltill. þessi hnígur að því, að fundnir verði möguleikar til þess, að meiri og betri nýting síldarinnar hér syðra fáist í framtíðinni, og treystum við flm. hæstv. ríkisstj. og Fiskifélagi Íslands til alls hins bezta í þessum efnum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en legg til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.