18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

1. mál, fjárlög 1962

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil, áður en ég kem að þeirri litlu till., sem ég flyt hér ásamt hv. 7. landsk., aðeins segja nokkur orð um afgreiðslu fjárlaganna. Mér finnst ég ekki komast hjá því, vegna þess að mér sýnist vera að verða svo mikil breyting á afgreiðslu fjárl. hér á Alþingi frá því, sem áður var, að það sé vart svipur hjá sjón, og ég held, að það sé rétt að aðvara hv. þm. um það, hvert stefnir með þeim háttum, sem nú virðast farnir að tíðkast viðvíkjandi afgreiðslu fjárlaganna. Hingað til hefur það verið svo, þó að nokkuð hafi því farið aftur, að umr. um fjárlög, sérstaklega 2. umr., stóðu venjulega a.m.k. í tvo daga, og oft voru það harðar umr., og það, sem alveg sérstaklega einkenndi þessar umr. og raunar allt starf fjvn., jafnt þess meiri hl., sem stjórn fylgdi, sem hins, það var, að það kom fram allmikil gagnrýni á hendur ríkisstj., líka frá þeim, sem henni fylgdu, þegar fjvn. skilaði af sér. Nál. fjvn., líka meiri hl., voru venjulega mjög ýtarleg plögg, venjulega upp á mjög margar síður, þar sem rakin var mjög afkoma ríkissjóðs og margt sagt til þess að finna að og benda á það, sem betur mætti fara. Og það gætti venjulega mjög mikils sjálfstæðis af hálfu fjvn. í meðferð á því fjárlagafrv., sem kom frá þeirri ríkisstj., sem meiri hl. fjvn. studdi. Og hvernig stóð á þessu? Það stóð þannig á þessu, að undirrótin í þessu öllu var, að öllum fjvn.-mönnum var ljóst, að það var fyrst og fremst og eitt höfuðatriði í öllu valdi Alþingis að halda þannig á fjárveitingavaldinu, að það væri aðhald að ríkisstj. Í allri þeirri baráttu, sem þingin hafa háð við konungsvald eða ríkisstjórnir áratugum eða öldum saman, hefur baráttan um fjárveitingavaldið verið svo að segja kjarninn, náttúrlega við hliðina á sjálfu löggjafarvaldinu, og það hefur verið höfuðatriðið í öllu því valdi, sem þingunum fylgir, að halda á þessu fjárveitingavaldi þannig, að gagnvart ríkisstj., jafnt þótt meiri hl. Alþingis sé fylgjandi þeirri ríkisstj., væri haldið þarna fast á. Ég verð að segja það, að mér brá þess vegna dálítið við, hvernig þessi afgreiðsla öll hefur farið fram nú. Ég minnist þess að hafa heyrt ræður af hálfu formanna fjvn. og frsm. meiri hl, stjórnarliðsins, sem voru jafnvel eins hörð gagnrýni á ríkisstj. og nokkuð það, sem stjórnarandstæðingar komu fram með, og ég held, að við megum ekki missa þessa aðstöðu. Alþingi þarf á því að halda, að líka sá meiri hluti, sem er fylgjandi einni ríkisstj., skoði það fyrst og fremst sem skyldu sína að standa á verði um vald þingsins gagnvart ríkisstj. Það hefur t.d. alltaf þótt á þingi jafnvel ósvinna, ef ráðherrar hafa farið að skipta sér af því eða tala um það, hvað þing kosti. Það var atriði, sem þá varðaði ekkert um. Og það er nauðsynlegt, ef á að reyna að halda virðingu og valdi Alþingis, að alveg sérstaklega fjvn. sem voldugustu og sterkustu nefnd þingsins sé alveg ljóst, hvað þarna er um að ræða. Fjvn. er ekki nefnd, sem á bara að taka á móti skilaboðum frá ríkisstj. og vera eins konar afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj. Fjvn. er sjálfstæðasta og voldugasta nefnd þingsins. sem á að halda á því valdi, sem þingum venjulega er dýrmætast. Og ef það gengur áfram í þessa átt, sem mér sýnist ganga hér núna hjá okkur, — og ég er ekki að segja það sérstaklega miklu meira um þessa ríkisstj. en aðrar ríkisstjórnir, það hefur alltaf verið að færast í þessa áttina meir og meir, — þá er sú þróun hættuleg okkar þingræði, þá lítillækkum við Alþingi smám saman niður í það að verða eins og hálfgerð afgreiðsluskrifstofa fyrir stjórnarráðið, og það var aldrei til þess ætlazt. Og mér sýnist það verða meir og meir svo í sambandi við afgreiðslu mála hér í sambandi við fjárlögin, að þingmenn séu bókstaflega að gefast upp á því, — og ég verð að segja það jafnt um sjálfan mig og aðra, — að vera að flytja tillögur í sambandi við fjárlögin. Jú, þeir menn, sem þræla í þessu, eins og minni hl. eða minni hlutarnir í fjvn., þeir reyna að gera skyldu sína og gera hana vel að mínu áliti. En mér sýnist, að meiri hl. þingmanna sé yfirleitt að gefast upp á því að flytja tillögur í sambandi við fjárlög. Og þetta er hættulegt atriði. Þetta er ekki atriði, sem bara hefur verið að gerast í tíð þessarar ríkisstj. Það er alllöng þróun, sem þarna liggur að baki, en það er hættuleg þróun. Og það er kominn tími til að stinga við fæti í þessum efnum. Ég man aldrei eftir því öll þessi 30 þing, sem ég hef setið, að það hafi verið eins fáar tillögur frá þm. og núna. Ég man aldrei eftir því. Það kann að vera misminni. En ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur, að við athugum okkar gang um þetta. Ég skal ekki segja meira viðvíkjandi því.

Ég flyt sjálfur ekki nema eina einustu till. við þessa umr. og flyt hana ásamt hv. 7. landsk. þm., og það er viðvíkjandi listamannalaunum, við 14. gr. B. 13. Hv. 6. þm. Sunnl., 2. minni hl. fjvn., flytur brtt. um að reikna þau 13.8% jafnt á listamannalaunin sem önnur laun, sem á fjárlögunum eru. Ég tel þá till. svo sjálfsagða, að ég trúi því bókstaflega ekki, fyrr en ég tek á, að það sé ekki vilji Alþingis, að listamenn verði sömu réttinda aðnjótandi, þeir sem listamannalaun hafa, og allir aðrir, sem laun taka. Ég veit eiginlega ekki, hvert er þá komið um mat Alþingis á listum og mat Alþingis á íslenzkri menningu, ef það er meiningin, að það eigi að hækka í hlutfalli við dýrtíð við alla aðra en þá, sem reyna að halda uppi íslenzkri menningu. Ég trúi því ekki. Ég álít það svo sjálfsagt, að orðið verði við slíku, að það sé ekki um það að ræða. En ég vil reyna, eins og ég hef gert hér á þingum nokkuð áður, hvort ekki er hægt að leiðrétta gamalt ranglæti í þessum efnum. Það er vitanlegt, að um hálfa öld hefur það þótt Alþingi til skammar, hvernig Alþ. t.d. kom fram gagnvart Þorsteini Erlingssyni á sínum tíma. Og það er enn þá eins óafmáanlegur smánarblettur á því þingi, sem þá sat, því fátæka Alþingi, sem þá var, hvernig menn höguðu sér þá. En þau laun, sem þóttu smánarlaun handa Þorsteini Erlingssyni áður, eru a.m.k. eins og tvöföld heiðurslaun þess, sem mest er veitt nú á fjárlögum, til helztu skálda á Íslandi. Svona hefur Alþingi sokkið niður í þessum efnum. Það ríka Ísland, sem nú er, gerir yfirleitt helmingi verr við sína menn í þessum efnum, við sín skáld, heldur en það fátæka Ísland, sem var fyrir 50 árum. Þess vegna vil ég nú vona, að þessi litla till., sem við flytjum um að reyna að koma þessu upp í 2 millj., sem nú er 1 millj. 260 þús., að sú till. yrði samþykkt við þessa umr.

Að öðru leyti mun ég fyrir mitt leyti, og ég býst við, að það gerum við fleiri af þm. Alþb., fresta okkar till. til 3. umr., þangað til við höfum séð, hvernig farið hefur um þær tillögur, sem 2. minni hl. fjvn., fulltrúi Alþb. í fjvn., hv. 6. þm. Sunnl., flytur.

En það eru tvö smáatriði, sem mig langaði til að minnast á.

Ég sé, að það er hækkað hér til menntaskólans í Reykjavík um eina millj. framlagið, og er það mjög lofsvert og mjög gott. Ég vildi leyfa mér í sambandi við það að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort ákvarðanir hafi verið teknar um að kaupa lóð í miðbænum undir menntaskólann. Ég vil taka það fram, að ég álít það mjög illa farið, að það skuli ekki þegar hafa verið lagt í byggingu á þeim stað, þar sem menntaskólanum var hugsaður staður, þ.e. í Öskjuhlíðinni. Þó að ég sé því að vísu mjög sammála, að það hafi þurft að endurskoða þá teikningu, sem gerð var hér um árið, því að það var miðað við allt of stóran skóla, þá er slæmt, að það skuli hafa dregizt svo lengi að nota það fé, sem árlega hefur verið veitt á fjárlögum til byggingar menntaskóla, þangað til það nú er orðið miklu minna virði en var, þegar það var lagt til hliðar. En af því að ég hef áður, fyrir alllöngu, rætt um málið viðvíkjandi menntaskólahúsinu, sem nú er, einmitt þegar hugmyndir voru í gangi um það, — ég man nú ekki, hvað langt er orðið síðan, það er líklega einn áratugur eða svo, — að fara að kaupa upp mikið af lóðum þarna í kring, þá vil ég taka það fram, að ég er mjög andvígur því, að það sé farið að kaupa upp dýrar lóðir í miðbænum fyrir menntaskólann. Við eigum nóg af lóðum, sem hægt er að láta í té fyrir byggingar eins og menntaskólann, sem rúmt er í kringum fyrir slíkar tilvonandi byggingar, án þess að fara að hrúga þessu niður hér í miðbænum. Og sérstaklega er mér illa við þetta vegna þess, að ég álít, að menntaskólahúsið eigi í fyrsta lagi að haldast í því formi, sem það nú er, og eins fljótt og við höfum komið upp menntaskólum í Reykjavík, þá eigi að taka það úr notkun sem menntaskóla og þá eigi að tengja það hús aftur við Alþingi eða við forsetadæmið og tryggja það hús og varðveizlu þess þannig, að það sé tengt því, sem það upphaflega helgaðist fyrst og fremst, sem sé því, að þar var aðsetur Alþingis og þar átti Jón Sigurðsson sæti allan þann tíma, sem hann sat á þingi. Þess vegna held ég, að það væri gott að fá það upplýst hér, hvernig um þetta er. Við vitum, að ríkisstofnanir hafa verið að gera mjög leiðar ráðstafanir í þessum efnum. Við vitum, að Seðlabankinn hefur verið að kaupa upp lóð hér við Lækjargötuna fyrir 10 millj. kr., og Seðlabankanum var hægt að hola niður hvar sem var, jafnvel fyrir innan Elliðaár, ef um það var að ræða. Það var engin sérstök þörf á að hafa hann á einhverjum stað, sem væri dýr, og gat verið gott fyrir hann að hafa gott útsýni, þar sem hann væri, ekki sízt yfir sundin. En það var engin þörf á að hafa hann í miðbiki bæjarins. Það er engin sérstök afgreiðslustofnun þar. Það er skiljanlegt, að viðskiptabankarnir þurfi að vera við þjóðbraut. En fyrir Seðlabankann, ef þeir vildu fara að taka upp á því, þeir sem þar ráða, að hugsa af einhverju viti, þá væri einmitt gott, að þeir væru einhvers staðar þar, sem þeir væru í friði. Og þess vegna væri það mjög óheppilegt, ef fleiri stofnanir færu að sigla í það kjölfar að vera að kaupa upp lóðir fyrir ríkisfé, þar sem þær eru dýrastar og þar sem engin þörf er fyrir ríkið á því að eyða fé í lóðakaup.

Svo hafði ég skrifað fjvn. lítið erindi viðvíkjandi tveim málum, sem hvorugt er stórmál. Ég mun nú ekki flytja brtt. út af því við þessa umr., kannske athuga það undir 3. umr., en vildi mælast til þess, að hv. fjvn. athugaði þau erindi. Þau munu hafa komið allseint, þannig að það er ekki von á því, að hún hafi getað athugað þau enn. Hún fékk það, þegar tilkynnt var hér, að búizt væri við erindum frá þm., en það mun fyrst og fremst hafa verið ætlazt til, að þm. sendu þá inn erindi viðvíkjandi vegum og öðru slíku.

Annað erindið var um, að það yrði veittur tveim Grænlendingum styrkur til náms hér á Íslandi, öðrum til háskólanáms og hinum til náms við búnaðarskóla. Fyrir nokkrum árum gerðist það, að við veittum Færeyingum slíkan styrk, sem hefur verið síðan og ég býst við að sé að einhverju leyti þegar notaður. Það er satt að segja ekki vansalaust, hve lítið við Íslendingar gerum fyrir þær tvær þjóðir, sem eru okkar næstu nágrannar og eru raunverulega okkar náungar, — þær tvær þjóðir, sem báðar eru minni en við og báðar eiga að nokkru leyti enn að búa við kjör, sem við höfum átt við að búa áður. Við höfum orðið varir við það einmitt, þegar Íslendingar hafa fengið nokkurt tækifæri til þess að ferðast til Grænlands nú, þótt stutt hafi verið, að menn verða þess sama varir hjá Grænlendingunum, og á ég þar með fyrst og fremst við Eskimóana, eins og við höfum orðið hjá Færeyingum, að þeir líta með nokkru trausti til Íslendinga. Og einmitt þau lífskjör, sem hafa markað þá þjóð, máske markað hana einmitt að sumu leyti þannig, að þeir eiga betra með að skilja okkur og við þá, af því að við búum á svipuðum slóðum, hafa gert það að verkum, að þeir geta áreiðanlega ýmislegt til okkar sótt. Strax og Grænlendingar fara eitthvað að kynna sér sina eigin sögu og líta á sitt þjóðfélag og þá baráttu upp á líf og dauða, sem það heyir nú við danska kúgun, þá skilja þeir tiltölulega fljótt, að Íslendingar eru þjóð, sem hefur háð samsvarandi baráttu. Og það er ekki vansalaust, að Grænlendingar skuli eingöngu verða að sækja sína menntun til Danmerkur. Það er rétt af okkur að gefa þeim tækifæri til þess að geta sótt hana hingað, alveg eins og við reynum að gera gagnvart útlendingum, sem eru miklu fjær okkur. Og það er ekkert stórt framlag, sem við þurfum til þess, nokkra tugi þúsunda á ári, til þess að geta haldið hér uppi grænlenzkum námsmanni við Háskóla Íslands. Satt að segja hefði mér ekki fundizt það ofrausn, en ég mun ekki gera tillögur um það, í sambandi við það mál, sem liggur fyrir Nd. um handritastofnun og annað slíkt, — mér hefði ekki fundizt það neitt of mikið, þó að hér á Íslandi hefði verið dósent annars vegar í færeysku og færeyskum bókmenntum og færeyskri sögu og hins vegar í grænlenzkri tungu og grænlenzkri sögu, og kannske þá um leið í öllu því, sem snertir viðskipti okkar Íslendinga við íbúa Grænlands og Norður-Ameríku á undanförnum öldum. Það er ekki vansalaust það tómlæti, sem við sýnum í þeim efnum. Þess vegna álít ég, að það hefði verið vel farið að veita þarna nokkurn styrk, til þess að einn Grænlendingur gæti stundað hér háskólanám.

Í öðru lagi höfum við orðið varir við það hvað landbúnað snertir og það jafnvel einmitt þá þætti í þeim frumstæða landbúnaði, sem við meira og meira erum að leggja niður, að Grænlendingar hafa haft not af því að kynna sér meira að segja þá þætti landbúnaðarins, sem eru að hverfa hjá okkur, og ég held, að það væri ákaflega heppilegt, að einmitt Grænlendingi væri gefið tækifæri til þess að geta verið hér við búnaðarskóla hjá okkur og að einhverju leyti kynnt sér íslenzkan landbúnað, kannske ekki endilega eins og hann er rekinn á búnaðarskólunum, en eins og hann er rekinn sums staðar í afdölum hjá okkur. Við gætum máske með slíku móti hjálpað þeim. Við höfum haft nokkur skipti við þá hvað snertir kvikfénaðinn, og það er engum efa bundið, að það væri rétt af okkur að reyna að vita, hvort við gætum ekki að einhverju leyti orðið þeim að liði. Ég vildi mjög mælast til þess, að hv. fjvn. athugaði þessi erindi undir 3. umr., hvort ekki mætti að einhverju leyti verða við þeim. Þá hafði ég sent annað erindi. Það var viðvíkjandi Viðey, framlag til viðgerðar á gamla húsinu í Viðey. Ég flutti till. um það fyrir einum átta árum, held ég, að það yrðu lagðar fram um 100 þús. kr. til þess að gera við það hús. Mér finnst það ekki vansalaust, á sama tíma sem við þó höfum gert mjög myndarlega við húsið á Bessastöðum, um leið og við gerðum það að forsetabústað, að það hús, sem er jafngamalt eða hér um bil, bústaður Skúla Magnússonar, sem er ein af þeim alfáu höllum, sem við eigum á Íslandi, skuli vera að drabbast niður eins og þar á sér stað. Ég sá það mér til ánægju, að einmitt mörg blöð Reykjavíkur og duglegir blaðamenn hafa í sumar tekið það mjög til bæna, hvernig þar er að farið. Við getum ekki látið fara svona að. Á sama tíma sem við erum sjálfir að segja, að við séum svo að segja útvalda þjóðin til þess að geyma það, sem gamalt sé, handritin og annað slíkt, og að hvergi sé slíkum hlutum betur fyrir komið en hjá okkur, þá erum við að láta drabbast niður hjá okkur þessar alfáu hallir, sem reistar voru í landinu, á sama tíma sem við í okkar skáldverkum erum að kvarta yfir því, að allar þær hallir, sem byggðar hafa verið fyrir íslenzkan svita, hafi verið byggðar niðri í Kaupmannahöfn. En það lítið af þeim, sem við höfum fengið hingað. Þeim sýnum við þó ekki meiri sóma en þetta. Ég vil segja það um leið, — en það heyrir undir annað, að mér finnst við vera furðu frakkir í því að rífa niður það lítið af gömlum húsum, sem við eigum frá 19. öldinni. Hver maður, sem kemur í stórborg erlendis, finnur þar venjulega einhvern hluta, sem honum finnst rómantískur og fallegur. Það er það, sem er eldgamalt úr stórborginni og þessum mönnum þótti kannske ákaflega fátæklegt fyrir svo og svo mörgum áratugum. En ég býst við, að flestar þær stórborgir heimsins, sem eitthvað hugsa um sína menningu þannig, geri alveg sérstakar ráðstafanir til þess að viðhalda meira að segja slíkum byggingum. Viss hluti af þeim er rifinn niður, en viss hluta er gætt, þannig að hann haldi áfram að vera til. Það er eins og Vesturgatan hér hjá okkur, sem er ein af þeim fáu götum, sem helzt lítt breytt enn þá. Sannleikurinn er, að við eigum ekki bara að láta taka húsin, sem hafa einhverjar sögulegar minjar, og flytja þau upp á Árbæjarsafn. Við eigum að reyna að láta þessi hús haldast, þar sem þau eru, og göturnar eins og þær eru. Og þeim, sem á eftir okkur koma, mun einhvern tíma þykja það eitt það fallegasta, sem þeir sjá, hversu ríkulega sem byggt hefur verið og hversu flott sem byggt hefur verið, þau gömlu hús, sem kunna enn þá að vera til. Ég er ekki með neina till. um það í þessu sambandi, en kem kannske með það í öðru.

Ég vildi aðeins segja þetta út frá því, að ég álit, að þetta viðvíkjandi Viðeyjarhúsinu ætti fjvn. að athuga. Ef ég man rétt, var Viðey boðin til kaups Reykjavíkurbæ fyrir alllöngu fyrir 80 þús., og þótti þá ekki fært að kaupa. Ég hef heyrt, að til allrar hamingju sé verið að tala um að fara kannske að kaupa þar núna, vafalaust fyrir nokkrar millj., en það hefði verið gert betur fyrr. En eitt finnst mér þó, að við eigum að reyna að sjá um, að ekki verði húsin alveg hrunin, sem Skúli Magnússon byggði, áður en ríki eða bær væru búin að taka ákvarðanir um að kaupa þessa ey eða a.m.k. þessi hús.

Ég vil þess vegna vona, að hv. fjvn. athugi þessar litlu tillögur og fleiri, sem fram yrðu þá lagðar við 3. umr., og taki máske ofur lítið meira tillit en hún hefur gert núna til þess, að það er ekki aðeins ríkisstj., sem á að ráða afgreiðslu fjárlaganna, heldur Alþingi sjálft.