04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

151. mál, þyrilvængjur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég stend ekki hér upp til þess að andmæla því, að þessi till. fái þinglega meðferð og málinu sé sýnd full samúð, heldur til þess að skýra frá nokkrum atriðum í sambandi við flugmál á Vestfjörðum, en það kom fram í ræðu hv. fim. og kemur fram einnig í grg., að þan sé mjög vafasamt, hvort ekki þurfi að bíða enn í mörg ár, að flugvellir verði fullgerðir á Patreksfirði, Bíldudal og Önundarfirði, en þá fyrst verði flugsamgöngur Vestfjarða aftur komnar í svipað horf og áður hefur verið. Út af þessu vil ég taka fram, að hæstv. samgmrh. skipaði á s.1. sumri nefnd manna til að athuga þessi mál. Nefndin hefur starfað að þessum málum. Í henni eru m.a. flugmálastjóri, formaður, Björn Pálsson flugmaður, sem hefur haft þjónustu hér um sjúkraflug um alla staði landsins, og svo ég sem kunnugur staðháttum á Vestfjörðum, en auk þess hefur verið haft fullt samráð við Flugfélag Íslands. Bæði Örn Johnson og Haukur Claessen hafa verið með í að rannsaka þessi mál og ræða þau, og í sambandi við þær umr. kom mjög til athugunar að gera kaup á slíkum þyrlum eins og hér er lagt til, að keyptar verði til landhelgisgæzlunnar, og sameina þær við flugsamgöngur á Vestfjörðum. En allar upplýsingar, sem við fengum um það mál, frá flugmálastjóra og öðrum aðilum, sem flestir trúa til að hafa dýpsta þekkingu á tæknilegu atriðunum, miða í þá átt að þetta væri engan veginn heppilegasta lausnin til farþegaflutninga á milli Vestfjarða og annarra staða á landinu. Þetta kostaði bæði miklu meira fé í rekstri og er auk þess engan vegimi jafnöruggt og aðrar flugvélar. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort það er rétt. Ég vil aðeins skýra frá því, sem fram kom í nefndinni. Nefndin hefur því horfið frá að leggja til, að keyptar yrðu þyrilflugvélar til þeirra hluta. Hins vegar var samkomulag um það við Flugfélag Íslands, að Flugfélagið skyldi kaupa litla flugvél, sem gæti tekið allt að 6 farþega, og hefja aftur flug á Vestfjörðum. Og það hefur verið yfirlýst af hæstv. samgmrh., að nú á n.k. sumri verði hafizt handa um að byggja flugvöllinn á Patreksfirði, væntanlega verði hann kominn svo langt á þessu ári, að það sé hægt að hefja þangað flugferðir. Verið er að undirbúa að gera nægilega stóra flugvelli á öðrum þeim stöðum á Vestfjörðum, sem við höfum rætt um, til þess að taka megi þar upp aftur flugsamgöngur á svipaðan hátt og áður, með þeirri flugvél, sem Flugfélag Íslands hefur þegar fest kaup á og ætlar sér að taka í notkun á komandi sumri.

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram í sambandi við þær umr., sem fallið hafa hér um flugsamgöngur á Vestfjörðum. Ég ræði hins vegar ekkert það atriði, sem snertir landhelgisgæzluna, það verður gert í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, og að sjálfsögðu tekur sú n. þá einnig upp athugun á því, hvort heppilegra sé að hverfa að því ráði að þjóna Vestfjörðunum með þyrilflugvélum og breyta þannig áliti flugmálastjóra á þessu máli, og kemur það þá fram, þegar það mál hefur verið afgreitt.