04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

151. mál, þyrilvængjur

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er nokkuð síðan ég og aðrir Vestfjarðaþingmenn fengu vitneskju um starf þeirrar n., sem hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) skýrði nú frá og að hans frásögn gaf nokkrar vonir um það, að Flugfélag Íslands mundi e.t.v. kaupa litla flugvél og hefja með henni áætlunarflug á nokkra staði á Vestfjörðum. Vegna þess átti ég svo samtal við forstjóra Flugfélags Íslands, Örn Johnson. Síðan ég átti það viðtal, er sennilega liðið hátt á annan mánuð, en þá sagði hann mér, að hans félag hefði engar skuldbindingar á sig tekið til að hefja slíkt flug á Vestfirði á næsta sumri. Til þess að hann geti gert það, yrði að fullnægja ýmsum atriðum. Það er í fyrsta lagi að ganga örugglega frá flugbrautum á þeim stöðum, er áætlunarflugið ætti að beinast að, og það hefði ekki verið gert enn og væri fjarri því að fullnægja öryggisskilyrðum. Í annan stað hefði það komið í ljós, að á þeirri vél, sem hans félag hefði haft áform um að kaupa til þessa hlutverks, væru heimtaðir tveir flugmenn, en hann fullyrti, að algerlega væri útilokað, að nokkur fjárhagslegur grundvöllur væri fyrir rekstri slíkrar flugvélar, ef ekki yrði veitt undanþága frá þessu öryggisákvæði um tvo flugmenn. Af þessum svörum forstjórans þóttist ég skilja, að vandkvæði væru mikil á því, að Flugfélag Íslands tæki upp flug á Vestfirði á næstunni, það yrði a.m.k. að víkja frá þessu skilyrði um tvo flugmenn og enn fremur að búið væri að endurbæta flugbrautirnar á þeim stöðum, er hans félag ætti að hefja flug til.

Nú hefur hvorugt gerzt, svo að ég viti. En það væri ánægjulegt að heyra það, að búið væri að ganga frá endanlegum samningum um þetta, og fá þá vitneskju um það, að örugglega gæti hafizt flug til t.d. Patreksfjarðar, Bíldudals og annarra staða á Vestfjörðum, sem áður hafa notið flugsamgangna við Reykjavík, meðan sjóflugvélarnar önnuðust flug þangað.

Að sjálfsögðu má, eins og ég tók fram áðan, með ekki mjög miklum tilkostnaði fullkomna flugbrautirnar í Dýrafirði, við Þingeyri, og við Hólmavík, og ætti það e.t.v. að geta verið tilbúið fyrir sumarið eða fyrri hluta vors. En þó að svo færi, að þetta gengi allt að óskum, þá sé ég ekki annað en alveg standi opið það svið, sem till. nær til, sem sé að gerðar séu ráðstafanir til, að keyptar verði þyrilvængjur, sem aðstoði varðskip okkar við landhelgisgæzluna. Vitað er, að þær verða að hafa bækistöð á landi, og þær virðist mér einsætt, að það sé praktískast, að þær hafi aðsetur í þeim landshlutum, sem verst eru settir með samgöngur, og það eru tvímælalaust Vestfirðirnir og Austfirðirnir. Tíminn, sem þessar þyrilvængjur eru í landi og ekki í beinni þjónustu landhelgisgæzlunnar, þeir dagar eru margir, og væri þá vitanlega sjálfsagt að nota þær að nokkru í þjónustu fólksins á hinum afskekktustu stöðum, sem fengi ekki þjónustu frá öðrum flugvélum, hvorki að því er snertir sjúkraflug, póstflug eða starfsemi gagnvart annarri flugþjónustu veittri þessum landshlutum.

Það var líka auðheyrt á ræðu hv. 1. þm. Vestf., að hann vildi á engan hátt leggja stein í götu þessarar till., en aðeins koma á framfæri upplýsingum, sem hann taldi sig geta gefið þingheimi um vonir í nokkuð auknu farþegaflugi til Vestfjarða, e.t.v. einnig eitthvað til Austfjarða á vegum Flugfélags Íslands, ef þær torfærur, sem forstjórinn fyrir skömmu taldi á því, að hann gæti tekizt slíkan vanda á hendur fyrir sitt félag, eru þá ekki lengur í vegi.