18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

1. mál, fjárlög 1962

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara með nokkrum orðum þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Reykv. (EOl) beindi til mín varðandi byggingarmál menntaskólans í Reykjavík í tilefni af því, að ríkisstj. hefur lagt til, að framlag til byggingar hans verði á fjárlögum næsta árs tvöfaldað eða aukið úr 1 millj. í 2. Þótti mér vænt um að heyra, að hann fagnaði þeirri ákvörðun, og vænti þess, að það boði nokkrar framkvæmdir í byggingarmálum þessa elzta starfandi skóla á Íslandi. Ég skal í fáeinum orðum segja frá því, sem í þeim málum hefur verið að gerast undanfarið.

Nemendur í menntaskólanum eru nú um 750. Hann hefur vaxið hröðum skrefum og mun án efa vaxa enn á næstu árum. Hann hefur fyrir löngu sprengt utan af sér það húsnæði, þar sem hann hefur nú verið um langan aldur eða í meira en öld. Og það er í raun og veru langt frá því að vera vansalaust, að jafnlengi skuli hafa dregizt og raun ber vitni að gera verulegar endurbætur á skilyrðum menntaskólakennslu hér í Reykjavík. En ástæðan til þess, hversu lengi það hefur dregizt, er, eins og væntanlega öllum hv. þm. er kunnugt, að þegar alvarlega kom til greina að gera átak í því máli, þ.e.a.s. bæta skilyrði menntaskólakennslu í Reykjavík, þá hófst um það mjög mikil og hatrömm deila, með hverjum hætti það skyldi gert.

Það eru nú þegar um 20 ár síðan á því var brýn þörf að bæta skilyrði menntaskólakennslunnar og málið kom til kasta Alþingis. En einmitt um leið og málið komst á dagskrá, kom upp deila um það, hvernig ráða skyldi fram úr málinu, og sú deila hefur orðið þess valdandi, að allt til þessa dags hefur ekkert verið aðhafzt í málinu. Í fáum orðum má segja, að það, sem deilan stóð um, var, hvort byggja skyldi frambúðarhúsnæði fyrir menntaskólakennsluna í Reykjavík, á þeim stað, sem nú er menntaskóli og menntaskóli hefur verið í meira en 100 ár, eða hvort flytja skyldi menntaskólann frá þessum sögufræga stað á annan stað, og hafa þar margir staðir komið til greina í ýmsum hverfum bæjarins, í Laugarnesi, Skerjafirði og Hlíðum. En aldrei náðist samkomulag um það, hvernig með málið skyldi fara. Aldrei var í ríkisstj. tekin um það endanleg ákvörðun, hvað gera skyldi, sökum þess að forvígismenn, rektor og kennarar menntaskólans og fjölmargir þeir aðrir, sem létu sér umhugað um málefni skólans, skiptust í tvo mjög svo fjandsamlega hópa um það, hvernig á málinu skyldi tekið.

Þetta mál hefur nú undanfarið verið í athugun hjá ríkisstj. Og nú loks er svo komið, að meðal forvígismanna menntaskólans í Reykjavík, þ.e. með rektor og kennurum hans, hefur náðst alger samstaða við það sjónarmið, sem ég hef verið fylgjandi um það, hvernig heppilegast sé á málinu að taka, þannig að nú fyrir þrem dögum hefur kennarafundur í menntaskólanum í Reykjavík einróma gert ályktun um, hvaða stefnu sé heppilegast að fylgja í byggingarmálum menntaskólans. Og þó að ríkisstj. hafi ekki enn tekið formlega ákvörðun sína í málinu, þar sem svo skammt er liðið síðan mér bárust þessi skjöl í hendur, er ég þess fullviss, að ríkisstj. í heild mun fallast á þau sjónarmið, sem þar er um að ræða.

Ég skal nú gera í stuttu máli grein fyrir þeim áætlunum, sem uppi eru og gerðar hafa verið af hálfu húsameistara ríkisins og starfsmanna hans í samráði við menntmrn. og rektor og nokkra aðra kennara menntaskólans. Í gamla menntaskólahúsinu eru nú 10 kennslustofur, auk þess sem kennt er í svokölluðu Fjósi, þar sem eru tvær kennslustofur, og enn fremur er gamalt leikfimihús á menntaskólalóðinni, auk bókasafnsins Íþöku, sem nú er félagsheimili nemenda. Húsameistarar hafa gert teikningu að viðbyggingu við hið gamla menntaskólahús, sem reist skuli sumpart á menntaskólalóðinni, þeirri lóð, sem ríkið á nú, og sumpart á þeirri lóð, sem nú er í eign Olíufélagsins, í olíuportinu svonefnda, er liggur austur af menntaskólalóðinni, upp undir þær lóðir, sem einkahús standa á og liggja við Þingholtsstræti. En á þessari lóð, ef hún er tengd gömlu menntaskólalóðinni, mundi vel rúmast einnar hæðar bygging, þar sem verið geta sjö kennslustofur, þar af fjórar mjög stórar og rúmgóðar sérkennslustofur fyrir efnafræði, eðlisfræði, náttúrufræði og húmanistísk fræði. Gert er þá auðvitað ráð fyrir því, að Fjósið, sem nú stendur að baki gamla menntaskólahússins, verði rifið. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að leikfimihúsið, sem er orðið algerlega ónothæft, verði rifið og í tengslum við þessa einnar hæðar byggingu verði við Bókhlöðustíg ný bygging, sem verði hvort tveggja í senn nýtt leikfimihús og samkomusalur, en í kjallara hennar verði fatageymslur nemenda og snyrtiherbergi, þannig að sú eina kennslustofa, sem nú er notuð sem fatageymsla í gamla húsinu og er allsendis ófullnægjandi fyrir þá 750 nemendur, sem þar stunda nú nám, komi í gagnið sem ný kennslustofa. Þessi breyting mundi hafa í för með sér, að til viðbótar 11 kennslustofum í gamla húsinu komi 6 nýjar kennslustofur, þ.e. 8 nýjar stofur í bókstaflegri merkingu í nýja húsinu, en frá því verður að draga þær tvær, sem missast við það, að gamla Fjósið, sem í rauninni er fyrir löngu ónothæft sem kennsluhúsnæði, verður rifið, þannig að nettó bætast 6 kennslustofur við þær 11, sem fyrir eru, og um verður að ræða rúmlega 50% aukningu á kennslurými menntaskólans og þó í raun og veru miklu meira en 50% aukningu á kennslurýminu, því að af þessum 6 nýju stofum verða fjórar þess konar stofur, sem menntaskólann hefur í áratugi vanhagað um, þ.e. fullkomnar sérkennslustofur með rannsóknarstofum í efnafræði, eðlisfræði, náttúrufræði og húmanistískum fræðum. Leikfimisalurinn verður gerður eftir kröfum tímans og jafnframt útbúinn þannig, að hann verði hinn raunverulegi samkomusalur nemenda, þannig að ekki þurfi lengur að nota hinn sögufræga og helga sal, hátíðasal menntaskólans, sem almennan samkomusal og danssal nemenda. En í raun og veru hefði fyrir löngu átt að vera búið að taka fyrir það, að ein sögufrægasta stofa á Íslandi, einn mesti sögustaður, sem Íslendingar eiga, þar sem er hátíðasalur menntaskólans, þar sem Alþingi var háð um áratugi og þar sem Jón Sigurðsson starfaði, að sá salur væri notaður til skemmtisamkvæma fyrir unglinga. Þegar þessi breyting hefur komizt til framkvæmda, mun verða hægt að taka fyrir það.

Þegar þessi breyting verður komin til framkvæmda, mun menntaskólinn geta hýst um 1000 nemendur, miðað við það, að tvísett verði í skólastofur hans flestar, og það má gera ráð fyrir því, að það húsnæði muni duga fyrir menntaskólakennslu hér í Reykjavík um nokkur ár, um 5 ár fram í tímann a.m.k. þessi tegund af framkvæmdum felur það í sér, að ekki verður byggt stórt frambúðarhúsnæði fyrir menntaskóla á menntaskólalóðinni við Lækjargötu. Byggingar þær, sem fyrirhugaðar eru samkvæmt teikningum húsameistara, sem fyrir liggja, eru í raun og veru bráðabirgðabyggingar, sem eru til þess ætlaðar að vera nothæfar um það bil jafnlengi og gera má ráð fyrir að gamla menntaskólahúsið verði nothæft, þannig að þegar gamla menntaskólahúsið yrði tekið úr notkun sem skólahúsnæði fyrir menntaskóla, sé líka hægt með litlum kostnaði að hætta að nota þessar viðbyggingar sem kennsluhúsnæði, og þá mætti taka um það ákvörðun, hvað við menntaskólahúsið gamla yrði gert, hvort það yrði notað sem safn, hvort það yrði flutt burt eða því fyrirhuguð einhver enn önnur örlög.

Þær ráðstafanir, sem samkvæmt þessum áætlunum eru fyrirhugaðar á menntaskólalóðinni, er gert ráð fyrir að muni kosta 9–10 millj. kr. Byggingarframkvæmdirnar munu kosta milli 9 og 10 millj. kr. Eftir er að semja um kaup á olíuportinu svonefnda við Olíufélagið, en gera má ráð fyrir því, að sú lóð kosti í hæsta lagi 2 millj. kr. Þessar framkvæmdir, sem því eru fyrirhugaðar á menntaskólalóðinni og olíuportslóðinni á næsta sumri, munu því kosta um 10–11 millj. kr. Í byggingarsjóði menntaskólans eru nú um 7–8 millj, kr., svo að það fjárframlag, sem nú kemur til viðbótar í sjóðinn á fjárlögum næsta árs, mun fara mjög langt í það að duga fyrir þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru. Slíkar einnar hæðar byggingar, eins og hér er um að ræða og ekki er ætlað að vera til algerrar frambúðar, eru ekki vandbyggðari en svo, að húsameistarar hafa fullvissað um, að hægt sé að ljúka þessum framkvæmdum á einu sumri, — ef undirbúningur er hafinn nógu snemma vors eða seint vetrar, þá sé hægt að hafa allar þessar byggingar til næsta haust, og má þá hiklaust telja, að vel sé séð fyrir húsnæðisþörf menntaskólans a.m.k. næstu 4–5 ár, auk þess, sem ég tel enn þá meira virði, að loksins er þá gert fyrir menntaskólann það, sem hann hefur átt skilið í áratugi, að honum verða þá búin nýtízku skilyrði til þess að annast þá mikilvægu fræðslu, sem þar fer fram. En það má í rauninni teljast furðulegt, hversu vel menntaskólanum hefur tekizt að inna af hendi hlutverk sitt, miðað við þær aðstæður, sem þar hafa ríkt um marga áratugi, og er þess að vænta, að þeir ágætu menn, sem þar starfa, muni starfa með enn meiri ánægju og með enn meiri árangri, eftir að þannig hefur verið að þeim búið, sem nú standa vonir til að gert verði á næsta sumri.

Hitt er svo annað mál, að það er ekki nægilegt að taka þá ákvörðun, sem ég hef nú verið að lýsa, að gera hinn gamla, sögufræga skólastað við Lækjartorg að aðsetursstað þúsund manna skóla til bráðabirgða, miðað við tvísetningu, en 500–700 manna skóla, miðað við minni og hóflegri notkun húsnæðisins. Það er ekki nægilegt að taka þá ákvörðun, sem ég hef nú hér verið að lýsa, þó að hún leysi vanda menntaskólafræðslunnar í Reykjavík í næstu 4–5 ár a.m.k. Jafnframt þarf að taka ákvörðun um að stofna annan menntaskóla í Reykjavík. Að því var gerður undirbúningur á sínum tíma með því að tryggja öðrum menntaskóla í Reykjavík lóð í Hliðunum og hefja þar gröft grunns. Jafnframt þessari ákvörðun er nú nauðsynlegt að taka ákvörðun um það að hefja undirbúning að byggingu annars menntaskóla í Reykjavik. Það tekur nokkur ár að undirbúa slíka stórbyggingu, sem þar verður um að ræða. En það er um að gera að taka þá ákvörðun strax, þannig að bygging geti hafizt eftir svo sem 2–3 ár. Það má gera ráð fyrir, að hún taki nokkur ár, 3–4 ár, en það er þannig, að hún ætti að geta verið komin í gagnið eftir 6–8 ár. En þá má telja tvímælalaust, að þörf verði fyrir annan menntaskóla í Reykjavík. Ég tel, að þá teikningu, sem á sínum tíma var umræðuefni og hið mikla deiluefni, eigi að endurskoða, og það er raunar nú verið að gera. Sú teikning gerði ráð fyrir 21 almennri kennslustofu og 6 eða 7 sérkennslustofum, þ.e. 26–27 kennslustofa skóla. Sá skóli er af ýmsum talinn, einkum á allra síðustu árum, óþarflega og óheppilega stór, og sú endurskoðun, sem nú fer fram á þeirri teikningu, er við það miðuð, að kennslustofum verði þar nokkuð fækkað frá því, sem upphaflega var áætlað. En með því að gera hvort tveggja, að framkvæma þær byggingar á gömlu menntaskólalóðinni, sem ég nú lýsti, og taka jafnframt ákvörðun um að hefja strax undirbúning að byggingu annars menntaskóla í Reykjavík, sem síðan væri hægt að byrja að byggja eftir nokkur ár, væri séð til frambúðar fyrir þörfum hinnar mjög svo mikilvægu menntaskólafræðslu hér í höfuðstaðnum.

Um þessar meginlínur, sem ég nú hef lýst, eru rektor menntaskólans í Reykjavík og allir kennarar menntaskólans í Reykjavík á einu máli, sbr. þá ályktun, sem ég gat um áðan. Og nú, þegar slík eining hefur loksins skapazt um það, hverja stefnu skuli marka til frambúðar í byggingarmálum menntaskólafræðslunnar í Reykjavík, er enginn vafi á því, að endanleg ákvörðun verður tekin innan skamms um þetta efni, þannig að brautin verður fast mörkuð.

Ríkisstj. hefur þegar ákveðið að gera vissar framkvæmdir á gömlu menntaskólalóðinni á næsta sumri, svo sem m.a. kemur fram í till. ríkisstj. um að tvöfalda framlagið í byggingarsjóð menntaskólans, og ég efast ekki um, að hún mun á næstunni, þegar hún fær lagðar fyrir sig þessar nýgerðu heildaráætlanir, sem frá menntaskólanum munu koma, taka endanlega ákvörðun, sem markar framtíðarstefnuna í byggingarmálum menntaskólafræðslunnar í Reykjavík.