04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3500)

151. mál, þyrilvængjur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan í sambandi við viðtal, sem hann hafði átt við forstjóra Flugfélags Íslands. Það vill nú svo til, að ég hef einnig átt viðtal við þennan sama forstjóra, og n., sem áðan var vitnað til, talaði einnig við hann.

Vitanlega liggur engin skuldbinding á herðum Flugfélagsins að hefja flug á Vestfirði, fyrr m lendingarskilyrði eru þar svo góð, að það sé forsvaranlegt. Og við vitum, hvers vegna þetta er svo á Vestfjörðum, að lendingarskilyrði eru þar ekki nógu víða eða nógu góð. Það er út af því, að alveg fram að þessu hefur sjóflugvélin haldið uppi samgöngum við þennan landshluta, og undanfarið hefur þess vegna ekki verið hugsað unt það að byggja flugvelli á hinum ýmsum stöðum þar. Þó er það svo, að á Þingeyri er mjög sæmilegur völlur, og það liggur við, að Dakotavél geti lent þar. Það er ekki mikið, sem þarf að lengja þann völl. En sá völlur væri ágætur fyrir tveggja hreyfla flugvél, er gæti tekið 8 farþega. Á Patreksfirði aftur á móti er ekkert nema eyrin til að lenda á, og mér hefur skilizt á málsvörum Vestfirðinga, að þeir telji ástæðu til að leggja megináherzlu á það, að það verði hafizt handa og að það verði reynt að ljúka gerð flugvallar á Patreksfirði í sumar, sem væri nægilega stór og góður fyrir þessa flugvél sem Flugfélagið hyggst festa kaup á.

Það liggur í augum uppi, að það verður ekki allt gert í einu. Það verða ekki byggðir margir flugvellir á Vestfjörðum á næsta sumri. En aðalatriðið er vitanlega, að það verði byrjað og það verði lokið við það, sem byrjað er á, svo að það komi að gagni. Það er vitanlega stór bót í máli, ef það gæti orðið á þessu sumri og seinni part næsta sumars fært að lenda á Patreksfirði. Þingeyri og Hólmavík, það er ekki mikið, sem þarf að gera þar til að gera líka fært, jafnvel þótt svo Bíldudalur þyrfti að bíða til næsta árs og Önundarfjörður. Þetta eru mál, sem þarf vitanlega að sinna, því að það er alveg gerbreyting, frá því, sem var, og spor aftur á bak. Vestfirðingar hafa haft flugsamgöngur með sjóflugvélinni, og það er ekki eðlilegt, að þeir sætti sig við það, að það verði nú af þeim tekið, af því að ekki er lengur unnt að gera sjóflugvélina út.

Hitt er svo alveg rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. talaði um hér áðan, að athugun manna, sem hafa sérþekkingu á flugmálum, hefur leitt í ljós, að þyrilvængjur eru ekki heppilegar til farþegaflugs, til þess að halda uppi áætlunarflugi. Þyrilvængjur eru mjög heppilegar til að grípa til, þegar slys ber að höndum, og jafnvel við landhelgisgæzlu. Ég ætla mér þess vegna ekki að mæla gegn þeirri till., sem hér um ræðir og hv. 4. landsk. hefur flutt. Það er áreiðanlega þess virði að athuga það mál. En samgöngumálin verða tæplega leyst á milli þessara fjarlægu staða í landi okkar með því að hefja áætlunarflug með þyrilvængjum. Það verður gert með því að kaupa hentugar vélar, sem geta lent á flugbrautum, sem eru ekki mjög langar.

Um það, að það liggi krafa fyrir um, að það verði tveir flugmenn á þessari vél, það hefur heyrzt, en að það sé ófrávíkjanleg krafa, það skal ég nú ekkert um segja. Ég býst við, að það mál verði athugað, þegar að því kemur, af fullu raunsæi, en um það skal ég ekki dæma. En ég veit um vilja forstjóra Flugfélags Íslands og þá væntanlega stjórnar Flugfélags Íslands á því, að þeim er alveg ljóst, að það hvílir á þeim nokkur skylda gagnvart hinum rýrari flugleiðum, um leið og þeim er gefinn einkaréttur á því að halda uppi áætlunarferðum til þeirra staða, sem flesta farþega hafa. Ég hef heyrt á forstjóra Flugfélagsins, að hann gerir sér þetta fyllilega ljóst, að þessi einkaréttur, sem Flugfélagið hefur til fólksflutninga hér á landi, leggur félaginn einnig skyldur á herðar að gera nokkuð fyrir þá staði, sem eru fámennari.