21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3507)

152. mál, útflutningssamtök

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. frá 6 hv. þm. Alþfl. um löggjöf um útflutningssamtök. Efni till. er það að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að semja frv. til slíkra laga, og á nefndin að hraða svo störfum, að frumvarpið verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Flm. geta þess í grg m.a., að fimm stórar stofnanir annist um 70% af útflutningi fiskafurða, og síðan eru þær stofnanir nefndar. Samkv. því er þá um 30% af útflutningnum í höndum annarra, og ég tel það æskilegt, að slíkt frjálsræði geti ríkt í viðskiptum, að þeir, sem hafa áhuga á því að afla markaða fyrir íslenzkar útflutningsvörur, hafi möguleika til þess og jafnvei meiri framvegis en oft hefur verið hjá okkur að undanförnu. Flm. segja í grg., að af þeim samtökum, sem þar eru nefnd, starfi aðeins síldarútvegsnefnd samkv. sérstökum lögum. Við þetta tel ég nokkuð að athuga. Ég held, að ég muni það rétt, að starfsemi Sölusambands ísl. fiskframleiðenda sé byggð á sérstakri löggjöf, a.m.k. var það svo upphaflega, og ég held, að þau lög séu í gildi enn að miklu leyti. Það eru þarna, auk þess fyrirtækis, sem ég nefndi, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samlag skreiðarframleiðenda. Líklega er það svo um þessi fyrirtæki og einnig raunar um Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, að þau séu hvorki hlutafélög né samvinnufélög að lögum. En að sjálfsögðu hafa öll þessi fyrirtæki sett reglur til að starfa eftir, hvert hjá sér. En um eitt fyrirtæki, sem þarna er nefnt, Samband ísl. samvinnufélaga, er það að segja, að það var stofnað og starfar á grundvelli samvinnulaganna. Það veit ég, að hv. flm, muni vera fullkunnugt, eigi sízt hv. 1. flm. till., svo að það er ekki rétt, að það fyrirtæki starfi ekki samkv. sérstökum lögum.

Ég skal ekki um það dæma, hvort þörf væri á því að setja ákvæði í lög um starfsemi þeirra annarra fyrirtækja, sem þarna eru nefnd, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsa og Samlags skreiðarframleiðenda, úr því að þau eru hvorki rekin á hlutafélags- né samvinnugrundvelli. Það er mál, sem vitanlega mætti íhuga, hvort þess væri þörf. Í grg. till. er vitnað í einn norskan Gerhardsen, og er það prófessor, og birt hér nokkuð úr skýrslu, sem talið er að hann hafi gert um sjávarútveg Íslendinga. Ég minnist þess ekki, að ég hafi séð þessa skýrslu, og mér er ekki kunnugt um starf þessa norska prófessors hér. Fróðlegt þætti mér að vita, hvort ríkisstj. hefur fengið hann til þess að gera þessa ýtarlegu athugun á sjávarútvegi Íslendinga.

Meðal þess, sem þessi norski maður segir, er það, að löggjöf um útflutningsfyrirtækin sé sérstaklega æskileg. Og hann segir, að í slíkum lögum beri að staðfesta, beint eða óbeint, að viðurkenna beri áfram regluna um verkaskiptingu. Síðan segir hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkið verður því að ákveða, hvort sölusamtök megi stofna dótturfélög til siglinga, trygginga, innflutnings, umbúðaframleiðslu o.s.frv. Við núverandi aðstæður getur þetta þýtt, þar sem grundvöllurinn er ekki nægilega sterkur, að til greina komi að leggja niður hluta af aukastarfsgreinum, sem hafa þróazt. Rannsókn á hagkvæmni í siglingum getur leitt í ljós, að það sé ekki í samræmi við beztu hagsmuni þjóðarinnar, að sölusamtökin eigi sérstök skipafélög.”

Ég felli mig ekki vel við þetta, sem fram kemur hjá þessum norska prófessor, að ríkið eigi að ákveða það, hvort sölusamtökin megi sjálf annast siglingar, t.d. flytja út á sínum vegum íslenzkan fisk eða stofna til trygginga vegna þeirrar starfsemi, sem samtökin og félagsmenn þeirra reka. Ég felli mig ekki heldur vel við það, að ríkið eigi að ákveða, hvort slík samtök megi koma á hjá sér umbúðaframleiðslu til að búa til umbúðir um þær vörur, sem þau flytja á erlendan markað. Mér finnst það eðlilegt, að þessi samtök hafi frelsi til þess að annast slíka starfsemi, ef þau og þeirra félagsmenn telja það hagkvæmast. Enn er vikið að því í grg. með till., að sterk þörf sé að skapa frið um starfsemi sölusamtakanna. Þetta er í þeim kaflanum, sem tekinn er upp úr skýrslu Norðmannsins. Og þar segir: „Hinn algengi misskilningur og hinar tíðu opinberu umræður um tilverurétt og einstakar aðgerðir samtakanna getur hvorki verið í hag samtakanna né þjóðfélagsins:

Getur það verið, að maðurinn leggi til, að það eigi að fara að takmarka opinberar umr. um svona félagssamtök? Og hann segir enn, að hinir einstöku meðlimir samtakanna hljóti að líta á það sem tryggingu, að skýr og ljós lagaákvæði séu um starfsemi samtakanna, ekki sízt ef þeir eru félagar í mörgum samtökum. Ég er hræddur um, að það verði alls ekki útilokað með þessu, að sitt geti sýnzt hverjum í fjölmennum félögum, jafnvel þó að búin verði til ein ný lög um útflutningssamtök. Og ég veit ekki, hvort það er að öllu leyti æskilegt að ganga þannig frá þeim málum, að þar verði eilífur friður og enginn sjái ástæðu til þess að gera neinar athugasemdir við reksturinn, því að þannig er það nú með okkur mennina og verður trúlega fyrst um sinn, að við erum engir alfullkomnir í störfum. Svo segir síðast í grg., að í skýrslu Gerhardsens séu nánari tillögur um hugsanlega löggjöf um sölusamtök, sem ekki sé ástæða til að ræða á þessu stigi málsins. Ég hef nefnilega talið nokkra ástæðu til þess að ræða um það og fá nánari upplýsingar úr skýrslu hins norska manns um það, hvað það er, sem hann telur að þurfi nauðsynlega að vera í slíkri löggjöf. Það hefði verið a.m.k. fróðlegt til frekari glöggvunar á málinu.

Síðast í grg. segir, að það virðist augljóst, að þörf sé fyrir slíka löggjöf. Ég er nú ekki búinn enn að koma auga á þá ríku þörf, þó að flm. telji hana augljósa. Ekki mun ég, þrátt fyrir þetta, sem ég hef sagt, hafa neitt á móti því, að till. þessi fari til þingnefndar til athugunar, en ég vænti þess, að sú hv. nefnd taki þetta til íhugunar frá ýmsum hliðum, og ég vil benda á það, að ég tel alveg sjálfsagt fyrir nefndina að byrja á því að spyrja þessi fyrirtæki og félög, sem þarna eru nefnd, um það, hvort þeim sé augljós þessi ríka þörf fyrir lagasetningu.