18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

1. mál, fjárlög 1962

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 205 ásamt tveim samþingsmönnum mínum, hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) og hv. 4. þm. Sunnl. (BFB), brtt. við fjárlagafrv., og ætla ég mér að mæla hér fáein orð fyrir tveimur þeirra, en hv. 6. þm. Sunnl. mælti fyrir einni þessara tillagna.

Mér er ljóst af reynslunni, að það er til lítils fyrir einstaka þingmenn að flytja hér brtt. eða till. yfirleitt, og má segja, hvort heldur eru frv. eða tillögur. Yfirleitt er það orðið þannig, að það er ekki annað, sem nær fram að ganga hér á hv. Alþingi, en það, sem ríkisstj. í hvert sinn vill láta ganga fram. Það má því heita nokkur einfeldni af okkur, þessum félögum, að vera að bera fram tillögur. En við kunnum ekki við annað en minna á þessi málefni, sem eru áhugamál heima í héraði okkar.

Fyrsta tillagan á þskj. 205 er við 11. gr. A, 10. lið, um það, að við bætist nýr liður: Til löggæzlu á Selfossi 70 þús. kr. Það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir hér á Alþingi, bæði nú og í fyrra a.m.k., til þess að fá fjárveitingu á fjárlögum til löggæzlu á Selfossi. Sú málaleitun hefur þó ekki fengið náð fyrir augum þeirra, sem völdin hafa. Við flm. þessarar brtt. viljum þó enn gera tilraun með það að koma hér á framfæri á hv. Alþingi þessari málaleitan, svo að til úrslita komi, hvort hún nær fram að ganga eða ekki. Ég vil geta þess, að á Selfossi eru nú búsettir nær 2000 manns og að staðurinn liggur á krossgötum, og þar er mjög mikil umferð, svo sem kunnugt er. Það er þess vegna komið í ljós, að mikil þörf er þar á löggæzlu daga og nætur, og er slík gæzla mjög kostnaðarsöm, svo að sveitarfélagið, sem þarna um ræðir, stendur nú í vandræðum út af þessu máli.

Hin tillagan, sem ég hér vildi aðeins hafa nokkur orð um, er VII. till. á þskj. 205, við 22. gr., um það, að þar komi nýr liður um að greiða allt að 100 þús. kr. til uppbyggingar Kolviðarhóls í Arnessýslu. Það er eins og kunnugt mun vera, að í Reykjavík og á Suðurlandi er starfandi félag, sem sett hefur sér það mark að endurreisa hinn forna áfanga- og gististað á Kolviðarhóli. Sá staður var öldum saman einn fjölsóttasti áningarstaður ferðamanna, þegar þeir komu af Hellisheiði eða þegar þeir lögðu á heiðina. Þar hvíldust menn og skepnur í erfiðum ferðalögum vetur og sumar, og margt mannslífið mun hafa bjargazt vegna sæluhússins og síðar gistihússins á Kolviðarhóll. Vegna breyttra samgönguhátta og nýrrar tækni er Kolviðarhóls ekki lengur þörf sem gististaðar fyrir ferðamenn, sem fara um Hellisheiði. En á Kolviðarhóli eru mikil og vönduð hús, sem síðasti gestgjafinn þar, Sigurður heitinn Daníelsson, reisti af miklum stórhug. Þessi hús hafa nú á síðustu árum orðið fyrir miklum skemmdum spellvirkja. Kolviðarhólsfélagið hefur látið framkvæma bráðabirgðaviðgerð á húsinu, svo að því hefur nú um sinn verið forðað frá bráðri eyðileggingu. En það vantar mikið á, að full viðgerð hafi farið fram, og mun hún kosta mikið fé. Sunnlendingar líta yfirleitt svo á, að endurreisn Kolviðarhóls sé þáttur í því að bjarga frá glötun og varðveita þjóðleg og menningarsöguleg verðmæti, sem á sínum tíma áttu sinn þátt í því, að þjóðin gat búið í landinu og varðveitt það til handa niðjum sínum, þeim er nú byggja þetta land.

Áreiðanlega hefur oft verið varið fé úr ríkissjóði til styrktar málefni, sem hefur ekki átt meiri rétt á stuðningi af hálfu þjóðfélagsins en það, sem hér er um rætt og tillagan fer fram á. Ég vænti þess vegna, að þetta mál eigi hér skilningi að mæta að þessu sinni. Áreiðanlega munu hin stóru hús á Kolviðarhóli geta komið að gagni á einhvern hátt, ef þeim verður bjargað. Mér finnst þjóðin ekki hafa efni á því, að slík verðmæti, sem á Kolviðarhóli eru, séu látin eyðileggjast, og eins og ég sagði áðan, vænti þess vegna, að þetta mál fái hér að mæta skilningi og velvilja hv. alþingismanna.

Ég geri ráð fyrir því, að við flm. tökum þessar tillögur aftur til 3. umr., og vil ég þá mælast til þess, að hv. fjvn. taki málið til athugunar þann tíma, sem hún hefur til umráða fyrir 3. umr. Og ég vildi mælast til þess, að hún vildi gera þessar till. að sínum tillögum og bera þær þannig fram við 3. umr.