18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1962

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Reykn. (FRV) að flytja tvær brtt. við frv. til fjárlaga, sem hér er verið að ræða við 2. umr.

Fyrri brtt. okkar er sú, að fjárframlag til hafnargerðar í Kópavogi verði fært úr 200 þús. kr. í 250 þús. kr. Þessi fjárveiting, ef samþykkt yrði, væri sú sama og vitamálastjóri lagði til að veitt yrði til Kópavogskaupstaðar í tillögum sinum um skiptingu á fé til hafnarframkvæmda. Í hv. fjvn. var hins vegar fjárframlag þetta skorið niður um 50 þús., og tel ég það mjög ósanngjarnt, miðað við hina miklu þörf fyrir fjárveitingar úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda í Kópavogi og einnig miðað við það, að á undanförnum árum hefur fjárveiting til Kópavogs til hafnarframkvæmda verið mjög smávægileg og minni en til margra annarra staða, sem ég get ekki séð að eigi frekar rétt á hærri fjárveitingum en Kópavogskaupstaður.

Síðari brtt. okkar hv. 5. þm. Reykn. gengur út á það, að fjárveiting til hafnarframkvæmda í Sandgerði verði hækkuð úr 200 þús. kr. í 300 þús. kr. Á fjárframlögum fyrir næsta ár mun heildarfjárveiting til hafnarframkvæmda vera hin sama og á þessu ári. Hins vegar hefur það einkennilega skeð, að fjárveiting til hafnarframkvæmda í Reykjaneskjördæmi, einu allra kjördæma á landinu, hefur verið lækkuð um 100 þús. kr. Við flm. þessarar brtt. höfum gert það að tillögu okkar, að fjárveiting til Sandgerðis verði hækkuð um 100 þús. kr., þannig að heildarfjárveiting til hafnarframkvæmda í Reykjaneskjördæmi verði óbreytt frá því, sem hún var í fyrra, eins og er um önnur kjördæmi landsins.

Ég þarf ekki að lýsa því fyrir hv. alþingismönnum, hversu mikilvægt það er fyrir þann mikla flota, sem stundar veiðar á vetrum og raunar lengur, að góð höfn, góð hafnarskilyrði séu í Sandgerði. Á undanförnum árum hefur verið unnið talsvert að hafnarframkvæmdum þar, og fyrirhugað er verulegt átak í þeim efnum, en til þess að hægt sé að ljúka þeim áfanga, sem áætlað er, skortir talsvert fjármagn.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar tillögur. Þær eru ljósar og þurfa ekki mikilla skýringa við. En ætlun okkar flm. var sú að taka þessar tillögur aftur til 3. umr., og vildi ég því leyfa mér, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, að fara þess á leit við hv. fjvn., að hún taki tillögur þessar til velviljaðrar athugunar á þeim tíma, sem hún skoðar frv. á milli 2. og 3. umr., og helzt vildum við, að fjvn. gæti komið sér saman um að gera tillöguflutning okkar að sínum við 3. umr. fjárlagafrv.