18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

1. mál, fjárlög 1962

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þær fjórar smátillögur, sem ég flyt til breytinga á fjárlagafrv., eru ekki komnar úr prentun, en það hafa verið veitt afbrigði fyrir þeim. Um þessar tillögur vil ég fara nokkrum orðum.

Ég vil, áður en ég vík að tillögunum, láta í ljós undrun mína, eins og flestir þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa talað við þessa umræðu, á því fyrirbæri, að fjárlögin hafa í heild hækkað á þremur árum um a.m.k. 70%, en fjárveitingar til verklegra framkvæmda mega heita að standa í stað þessi sömu þrjú ár.

Áreiðanlega hefði naumast nokkurri ríkisstj. haldizt það uppi að lækka fjárveitingar til verklegra framkvæmda svo stórkostlega sem hér hefur verið gert. En hæstv. núv. ríkisstj., viðreisnarstjórninni, hefur tekizt að gera þetta með síendurteknum gengislækkunum. Staðreyndin er eftir sem áður, að það, sem nú er hægt að framkvæma fyrir þær fjárveitingar, fyrir þá sömu krónutölu, sem er nú til verklegra framkvæmda, til vega, brúa, hafna, flugmála, er að verðgildi stórkostlega miklu minna en var, þegar þessi sæla stjórn tók við völdum. Hún hefur því í raun og veru lækkað framlög til verklegra framkvæmda stórkostlega. Í Vestfjarðakjördæmi kemur þetta fram eins og annars staðar. Fjárframlög til vegagerðar í þessum mjög vanrækta landshluta eru að krónutölu svipuð og þau hafa verið undanfarin ár, en fyrir þetta fé verður auðvitað hægt að framkvæma miklu minna en t.d. fyrir þremur árum.

Fyrsta tillaga mín er um það, að veitt verði fé til Fjarðavegar, Þ.e.a.s. vegarins út með Álftafirði í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem liggur um Sjötúnahlíð, um Kambsnes, að Eyri við Seyðisfjörð, og ætti að liggja frá Eyri fyrir fjarðarbotninn og að bænum Hesti. En ef þessi vegur, Fjarðavegur, væri lagður á þennan veg, væri komið vegarsamband um hina byggðu sveit á þessu svæði, en fram undan væri þá hinn óbyggði fjörður, Hestfjörður, sem Fjarðavegi er ætlað að liggja inn fyrir og síðan inn fyrir Skötufjörð, áleiðis til sigurs. Ég tel auðvitað mesta þörf vera á því að halda áfram vegagerðinni um hinn byggða hluta þessa svæðis. Þarna ætti þessi vegur, ef honum væri haldið áfram næsta sumar af nokkrum krafti, að vera kominn a.m.k. á næsta ári þar á eftir til nota fyrir stærsta sauðfjárbóndann á Vestfjörðum, sem býr á Eyri við Seyðisfjörð.

Það fékkst ekki samkomulag um það í hópi Vestfjarðaþingmanna að ætla þessum vegi nokkra upphæð að ráði, sem að gagni kæmi. Það var líka í mörg horn að líta sannarlega og miklu fleiri en hægt var að sinna. Hef ég því leyft mér að bera fram tillögu um það, að tekin verði upp fjárveiting til Fjarðavegar, 300 þús. kr., þ.e.a.s. fjárveiting, sem gæti skilað þessari vegagerð nokkuð áleiðis um Sjötúnahlíð og Kambsnes í áttina að bænum Eyri við Seyðisfjörð.

Það hefði mátt vænta þess, að þess sæi einhvern stað, að einn af þingmönnum Vestfjarðakjördæmis er nú formaður fjvn., í góðri aðstöðu, góðu skjóli ríkisstj., og átti vitanlega ekki að vanta viljann til þess, að það sæist nú eitthvað í a.m.k. ekki knappari fjárveitingum en áður, að hann hefði haft þessa aðstöðu. En nú bregður svo við, að því er tekur til fjárveitinga til brúa í Vestfjarðakjördæmi, að það eru aðeins tvær mjög smávægilegar brýr, sem fá þar fjárveitingu, og eru þó margar ár á Vestfjörðum, sem þyrftu sannarlega að verða brúaðar og það hið bráðasta. Um fjárveitingar að undanförnu til Vestfjarðakjördæmis að því er snertir brýr má segja það, að þar hafi oft verið svipaðar og í önnur kjördæmi, að öðru leyti en því, að ég man ekki til þess, að Vestfirðir hafi nokkurn tíma fengið eyri úr brúasjóði, en brúasjóðurinn hefur einmitt veitt fjárfúlgur til brúargerða í öðrum landshlutum, til þeirra brúa, sem hafa kostað eina milljón króna eða meira.

Hér er a.m.k. um eina á að ræða, sem mundi kosta meira en milljón krónur að brúa, og það er áin Mórilla í Kaldalóni. Á s.l. sumri var að mestu leyti lokið að leggja veginn báðum megin að þessari brú, fyrir Kaldalón, og tengja þannig saman veginn um Langadalsströnd og veginn um innanverða Snæfjallaströnd. En þó að því verði lokið á næsta vori að ganga frá þessari vegagerð og tengja Snæfjallahrepp og Nauteyrarhrepp þannig saman með samfelldum vegi, þá vantar þetta á, það vantar brúna á Mórillu, svo að menn verða engu nær. Hún er það vatnsfall, að trauðlega verður yfir komizt, nema yfir hana verði byggð brú, og þó að ég leggi hér aðeins til eina milljón króna, kostar hún sennilega hátt í 2 millj. kr., kannske meira en það. Þetta er jökulvatn, sem kemur úr Drangajökli og er oft mjög illt yfirferðar, kannske einna verst yfirferðar allra vatnsfalla á Vestfjörðum.

Þá hefur miðað það áfram vegagerðinni norður í Strandasýslu, að vegur var nú á s.l. sumri kominn norður í Kaldbaksvík. En þar er allvatnsmikill ós við vegarendann, milli vegarenda og bæjanna í Kaldbak, og þyrfti auðvitað að ríða þann endahnút þarna á í bili að brúa Kaldbaksós, en til þess get ég ekki séð að nein fjárveiting sé ætluð á fjárlögunum. Það er því verra að leggja bíla í ósinn, að upp í hann fellur sjór um flæði, og þykir öllum bílaeigendum allillt og er til stórskemmda á þessum tækjum að fara yfir slík vatnsföll. Þess vegna þarf að hraða brúargerð sérstaklega yfir Kaldbaksósinn.

Þá er tillaga um hafnarbætur eða lengingu bryggjunnar á Drangsnesi. Kauptúnið á Drangsnesi hefur tekið nokkrum vexti nú allra seinustu árin, átti lengi við atvinnulegar þrengingar að búa, en hefur nú eins og risið úr ösku. Þeir hafa þar, íbúarnir, komið sér upp stórum smávélbátaflota og eiga auk þess að njóta atvinnuaðstoðar frá togskipi, sem í raun og veru var keypt til þess að vera aðaluppistaðan og undirstaðan undir atvinnulífi Hólmvíkinga og Drangsnesbúa. En bryggjan á staðnum, þó að hafnarskilyrði séu þar að öðru leyti allgóð, er í því ástandi, að hún er ónothæf fyrir þetta stóra skip og veitir ekki næga afgreiðslumöguleika fyrir smábátaflotann í kauptúninu. Það hefur verið hamrað á því ár eftir ár að fá einhverja fjárveitingu til þess að geta lengt Drangsnesbryggju, en þetta hefur mætt daufum eyrum, og hafa þó héraðsbúar ár eftir ár sent Alþingi skörulegar bænaskrár og rökstuddar vel um það, að ekki verði gengið fram hjá Drangsnesi og hafnaraðstöðu þar, því að á því veltur í raun og veru allt atvinnulíf þorpsbúa.

Ég vil nú vænta þess, að hv. fjvn. taki þessar tillögur mínar til athugunar, og væri sjálfsagt að gefa henni betra tóm til þess með því að taka þessar tillögur aftur nú við 2. umr. og knýja þannig enn fastar á dyr Flosa og eiga undir hans drengskap nokkuð.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þessar smávægilegu tillögur, en að síðustu aðeins fara örfáum orðum um eitt hið furðulegasta fyrirbæri, sem mér sýnist vera á þessu fjárlagafrv., og það er tillaga hæstv. fjmrh. um það að inna af hendi greiðsluskyldu ríkissjóðs til atvinnuleysistrygginganna með einhverjum skuldabréfalappa frá ríkinu. Ég álít þessa tilraun hæstv. ráðherra algerlega lögleysu, því að það mun vera viðurkennt af lögfræðingum, að gildandi lögum verði ekki breytt með fjárlagaákvæði, og það eru gildandi lög í landinu, að atvinnuleysistryggingarnar fái tekjur frá ríkissjóði, og mun nú láta nærri, að greiðsluskylda ríkissjóðs á yfirstandandi ári sé um 29 millj. kr., og að atvinnuleysistryggingarnar skuli enn fremur fá greiðslu árlega frá sveitarfélögum og frá atvinnurekendum. Ef einn af þessum aðilum, sem eiga að greiða atvinnuleysistryggingunum, kemst áfram með það að borga með skuldabréfi, þá er ekki nokkur vafi á því, að Reykjavíkurbær mundi fijótt fara sömu leiðina og sveitarfélögin yfirleitt og sjálfsagt atvinnurekendurnir líka, því að ríkið er ekki á nokkurn minnsta hátt rétthærri aðili í þessu efni en hinir aðilarnir. Þar með væri búið að leggja atvinnuleysistryggingarnar í rúst. Það hefur verið svo, að stjórn atvinnuleysistrygginganna, sem starfar samkvæmt þeim lögum, sem tryggingarnar byggja á, hefur veitt allmikið af lánum til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi á ýmsum stöðum, til þess að undirbyggja atvinnulífið, og hefur litið svo á, að það væri í anda laganna, auk þess sem tryggingarnar eiga fyrst og fremst að greiða atvinnuleysisbætur, atvinnuleysisstyrki, þegar atvinnuleysi ber að höndum. Hefur það verið gert, þegar svo hefur borið undir, en sem betur fer lítið þurft til þess að koma vegna góðs atvinnuástands. En ef atvinnuleysistryggingarnar nú ættu að fara að borga rekstrarhjálp til ríkisins, upp í rekstur ríkisins, koma hjálpandi til, þegar svo er haldið á ríkisbúskapnum, að ekki nást saman endar tekna og gjalda, og ætla þannig að fara að standa undir rekstri einhvers fyrirtækis, eins og til dæmis ríkisins, þá er komið að því, að atvinnurekendurnir gætu komið hver á fætur öðrum og heimtað á sama hátt að fá aðstoð við sinn rekstur. Á þessu er enginn munur. Gamansamur maður sagði, að það gæti alveg eins komið maður af götunni og sagt: Mig vantar peninga fyrir brennivínsflösku, og ég heimta að fá þá úr atvinnuleysistryggingunum, ég hef ekki tekjur fyrir því. — Það, sem ríkið tekur, getur vel farið fyrir brennivínsflöskur ráðherranna og í þeirra veizlur, og er þá enginn munur á, það eru rekstrarútgjöld hjá ríkinu, sem þarna er um að ræða, og rekstrarútgjöld einstaklings. En vitanlega næði slíkt engri átt. Hæstv. ráðherra hefur engan meiri rétt en maðurinn af götunni til þess að skjóta sér undan sínum lagalegu greiðslum og að ætla sér að fara að fá fé atvinnuleysistrygginganna, sem ber að verja lögum samkv., upp í það, sem hann vantar til þess að hafa rekstrartekjur á móti gjöldum. Það minnsta, sem yrði þá að gerast, eins og hér var sagt í dag réttilega, væri það, að hæstv. ráðherra færi til stjórnar atvinnuleysistrygginganna og bæði um heimild til þess að mega samkv. sérstökum samningi við stjórn trygginganna greiða árstillagið í þetta sinn með skuldabréfi. En mér er tjáð, að hann hafi ekki einu sinni haft svo mikið við, bara skellt þessu inn á fjárlögin og ætlar sér að breyta atvinnuleysistryggingalögunum með fjárlagaákvæði, sem talið er lögleysa. Ég fyrir mitt leyti mótmæli því algerlega, að þetta geti staðizt, og tel, að hæstv. forseti geti í raun og veru ekki borið svona till. undir atkvæði, af því að hún stríðir greinilega gegn lögum. En til slíkra óyndisúrræða er gripið af hæstv. ráðherra vegna þess, að hann vantar ekki aðeins þessar 28.5 millj. kr., sem þarna er um að ræða að smokka sér hjá að greiða og ætla sér að rétta viðkomandi aðila aftur skuldabréf í staðinn, heldur vantar hann líka 73–74 millj. kr. fyrir þeim niðurgreiðslum, sem hingað til hafa verið greiddar, og er alveg greinilega þarna um að ræða rúmlega 100 millj. kr. halla á fjárlögunum, þó að ekkert kæmi annað til.

Ég gat ekki að mér gert að víkja að þessu nokkrum orðum, af því að menn geta ekki látið sér í léttu rúmi liggja um það, ef ekki á að virða þau lög, sem atvinnuleysistryggingarnar starfa eftir, og brjóti einn aðili, þó að það sé ríkið, er alveg víst, að það býður öðrum lögbrotum heim frá þeim, sem hafa þá sama rétt, bæði atvinnurekendunum í landinu og sveitarfélögunum, og kynni að vera, að þau segðu alveg eins og ríkið: Mig vantar tekjur á móti mínum útgjöldum. — Og er þá ekki sízt um að sakast við hæstv. ríkisstj. sjálfa, að svo er komið.