18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

1. mál, fjárlög 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka aftur til máls hér, en tel þó rétt að svara tveimur firrum úr ræðu síðasta hv. ræðumanns.

Hann slær því föstu í fyrsta lagi og segir, að það valdi mikilli undrun í hans huga, að framlög til verklegra framkvæmda standi svo að segja í stað. Það er sýnilegt, að hv. þm. hefur ekki lesið eða ekki hirt um þær upplýsingar, sem liggja fyrir í þessu efni. Ég gaf m.a. yfirlit um þær hækkanir, sem orðið hefðu til verklegra framkvæmda, og skal ekki endurtaka það hér. En fyrir þá sök minnist ég á þetta, að það er í raun og veru alveg blöskranlegt, að þessi hv. þm., sem var ráðh. í vinstri stjórninni, skuli leyfa sér að koma hér fram og bera það blákalt fram, að hér séu óbreytt framlög til verklegra framkvæmda, og hneykslast á því, eins og hann gerir, því að þessi hv. þm. veit ósköp vel um sína eigin fortíð í þessum efnum. Fyrir haustþingið 1957, á miðjum valdatíma vinstri stjórnarinnar, var lagt fram fjárlagafrv. fyrir árið 1958. Og við skulum líta á, hvernig þessi hv. þm., þáv. ráðherra, stóð að till. í því fjárlagafrv. um framlög til verklegra framkvæmda. Við skulum bera saman annars vegar framlögin til verklegra framkvæmda samkv. gildandi fjárlögum þá, 1957, og hverjar voru tillögur þessarar ríkisstj. og þar með þessa hv. þm.

Varðandi vegina voru framlögin í fjárlögum 1957 tæpar 16 millj. Þessi hv. þm. ásamt fjmrh. þá og allri ríkisstj. skar þau niður í frv. fyrir næsta ár niður í 12 millj. Framlögin til brúa voru í fjárlögum 1957 9.8 millj. Hann skar þau í frv. niður í 7 millj. Framlögin til hafna voru 12.6 millj. Hann skar þau niður í 9.3 millj. í frv., sem hann stóð að því að leggja fram. Framlögin til skólabygginga voru 19.5 millj. Hann skar þau niður í 15.1 millj. Framlögin til sjúkrahúsa voru í fjárlögum 1957 8.1 millj. Hann skar þau niður í 7.6 millj. Framlögin til íþróttasjóðs voru 1.6 millj. Þessi hv. þm. skar þau niður í 1.3 millj. Framlögin til flugvalla voru 6.7 millj. í gildandi fjárlögum 1957. Þessi hv. þm, skar þau niður í 6 millj. Þessir liðir: vegir, brýr, hafnir, skólar, sjúkrahús, íþróttasjóður og flugvellir, framlögin til þeirra voru í fjárlögum 1957 74 millj. kr. Þegar þessi hv. þm. hafði aðstöðu til þess að hafa áhrif á framlög til verklegra framkvæmda, stóð hann að framlagningu fjárlagafrv. haustið 1957, fyrir árið 1958, sem skar þessi framlög niður um 16 millj. kr. Á þinginu tókst að vísu að fá þessu breytt, þannig að þessum framlögum var tosað í krónutölu upp í það sama og hafði gilt á árinu 1957, og þó er þess að gæta, að á árinu 1958 stendur þessi hv. þm. að því að lækka gengi íslenzku krónunnar með 55% yfirfærslugjaldinu, þannig að allur tilkostnaður við hvers konar verklegar framkvæmdir hlaut auðvitað að hækka verulega. Ég verð að segja, að það er furðuleg fífldirfska og óskammfeilni, að þessi hv. þm. skuli svo koma hér og tala eins og hann gerði.

Varðandi hitt atriðið, sem hann nefndi, þá sýnir það gersamlega, hversu þessi hv. þm. er úti á þekju um það, sem um er að ræða. Hann býsnast yfir því, að það sé verið að leggja atvinnuleysistryggingasjóðinn í rúst með því, að gert er ráð fyrir, að ríkissjóður greiði sitt framlag, 28.5 millj., á næsta ári með skuldabréfi í staðinn fyrir reiðum peningum. Þessi hv. þm. á að vita, ef það er ekki gersamlega frosið fyrir öll skilningarvit á honum, að þessi sjóður hafði í handbæru fé 170 millj. kr. um síðustu áramót. Þessi hv. þm. veit, að tekjur þessa sjóðs á hverju ári eru yfir 70 millj. kr. Hann veit það líka, að atvinnuleysistryggingabæturnar, sem á að greiða út, nema ekki einni millj. kr. á ári. Hvað gerir atvinnuleysistryggingasjóður við þetta fé? Hann lánar út til ýmissa verklegra framkvæmda sumt af þessu, en ekki nema lítinn hluta af því, hitt leggur hann inn í Seðlabankann. Og ég spyr: Hvers vegna er þessum hv. þm. svona annt um Seðlabankann, að hann heimtar endilega, að þessar 28.5 millj. séu geymdar vandlega í Seðlabankanum, en það megi ekki gefa út fyrir því skuldabréf, sem ríkissjóður mun greiða á sínum tíma? Auðvitað er ekki heil brú í þessum hugsunarhætti og er í rauninni varla svaravert, enda er búið að skýra mál þetta hér áður. En fyrir því svara ég tveim athugasemdum eða aðfinnslum hv. þm., að þó að margt gangi fram af manni af því, sem frá þessum hv. þm. kemur í hans framlagi til mála hér á Alþingi, þá finnst mér þetta með því blöskranlegra, sem hann hefur látið út úr sér.