06.04.1962
Sameinað þing: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í D-deild Alþingistíðinda. (3558)

174. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þessarar till., sem hér er verið að ræða um. Það hefur verið minnzt á það, að till. sem þessi hafi verið flutt áður, há hafi ég gefið svör og talið, að raforkumálastjóra hafi verið falið að gera þá áætlun, sem hér um ræðir. Það er rétt. Með bréfi, sem ég man nú ekki nákvæmlega hvenær var dagsett, en það var fyrri hluta árs 1960, ég ætla í febrúar eða marz, var raforkumálastjóra falið að vinna þetta verk, sem hér er rætt um í þessari till. Og ég er alveg sammála, að ég tel æskilegt, að þessari áætlun verði lokið sem fyrst. En það liggur í augum uppi, að það hefur náttúrlega ekki gert raforkumálastjóra léttara fyrir eða aukið möguleikana á því að flýta þessu, að verkfræðingaverkfallið skall á í fyrrasumar, og það má segja, að það sé takmarkað lið, sem hann hefur í þjónustu sinni. En í viðtölum mínum við raforkumálastjóra er unnið að þessari áætlun, og það má segja, að það sé æskilegt fyrir þá bændur, sem hafa ekki enn fengið rafmagn, að vita um, hvenær þess er von eða hvort þess er von. En enn sem komið er gerir það náttúrlega ekki neinn skaða í sambandi við framkvæmdir á þessum málum, þó að áætlunin liggi ekki fyrir, því að 10 ára áætluninni er ekki enn lokið, eins og kunnugt er. En að henni er unnið af fullum krafti, og held ég, að óhætt sé að segja, að 10 ára áætluninni verði lokið á tilsettum tíma. Og það er þegar henni er lokið, sem að þessu kemur, og vitanlega fyrir þann tíma og æskilegast, að framhaldsáætlunin liggi sem fyrst fyrir.

Þá er það, hvað má vera langt á milli bæja í framhaldsáætlun. Í 10 ára áætluninni er talað um einn km, og eftir því hefur verið unnið í öllum aðalatriðum. Hvað á að setja markið hátt í framhaldsáætluninni? Á það að verða 11/2 km, eða á það að vera meira? Í hreinskilni sagt hefur ekki verið tekin ákvörðun um þetta enn þá, og þess gerist reyndar ekki þörf, áður en áætlunin er gerð, því að áætlun þarf að gera og kortleggja alla bæi, sem eftir eru rafmagnslausir, og það er nú náttúrlega ákaflega fljótlegt að draga út nokkuð marga bæi, sem eru það langt frá, að það kemur ekki til mála að leggja línu frá samveitu til þeirra, það eru kannske 4—5 km. Það vita allir, að það verður ekki ráðizt í það að leggja samveitur til þeirra bæja, þegar kílómetrinn kostar um 80 þús. kr. Og það eru áreiðanlega nokkur hundruð bæir á Íslandi, sem þannig er ástatt með, sem hægt er að taka alveg frá, og það væri æskilegt, að þessi heimili ættu kost á því að fá dísilstöðvar með góðum kjörum, annaðhvort að þeir fengju lán með góðum kjörum eða jafnvel bæði lán og einhvern styrk. Það kemur vel til greina að veita þeim beinan styrk, því að það er vitanlega miklu ódýrara fyrir þjóðfélagið að veita þeim styrk til þess að kaupa slíkar stöðvar heldur en að leggja þessar löngu línur. Svo eru mörg hundruð bæir, sem ættu að geta komizt í samband við samveitur, þeir eru fleiri en hinir, að ég hygg. En þetta fáum við allt að vita, áður en lýkur. Raforkumálastjóri vinnur að þessu og mun kortleggja þetta allt, þannig að það liggi fyrir. Það, sem unnið hefur verið að þessum málum undanfarið, er vitanlega ákaflega mikilvægt.

Það er minnzt á það í grg. fyrir þessari till., að framlagið hafi lækkað síðustu ár frá því, sem verið hefur. Ríkisframlagið er vitanlega tiltölulega lægra núna en það var áður, þegar það er sama krónutala. Kaupmátturinn er minni. En að framkvæmdum hefur verið unnið með því að útvega lánsfé, og 10 ára áætluninni hefur algerlega verið haldið. T.d. þegar við athugum það, hvað hefur verið lagt á mörg býli undanfarin ár, þá sjáum við, að það hefur ekki dregið úr því nú síðustu árin. 1957 var lagt inn á 148 býli, 1958 143 býli, 1959 139 býli, 1960 215 býli, 1961 voru tengd 158 býli plús 116 býli, sem búið var að leggja linur til, en ekki að tengja, eða sama sem 274 býli, og það er ástæða til þess að geta þess, að nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að framkvæmdir á árinu 1962 verði nokkru meiri en árið áður, og til þess hefur fengizt lán í Þýzkalandi með góðum kjörum.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fjölyrða um þetta. Við erum sjálfsagt allir sammála í þessu máll. Ég skil ekki, að það sé nokkur ágreiningur um, að það sé æskilegt að leysa raforkuþörf dreifbýlisins sem allra fyrst, það sé æskilegt að fá aukið fjármagn til þess frá því, sem verið hefur. En fram að þessu hafa hv. alþm. ekki sett, markið hærra en það, að 10 ára áætluninni væri haldið, og það hefur verið gert, og að framhaldinu þarf vitanlega að vinna á þann veg, að framhaldsáætlunin geti komið til framkvæmda á réttum tíma og að fjármagn verði tryggt til þess, að einnig þeirri áætlun verði haldið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta mál, sem enginn ágreiningur er um hér í hv. Alþingi.