05.02.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í D-deild Alþingistíðinda. (3632)

112. mál, fjárfesting Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna erlendis o.fl.

Sigurður Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja með því að leiðrétta hjá hv. 3. þm. Reykv. (EOl) ein af þeim mörgu ósannindum, sem hafa verið skrifuð í dagblöð höfuðstaðarins að undanförnu, að ég sé formaður Coldwater Seafood Corporation eða þeirrar stjórnar. Að sjálfsögðu er það margt fleira, sem þyrfti að leiðrétta af þeim mörgu fullyrðingum, sem hv. þm. bar hér fram og tæplega er samboðið jafnvirðulegum manni og hv. 3. þm. Reykv. vissulega er. Hv. þm. er einn af þeim mönnum, sem njóta trausts hjá fjölda manna, ekki eingöngu innan sins flokks, heldur einnig innan andstöðuflokkanna.

Ég vil byrja á því að lýsa yfir, að ég er mjög undrandi yfir þeim mörgu blaðagreinum og mikla umtali manna á milli, sem átt hefur sér stað undanfarinn mánuð í sambandi við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og hennar starfsemi og þá sérstaklega í sambandi við starfsemi þessara miklu samtaka í Bandaríkjunum. Stjórn hraðfrystihúsanna, sem hv. 3. þm. Reykv. segir nú, að sé skipuð þremur þm. Sjálfstfl., — það er ein af mörgum missögnum, sem hann heldur fram, — í stjórn hraðfrystihúsanna er ég og einn varaþm. Sjálfstfl. Það væri vissulega ánægjulegt, að það væru fleiri af þeim friða hóp, sem hér skipar sæti á Alþ., en ég er hins vegar mjög hryggur yfir þeim fullyrðingum, sem hv. alþm. hafði hér í frammi og jafnvel sagði berum orðum, að þetta fyrirtæki, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, væri í augum hans a.m.k. og jafnvel í augum þjóðarinnar hálfgert svindlfyrirtæki. Það er sorglegt ábyrgðarleysi að leyfa sér að hafa slík ummæli um eitt stærsta útflutningsfyrirtæki þessa lands, fyrirtæki, sem nýtur trausts ekki einungis meðlima sinna, heldur og langt út yfir þau takmörk, fyrirtæki, sem hefur unnið upp mikinn og glæsilegan markað fyrir frystan fisk á undanförnum árum og sýnt alveg sérstaka framtakssemi og dugnað í því starfi.

Ég hef talið, að hin mikla gremja, sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. hér áðan í garð Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stafi að mestu af þeirri staðreynd, að sala á frystum fiski minnkaði stórkostlega á árinu 1961 til Sovét-Rússlands, og ástæðan fyrir því, að þessi viðskipti við Rússland minnkuðu jafnmikið og raun ber vitni um, var einvörðungu sú, að Rússland var lélegasta markaðslandið á árinu 1961 fyrir fryst fiskflök. Og það veit hv. þm., að það var engin leið að verka frystan fisk í 7 punda umbúðir á markað til Rússlands á árinu 1961, þegar enginn möguleiki var til að fá Rússana til að hækka verðið úr £ 128 tonnið. Ég held, að allir þeir menn, sem fást við þessa framleiðslu, séu á einu máli um það, að þá hafi Rússlandsverðið verið lakasta verð, sem þeir bjuggu við. Það var fyrst eftir komu fyrrverandi menntmrh. Rússlands hingað til landsins, Furtseva, held ég, að frúin hafi heitið, að hún fékk því áorkað, að verð á 7 punda frystum fiski í pergamentumbúðum til Rússlands var hækkað úr £ 128 smál. í £ 140 eða um nær 10%. Það verð er þó reyndar talið enn of lágt, en það munar þó mikið um allt að 10 % hækkun, sem átti sér stað eftir mitt ár 1961.

Sem stjórnarmeðlim í S.H. er mér það vissulega ljóst, að allar þær fullyrðingar, sem hv. 3. þm. Reykv. og fleiri hafa haft í frammi, að við viljum vinna að því að minnka viðskiptin við Rússland, eru gersamlega rangar. Við teljum viðskipti við Rússland, að öðru leyti en því, hve verðið er lágt, hagstæð fyrir íslenzka fiskútflytjendur, og ef unnt væri að fá verðið eitthvað hækkað enn, þá mundi áreiðanlega stóraukast útflutningur á fiskflökum til Rússlands.

Eins og hv. þm. tók fram hér áðan í ræðu sinni, þá hafa viðskiptabankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, tekið þá ákvörðun að senda fulltrúa sina til Bandaríkjanna til að láta framkvæma þar birgðatalningu á frystum fiski, sem þar liggur, bæði á vegum Coldwater Seafood Corporation og hjá Sambandinu. Þetta er í sjálfu sér ekki nema eðlileg framkvæmd. Slík birgðatalning hefur átt sér stað í mörg ár hér á landi hjá fiskframleiðendum af hendi bankanna. Eigendur fiskvinnslustöðva telja birgðatalningu sjálfsagða ráðstöfun af bankanna hálfu.

Hv. þm. kom svo víða við áðan, að það mundi þurfa langan tíma til að svara öllum hans fyrirspurnum. En sérstaklega vil ég mótmæla því, að stjórn Sölumiðstöðvarinnar hafi óskað eftir einokunaraðstöðu eða einveldi hér á landi í sambandi við sölu á frystum fiski á erlendan markað. Slík beiðni hefur aldrei komið fram, hvorki frá meðlimum né stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Ég vil lýsa yfir, að allt samstarf á milli þeirra útflytjenda, sem hafa annazt sölu á frystum fiski, sem eru Samband ísl. samvinnufélaga, Fiskiðjuver ríkisins, meðan það var, og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, að samstarfið hefur verið hið ánægjulegasta og aldrei skorizt verulega í odda í sambandi við sölu þessara fyrirtækja á frystum fiski á erlendum markaði.

Mér er ekki ljóst, hvaðan hv. þm. hefur þá tölu, að á s.l. ári sé búið að fjárfesta í Bandaríkjunum 3–4 hundruð milljónir á vegum Coldwater Seafood Corporation. Það er ekki rétt að leika sér með slíkar upphæðir og slá því fram sem staðreynd, sem ég veit að hv. þm. hefur engan skilning fyrir að séu réttar.

Eins og hv. þm. tók fram áðan, urðu töluverðar umræður hér í hv. deild á síðasta þingi, er hv. þm. flutti till. til þál. að mestu samhljóða þeirri, sem hann flytur nú. Hv. 3. varaþm. Austf., Einar Sigurðsson, sem er jafnframt varaformaður S. H., gerði þá ýtarlega grein fyrir störfum S.H. í Bandaríkjunum.

Það er rétt fram tekið hjá hv. 3. þm. Reykv., að margt hefur skeð á síðasta ári, sem hefur valdið því, að meðlimir Sölumiðstöðvarinnar hafa átt lengi fé sitt ógreitt frá sölusamtökunum eða frá S.H., og stafar mikið af því, að við gátum ekki með eðlilegum hætti selt fisk til Rússlands fyrri hluta ársins 1961 af þeirri einu ástæðu, að verð það, sem Rússar vildu borga á þeim tíma, var ekki unnt að vinna fisk fyrir í frost. Það var fyrst, eins og ég tók fram áðan, eftir að fyrrv. menntmrh. Rússlands fékk því áorkað, að verðið var hækkað um £ 12 eða upp í £ 140, að það var hægt að sinna þeim markaði að einhverju leyti. En þó teljum við, sem erum í stjórn þessara samtaka, verðið enn of lágt. Ástæðan fyrir því, að jafnmikið hefur verið sent af frystum fiskflökum og fiskblokkum til Bandaríkjanna, er einvörðungu sú, að verðið er þar mun hagstæðara. Það er rangt að bera það á stjórn S. H., að hún óski eftir að flytja fiskinn til Bandaríkjanna frekar en á Evrópumarkaðinn. Það er með öllu rangt. Og eins og ég tók fram áðan, vill stjórn sölusamtakanna eindregið halda góðum verzlunarháttum við Rússland. En að sjálfsögðu reynum við þar eins og á öðrum mörkuðum að fá eins hagstætt verð og unnt er fyrir afurðir okkar. Þar hafa Rússarnir verið mjög þungir í skauti. í nær sjö ár fékkst engin hækkun á þorskflökum til Rússlands, á sama tíma sem fiskur fór þó hækkandi á öðrum mörkuðum.

Hv. flm. tillögunnar hefur óskað eftir, að henni verði vísað til hv. fjhn. og til síðari umræðu. Á þessu stigi málsins vil ég ekki segja meira um þetta mál, en mun, þegar nál. liggur fyrir frá hv. fjhn., taka nánar til máls um tillöguna.