18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. gerði ég grein fyrir afstöðu okkar fulltrúa Framsfl. í fjvn. til fjárlagaafgreiðslunnar. Við gerðum þá nokkra tilraun til þess að fá samþykktar leiðréttingar, er við töldum nauðsyn bera til að yrðu gerðar á fjárlagafrv., áður en það yrði afgreitt hér frá hv. Alþingi. Hinar veigamestu voru þær, að inn á fjárlög yrði tekin greiðsla til atvinnuleysistryggingasjóðs, 28.5 millj. kr., en það hefur ekki verið gert, og raunverulega verða þess vegna fjárlögin afgreidd með halla, þar sem lántaka fer fram til þess að greiða þetta lögboðna iðgjald. Enn fremur gerðum við tilraun til að fá tekna inn hækkaða fjárveitingu til niðurgreiðslna á vöruverði í landinu og studdumst við þær upplýsingar, sem við höfðum fengið hjá fjvn., hver sú fjárhæð væri. Þessar tillögur báðar voru felldar, svo að hér eru þess vegna einnig vantalin útgjöld á fjárlagafrv.

Við umr. um niðurgreiðslurnar kom það fram hjá hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi, að niðurgreiðslum yrði haldið áfram, svo sem verið hefði, og verðlag mundi ekki hækka vegna breytinga á þeim. Í öðru lagi, að engar breytingar væru ákveðnar um tilhögun á niðurgreiðslunum. í þriðja lagi, að við útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarafurðum yrði staðið. Það kom einnig fram við 2. umr. fjárlaganna, að framleiðsluráð landbúnaðarins hefði ekki verið beðið um neina áætlun á útflutningsuppbótunum á næsta fjárlagaári. Þess vegna var órökstutt það, sem haldið var fram af hæstv. fjmrh. við 2. umr. fjárlagafrv. um aðild þess að þeim áætlunum, sem upp höfðu verið gefnar. Enn fremur var upplýst, að áætlun þeirra frá s.l. ári hefði staðizt að verulegu leyti. í þriðja lagi var það svo upplýst hér við 2. umr., að samtök bændanna í landinu hefðu haft forustu um útflutning á dilkakjöti, þeir hefðu verið brautryðjendur í frystihúsabyggingum á sínum tíma og fylgzt með þróuninni á sviði útflutningsmála. Þess vegna voru þau orð, sem voru sögð um það í aðra átt, órökstudd og heyrðu til sleggjudómum.

Þegar fjárlögin verða afgreidd hér frá hv. Alþingi, sem nú líður óðum að, má gera ráð fyrir því, að um 100 millj. kr. halli sé á þeim, miðað við, að þessir tveir liðir, er ég hef gert grein fyrir, eru þar vantaldir. Niðurstöðutölur fjárlaga ættu því að vera um 1850 millj. kr., ef rétt væri fram talið. Hæstv. ríkisstj. hefur sinn hátt á þessu, og ætla ég ekki að gera fleiri tilraunir eða við fulltrúar Framsfl. í fjvn. til þess að koma fram leiðréttingum á fjárlagafrv. Ég vil enn fremur benda á það, að póst- og símamálastjóri lagði fyrir fjvn. leiðréttingar á áætlun pósts og síma upp á 13.2 millj. kr., og þegar ég ræddi þann þátt í ræðu minni hér um daginn, þá miðaði ég við, að sú leiðrétting hefði verið gerð. Nú hefur meiri hlutinn hins vegar ekki tekið upp þessa leiðréttingartölu, og er því áætlun pósts og síma, bæði um tekjur og gjöld, 13.2 millj. kr. lægri en póst- og símamálastjóri ætlast til, og man ég ekki til þess, að slíkar leiðréttingar frá embættismönnum hafi ekki verið teknar til greina fyrr, þar sem þær hafa ekki áhrif á niðurstöðutölur fjárlaga.

Út af tillögum þeim, sem fram koma við þessa umr., vil ég segja það, að ég fagna þeim leiðréttingum, sem gerðar hafa verið, eins og leiðréttingu á sundskyldunni, sem ég benti hér á við 2. umr. að væri vantalið. Þá hefur hv. meiri hl. tekið upp till. okkar fulltrúa Framsfl. um að hækka fjárveitingu til lánasjóðs námsmanna, enda gerðum við rökstudda grein fyrir því, að hér væri nánast um leiðréttingu að ræða. Að nokkru hefur verið tekin upp till. okkar um að hækka fjárveitingu til að byggja á ríkisjörðum, þó að þar sé of skammt gengið. Við fögnum því, sem áunnizt hefur í rétta átt í þessum atriðum, og skiptir það okkur engu máli, þó að hv. stjórnarliðum þyki henta betur að fella tillögur fyrst og taka þær svo upp á eftir.

Þá vil ég í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna geta þess, að það hefur verið venja nú a.m.k. við afgreiðslu þriggja síðustu fjárlaga að skipta fjárveitingu til flugvalla á einstaka flugveili, þ.e. framkvæmdafénu. En fyrir nefndinni lá ekki nein skiptitillaga frá flugráði að þessu sinni, og verður að telja það mjög miður farið. Þess vegna gerir fjvn. ekki till. um að skipta þessu fé nú, en ég vil leggja á það ríka áherzlu, að slíkt má ekki endurtaka sig.

Þá er eitt atriði, sem ég vil víkja að enn þá, áður en ég lýk máli mínu, og það er afgreiðsla á fjárveitingum til byggingar skóla. Frá því að lögin frá 1955 um stofnkostnað skóla og fjármál skóla og eftirlit með þeim komu til framkvæmda, hefur verið samstaða innan fjvn. um undirbúning að skólabyggingaframkvæmdum. Hefur það verið bæði í tíð núv. ríkisstj. og einnig fyrrv. ríkisstj. Það hefur sýnt sig, að því miður hefur ekki tekizt eins vel framkvæmdin á þessari löggjöf og til var ætlazt, og bar það á góma við fjárlagaafgreiðslu, bæði í fyrra og eins við 2. umr. þessa fjárlagafrv. Frsm. meiri hl. fjvn. við afgreiðslu fjárlagafrv. 1961 lagði á það ríka áherzlu, eins og ég drap á í ræðu minni við 2. umr. fjárlagafrv. nú, að þessum málum yrði komið í traustara horf en verið hefði og gefin yrði út sérstök reglugerð um það, hvernig með þennan undirbúning skyldi fara. En í lögunum er lögð á það megináherzla, að undirbúningi sé hagað á þann veg, að teikningar séu fullgerðar og kostnaðaráætlun einnig, áður en samþykki ráðuneytis og Alþingis kemur til um fjárveitingar. Þegar gengið var frá undirbúningi fjárlagafrv. til 2. umr., voru teknir upp aðeins þrír nýir skólar, og var þá gert ráð fyrir því að taka til þeirra 1/5 af fullgerðri áætlun og miðað við, að frá teikningum og kostnaðaráætlun væri þá fyllilega gengið. Í sambandi við þá afgreiðslu voru einnig leiðréttar nokkuð áætlanir um eldri skóla, sem höfðu verið gallar á, og var samstaða um þessa leiðréttingu og einnig um það að láta bíða til næsta hausts leiðréttingar á áætlunum þriggja skóla, sem hafði verið vantalin eða vangerð áætlun um, þegar samþykkt hafði verið. Það var skoðun okkar, er að þessu samkomulagi stóðum, að frekari aðgerðir í skólamálum yrðu ekki gerðar, nema a.m.k. leitað væri eftir samþykki allra nefndarmanna fyrir því. Hins vegar gerðist það á síðasta fundi nefndarinnar, að þá kom bréf frá hæstv. menntmrh., þar sem lagt var til að taka upp fjárveitingu til fimm nýrra skólahúsa. Nú þarf ekki orðum að því að eyða, að öllum er ljós þörfin á því að hefja þessar skólaframkvæmdir, bæði hér í Reykjavík og úti um landið, enda hefur mjög verið á það sótt undanfarin ár, að það yrði gert. En það, sem gerðist í sambandi við þessar fjárveitingar, er það, að hér var búið að ákveða að hefja byggingu á einum skóla í Hamrahlíð, og var gert ráð fyrir, að sú fjárveiting, sem til þeirrar skólabyggingar gengi, yrði tæpar 2 millj. kr. eða fimmti hluti. En með bréfi hæstv. menntmrh. er lagt fyrir að hefja hér byggingu á þremur nýjum skólum til viðbótar þeim eina, er fyrir var, en hækka fjárveitinguna frá tæpum 2 millj. upp í 2½ rúmlega. Þetta kom okkur nm. mjög á óvart, og ég held, að það sé óhætt að segja, að það hafi komið fleirum á óvart en okkur minnihlutanefndarmönnum í hv. fjvn. Hæstv. ráðh. lagði á það áherzlu í sambandi við undirbúning að skólabyggingunum fyrir 2. umr., að það, sem gera þyrfti fyrst, væri leiðrétting, og það bæri að keppa að því að gera áætlanirnar raunhæfar, þær sem samþykktar eru. Samkv. því, sem fyrir liggur í fjvn. til upplýsingar um þessa skóla, þá er til þeirra skóla, sem gerð er till. um nú hér í Reykjavík, hluti ríkissjóðs af þeim kostnaði, eins og það liggur fyrir fjvn. í skýrslu fræðslumálastjóra, upp á 32 millj. kr. En samkv. þeim breytingum, sem gerðar voru með bréfi hæstv. menntmrh., eru þessar heildarfjárveitingar lækkaðar að hluta ríkissjóðs niður í 12.7 millj. kr., eða nærri um 2/3. Ástæðan til þess, að þessar breytingar eru gerðar, er sú, að með bréfi hæstv. ráðh. er farið inn á þá leið, sem talin er hafa reynzt illa, að skipta skólabyggingunum niður í áfanga og taka ákveðna fjárveitingu í aðeins hluta af þessum byggingum. Reynsla fyrri ára hafði sýnt, að þessi áfangaskipting hefði gefizt illa, og þess vegna hafði myndazt mikill greiðsluhali, sem nú átti að ganga að því að leiðrétta. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. nú horfið frá þeirri stefnu, sem hann lýsti fyrir nefndarmönnum um daginn, að ætti að vera númer eitt, að taka inn raunverulegar áætlanir, heldur er hér tekin upp áfangaleið í ríkara mæli en gert hefur verið, og það er tekið fram í bréfi hæstv. ráðh., sem lá fyrir hv. fjvn., að teikningar og áætlanir væru ekki fullgerðar, en ráðuneytið mundi sjá um, að það yrði gert. Ég verð að segja um þetta atriði, að ég tel þetta mjög miður farið. Í fyrsta lagi er þarna brotið í blað um samstöðu fjvn. að undirbúningi þessara mála. Það hefur verið einlægur vilji fjvn. að vinna að samstöðu í þessum málum, og t.d. átti ég hlut að því í fyrra að vinna að þessu máli með hv. 2. þm. Norðurl. e., Jónasi G. Rafnar, og var á engan hátt reynt að fara á bak við okkur minnihlutanefndarmenn í framkvæmd eða undirbúningi þessa þáttar fjárlaganna. Og ég tel það enn þá fráleitara, að hæstv. ráðh. skyldi leggja til, að fjvn. tæki til samþykktar slík mál, þar sem fyrir liggur af hans hendi, að vantar fullnaðarteikningar og fullnaðarkostnaðaráætlun, eins og lögin mæla þó fyrir að eigi að vera frumskilyrði fyrir því, að fjárveiting til slíkra bygginga sé samþ. á Alþingi.

Út af fyrir sig er ekkert um það að segja, og ég er ekki að efa nauðsyn þess, að þessar byggingar þurfi allar að framkvæmast. En það á að taka kostnaðaráætlanir þeirra í heild, eins og þær liggja fyrir, og yrði þá áætlun eða framkvæmd upp á 40 millj. á næstu 5 árum, ef fjárveitingin væri tekin öll eins og hún raunverulega liggur fyrir, því að þessi áfangaskipting mun aðeins verða til þess að halda lengra inn á þá leið, sem nú átti að fyrirbyggja, og koma í veg fyrir, að hægt verði að gera þær leiðréttingar, sem allir virtust vera sammála um, að nauðsyn bæri til að gera.

Ég ætla ekki að þessu sinni að hafa um þetta fleiri orð, en ég harma það mjög, að inn á þessa braut skyldi vera farið, og vil minna á það, að 17. liður í ábendingum meiri hl. fjvn. við fjárlagaafgreiðslu 1961 var einmitt að leggja áherzlu á það að undirbúa vel slíkar áætlanir um skólabyggingar, og verður að segja, að hæstv. ríkisstj. lætur ekki á sér standa um það, sem fyrirheit eru gefin um, að þverbrjóta þau.

Við fulltrúar Framsfl. í fjvn. höfum gert nokkrar brtt., sem eru fyrst og fremst í því fólgnar að hækka örlítið tekjuáætlunina, og sýnist okkur, að engum rökum hafi verið beitt gegn því, að hana mætti hækka nokkuð frá því, sem gert er, enda hefur hv. meiri hl. gert till. um hækkun á verðtollinum frá því, sem síðast var, og sýnir það, að tekjuáætlunin er nokkuð laus í reipunum.

Þá gerum við till. um, að hækkuð verði fjárveiting til íþróttasjóðs. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr. fjárlagafrv., hver nauðsyn sjóðnum væri á aukinni fjárveitingu, og gerði mér þá von um, að hv. stjórnarliðar mundu hækka fjárveitingu til hans eitthvað meira en orðið er. En fyrst svo er ekki, gerum við till. um hækkun til hans.

Enn fremur höfum við endurtekið till. okkar um hækkun til jarðræktarvélakaupa, en um minni fjárhæð nú en við 2. umr.

Svo höfum við gert till. um að hækka til mjólkurbúa og smjörsamlaga, meira en gert er ráð fyrir í till. meiri hlutans.

Að þessu sinni mun ég svo ekki ræða þetta fjárlagafrv. öllu frekar, nema tilefni gefist til, en niðurstaða eða mynd sú, sem fjárl. gefa, er, að þau eru hærri en fyrr, það er minna varið til uppbyggingar hlutfallslega af tekjum fjárlaganna og byrðarnar eru æ meira færðar yfir á hinn almenna borgara.