19.02.1962
Sameinað þing: 51. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í D-deild Alþingistíðinda. (3647)

116. mál, viðskipti fjármálaráðuneytisins við Axel Kristjánsson

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Till. samhljóða þessari var til umræðu á Alþingi á s.l. vetri, og ræddi ég hana þá nokkuð ýtarlega og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka hér það, sem þá var sagt. En með því að hæstv. fjmrh., sem mun hafa ætlað að taka þátt í umræðunum, er fjarverandi í dag vegna veikinda, sé ég ástæðu til að segja hér aðeins nokkur orð.

Hér er um tvö mál að ræða, annars vegar útgerð á togaranum Brimnesi, eign Seyðisfjarðarkaupstaðar, og hins vegar ábyrgð vegna kaupa á togaranum Keili, sem Ásfjall h/f keypti fyrir nokkru.

Að því er Keilisábyrgðina varðar, er frá því að skýra, að Axel Kristjánsson framkvstj. í Hafnarfirði sneri sér til ríkisstj. snemma á árinn 1959 og tjáði henni, að hann ætti kost á að kaupa í Þýzkalandi togara byggðan á árinu 1950. Eigendur vildu selja þennan togara í því ástandi, sem hann væri, en hefðu þó léð máls á því að gera hann í stand, þannig að hann væri í fullkomnu ástandi, og vildu þá selja hann á þeim mun hærra verði sem viðgerðinni svaraði. Hann kvaðst hafa áhuga á því að gera tilboð í togarann viðgerðan og kaupa hann þannig, ef hann gæti fengið ríkisábyrgð fyrir 80% af kaupverðinu. Ríkisstj. sneri sér til fjvn. Alþ. með þetta mál, óskaði eftir heimild til þess að fá að gefa út slíka ábyrgð, og var heimildin samþ. á Alþ. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1959.

Eftir að þetta gerðist, lagði kaupandinn fram kaupsamning fyrir ríkisstj. ásamt ýtarlegri lýsingu á því, í hvaða ástandi skipið væri og hvaða viðgerð það hefði fengið og ætti að fá. Að fengnum þeim upplýsingum var ábyrgðin afgreidd í fjmrn. með nákvæmlega sama hætti og verið hefur um allar aðrar slíkar ábyrgðir. Eigandi skipsins var svo óheppinn, að þegar togarinn kom til landsins, þá steðjaði að mikill aflabrestur hjá togaraflotanum undantekningalaust, og þeir byrjunarerfiðleikar samfara öðrum afborgunum, sem áttu að vera af lánum hvílandi á skipinu, urðu til þess, að eigendurnir sáu sér ekki fært að halda skipinu áfram, og ákvað því ríkissjóður, strax og fyrstu vangreiðslur urðu, að ganga að skipinu, en láta það ekki bíða, eins og þó hefur tíðkazt nú um skeið í sambandi við togaraflotann. Ábyrgðin, sem hér er um að ræða, var þá gefin út nákvæmlega samkv. heimild Alþingis, og þó að ríkissjóður hafi þarna í upphafi orðið að borga nokkru meira en ábyrgðinni nemur, þá skiptir það mestu máli, að um var að ræða sjóveð og aðrar kröfur, sem komu til greiðslu á undan ábyrgðaryfirlýsingunni sjálfri, eins og alþekkt er um ábyrgðir og greiðslur í sambandi við skip og útgerð. Ég þekki það ekki persónulega, en mér er tjáð, að Ásfjall hafi verið gert gjaldþrota og bú þess farið til gjaldþrotaskipta, og fer þá fram að sjálfsögðu í sambandi við þau gjaldþrot sú rannsókn, sem lögum samkv. á þar fram að fara.

Um hitt málið, Brimnesútgerðina, er þess að geta, að í árslok 1958 var svo komið fyrir eigendum þess skips, að þeir sáu sér ekki fært að halda áfram útgerð þess. Skipið var látið liggja um nokkurn tíma á Seyðisfirði og leitað eftir því, að ríkið hlypi þar undir bagga, annaðhvort með því að veita Seyðfirðingum lán eða með því að ríkið tæki að sér útgerð skipsins, á meðan verið væri að athuga um framtíð þess. Það varð að ráði, að Alþ. heimilaði ríkisstj. að annast útgerð Brimness fram til 1. sept. 1959. Strax eftir að þessi ákvörðun hafði verið tekin, þá þurfti að fara að athuga um framkvæmdastjóra fyrir skipið, og að ráði Seyðfirðinga var leitað til Axels Kristjánssonar um þær framkvæmdir. Hann var fáanlegur til þess að taka það að sér, og eftir að bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hafði í sérstakri ályktun á bæjarstjórnarfundi samþykkt, að hann skyldi ráðinn framkvæmdastjóri, fyrst hann væri fáanlegur til þess, þá hvarf ríkisstj. endanlega að því ráði. Á þeim tíma, sem ríkissjóður gerði togarann Brimnes út, er mér nær að halda, að útgerð togarans hafi gengið betur en dæmi voru til um útgerð þess togara, frá því fyrst að hann var keyptur til landsins. Ég hygg, að Brimnes hafi fyrst verið keypt um 1957, og á útgerð þess höfðu allan tímann, frá því að fyrst hann kom, verið hinir mestu erfiðleikar, og ríkissjóður hafði hvað eftir annað orðið að hlaupa undir bagga og taka á sig allverulegar fjárgreiðslur í því sambandi. En þann tíma, sem ríkið gerði Brimnesið út, gekk útgerð þess betur en áður, og halli á útgerðinni sjálfri í heild, þegar upp var gert, mun ekki hafa orðið verulega mikill, og þann tíma, sem ég var í fjmrn., eða fram um mánaðamótin okt.–nóv. 1959, hefur ekki verið um það að ræða, að halli hafi orðið á útgerð skipsins. Þegar útgerð togarans síðan var lokið, voru reikningar útgerðarinnar teknir til endurskoðunar af endurskoðunardeild fjmrn. Hefur verið farið rækilega í gegnum þá og sérstök skilanefnd sett til að annast það uppgjör. Það mál er enn til athugunar í fjmrn., og er því ekki lokið, ég skal ekki segja um, hver endanleg afgreiðsla þar verður. En svo mikið vil ég þó fullyrða, að því er ég hef af þessum málum séð, að endurskoðunin og athugunin, sem farið hefur fram í sambandi við reikninga Brimnesútgerðarinnar, meðan ríkissjóður annaðist hana, hefur verið ýtarlegri og skilmerkilegri en menn eiga að venjast í sambandi við skipaútgerð hér, og tel ég vel farið, að svo hefur orðið, til þess að ganga megi úr skugga um það, að öll kurl komi þarna til grafar.

Annars tel ég sjálfsagt, að þessu máli verði vísað til fjhn. og umr frestað, en vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að vegna þess að fjmrh. er ekki mættur á fundinum hér í dag og hafði hugsað sér að taka þátt í umr, málsins, þá verði till. um frestun ekki borin undir atkv., fyrr en hann hefur haft tækifæri til þess að mæta á fundum deildarinnar.