18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki lagt fram neinar till. sem minnihlutaaðili úr fjvn. við þessa umr. Að hinu leytinu mun ég standa að till., sem væntanlega verður hér innan tíðar útbýtt, um nokkur önnur atriði og skal ekki blanda því í þetta mál að svo stöddu. Almennt vildi ég þó segja örfá orð um afgreiðslu þessara fjárlaga.

Það er nú þegar sýnilegt, sem raunar mátti ráða af 2. umr. strax, að hér á að afgr. fjárlög, sem raunverulega eru stórkostleg hallafjárlög. Þetta vill hæstv. ríkisstj. Þó ekki láta sjást á lagasamþykktinni sjálfri og hefur þess vegna gripið til ýmissa ráða til að fela útgjaldaliði fjárlaga, eins og hér hefur áður verið rakið. Á ég þar einkum við ranga áætlunartölu um niðurgreiðslur á vöruverði og útflutningsuppbætur og það tiltæki að borga hluta af lögboðnum útgjöldum ríkissjóðs með skuldabréfum, Þ.e. framlag til atvinnuleysistryggingasjóðsins. Það er þess vegna ekki hægt að segja, að þau fjárlög, sem hér eru að fæðast, séu hallalaus fjárlög, en það mætti kalla þau fjárlög með skuldabréfum.

Hér hefur þegar verið gerð nokkur athugasemd um það, hvernig unnið hefur verið að þeim fjárlagalið, sem fjallar um byggingu nýrra skóla. Það er rétt, að við þau vinnubrögð er mikið að athuga. Í fjvn. hefur verið lögð í það vinna að samræma áætlanir og fjárgreiðslur ríkissjóðs lögum um greiðslu skólakostnaðar, og um þetta hefur verið samkomulag í nefndinni, svo langt sem það náði. Á hinn bóginn fagna ég því, að tekin hafa verið inn nú við 3. umr. fleiri ný skólahús en ráðgert var í upphafi, því að það er auðvitað alrangt sjónarmið, að ríkinu sparist nokkuð á því að halda svo í um leyfi til byggingar nýrra skólahúsa, að þar safnist fyrir þarfir, sem svo verður að sinna í stórum slurkum síðar. Ég álít, að það þurfi ekki einasta að ganga svo frá, að ríkissjóður standi við sínar skuldbindingar fjárhagslega gagnvart þeim aðilum, sem skólahús byggja og ríkið á að greiða hluta af kostnaði þeirra, heldur þurfi líka að leyfa á hverju ári byggingu nýrra skóla, eftir því sem óumdeildar þarfir kalla á. Þess vegna er ég að því leyti samþykkur þeim breytingum, sem hér hafa verið gerðar í sambandi við skólamálin, enda þótt ég átelji þau vinnubrögð, sem hér hefur verið lýst, að eftir að fjvn. hefur gert sínar áætlanir, þá skuli áætlanalaust vera skotið inn til nefndarinnar málum, sem varða skólabyggingar, og það frá sjálfri ríkisstj., og þannig efnt til þess, að tekin verði inn á fjárlög skólahús, sem liggja ekki fyrir fullkomnar áætlanir um, enda er það ranglátt gagnvart hinum, sem eiga sínar umsóknir inni, hafa rökstutt fullkomlega þarfir sínar til nýrra skólabygginga og auk þess skilað öllum tilskildum áætlunum. Sem sagt, vinnubrögðin eru slæm. En að hinu leytinu stefnir það í rétta átt að halda ekki of í, að byrjað verði á byggingu nýrra skóla. Ég mun hér eiga aðild að till. um fleiri skólabyggingar, þótt sú till. sé ekki komin til útbýtingar enn þá og verður hún vafalaust rædd hér, um það er þessari umr. lýkur.

Þá er eitt atriði í afgreiðslu fjárlaganna, sem ég leyfi mér að mótmæla alveg sérstaklega, en það er það atriði, sem varðar flugvallagerðina í landinu. Á nokkrum fjárlögum undanfarinna ára hefur verið tekinn upp sá háttur að sundurliða á sjálfum fjárlögunum þær framkvæmdir, sem flugvallaféð á að renna til, á hliðstæðan hátt og sundurgreint er í fjárlögum, hvert vegagerðarfé á að renna, hvert brúargerðarfé á að renna o.s.frv. Þessi háttur hefur verið látinn undan dragast nú, og vil ég sérstaklega mótmæla því. Það hafa komið til fjvn. tilmæli frá stjórn flugmálanna um, að þetta verði ekki sundurliðað í fjárlögum að þessu sinni, enda sé í rauninni fyrir fram búið að ráðstafa öllu fénu. Í fjvn. hefur verið beðið um upplýsingar um, hvernig þær ráðstafanir væru. Þær hafa ekki verið lagðar fram, og þetta tel ég vera frá mörgum hliðum skoðað fráleit vinnubrögð og mótmæli þeim fyrir mitt leyti og allra frekast ef þetta skyldi eiga að verða upphafið á því, að framvegis verði þetta framkvæmdafé ekki sundurliðað á fjárlögum, þannig að þm., sem þó eru fulltrúar fólksins í landinu óumdeilt, fái ekkert um það að segja og enga hönd í bagga að hafa um það, hvernig þessu ríkissjóðsfé er varið, heldur verði það gert á eindæmi flugmálastjórnarinnar. Þessi vinnubrögð eru fráleit, og þeim mótmæli ég.

Að lokum vildi ég vekja athygli á því, að alveg um leið og verið er að afgr. fjárlög á Alþingi, þar sem fjallað er um tekjuliði ríkissjóðs jafnt sem gjaldaliðina, þá kemur það fram í aðalmálgagni ríkisstj., að verið er að ráðgera utan þingsala að breyta og jafnvel breyta stórkostlega sumum tekjuliðum fjárlaganna, sem hér á að fara að samþykkja. Ég á hér við benzíngjaldið, innflutningsgjald af benzíni, en það er á allra vitorði, enda viðurkennt, að um þessi mál er nú verið að fjalla utan við Alþ. Ég ætla ekki að segja fleira um það að svo stöddu, en ég tel slíkt vera fráleit vinnubrögð og móðgun við Alþingi, en beini þeirri sérstöku fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvers megi vænta í þessum efnum. Stendur það til, að utan Alþingis verði kannske sama daginn eða daginn eftir að fjárlög eru samþykkt ákveðnar annars staðar ráðstafanir, sem breyta í verulegum atriðum fjárlagalið eins og t.d. innflutningsgjaldi af benzíni? Ég vil taka það sérstaklega fram, að jafnvel þótt sú verðhækkun á benzíni, sem talað hefur verið um, sé hugsuð í einhverju öðru formi, þá er ég hér ekki fyrst og fremst að spyrja um formið, heldur hitt: Er í ráði, að þessu verði breytt nú á næstunni með einhverjum öðrum aðferðum en þeim, sem Alþingi fjallar um, eða stendur til að leggja fyrir Alþingi ný lög eða nýjar reglur um verðlag á þessari vörutegund, þannig að það hafi til muna áhrif á fjárhag ríkissjóðs?