22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

116. mál, viðskipti fjármálaráðuneytisins við Axel Kristjánsson

Flm. (Geir Gunnarsson):

Hæstv. forseti. Það mál, sem hér er til umr., rakti ég svo ýtarlega á mánudaginn, að ég tel ekki ástæðu til að gera það öllu frekar að þessu sinni. Aðalatriðið er, að þetta mál komist nú sem fyrst til nefndar og fái afgreiðslu þar. En vegna ræðu hæstv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., vildi ég aðeins benda á, að í ræðu hans s.l. mánudag kom fram alger viðurkenning á því, sem ég hafði haldið fram, að einu upplýsingarnar, sem fjmrn. aflaði sér um togarann Keili, áður en ríkisábyrgðin var veitt, voru frá Axel Kristjánssyni sjálfum.

Enn reyndi hæstv. ráðh. að gera þingið sekt í þessu máli, sem mun valda ríkissjóði 9 millj. kr. tjóni, þar sem ekkert kemur upp í tjónið. Allt, sem fyrir skipið fékkst, mun hafa farið til þess að greiða sjóveð og kostnað, sem ríkið hafði, meðan það átti skipið.

Hæstv. ráðh. hélt sér eingöngu við það, að Alþ. hefði samþ. ríkisábyrgðina, en hann sleppti að ræða þau skilyrði, sem sett voru í ábyrgðarheimildinni, bæði um gild veð og um upphæð ábyrgðarinnar. En eins og ég hef áður rakið, hefur hvort tveggja komið fram, að ófullnægjandi veð, reyndar einskis virði, voru tekin til tryggingar, án þess að leita annarra, og miklu hærri ábyrgð var veitt en þingið heimilaði.

Þá hélt hæstv. ráðh. því enn fram, að ríkisábyrgð sú, sem veitt var vegna togarans Keilis, hafi verið veitt með sama hætti og aðrar ríkisábyrgðir. Ég held, að rækilega hafi verið sýnt fram á, að ábyrgðin vegna Keilis var ekki veitt með venjulegum hætti, heldur mjög óvenjulegum og þó frekast alveg einstökum hætti. Þær ríkisábyrgðir, sem veittar höfðu verið áður samkv. samþykktum Alþingis, voru yfirleitt veittar vegna nýrra eða nýlegra skipa, en Keilir var 10 ára gamalt, úrelt og vélvana skip, sem opinbert fyrirtæki hafði áður hafnað að kaupa, vegna þess að það væri ónothæft fyrir Íslendinga. Auk þess var verð það, sem upp hefur verið gefið á togaranum, mjög tortryggilegt, þegar tekið er tillit til þess, á hvaða verði skipið hafði áður verið boðið. Það hefði því verið sérstök ástæða til þess fyrir fjmrn. að fara varlega og misnota ekki samþykktir Alþingis og gæta að skilyrðum þeim, sem Alþ. setti. Þá hafa þær ríkisábyrgðir, sem áður hafa verið veittar, yfirleitt verið til bæjarfélaga, þannig að viðkomandi bæjarfélag stendur áfram ábyrgt fyrir lánum, þótt útgerðin fari illa, og þó að það sé nú að takast að leggja ýmis togarafyrirtæki að velli, þá lifa væntanlega bæjarfélögin áfram og þrauka viðreisnarstefnuna. En hlutafélag, sem verður gjaldþrota af einni eða annarri ástæðu, gufar þar með upp og stendur í engri ábyrgð fyrir lánunum eftir það. Hér var önnur sérstök ástæða til þess að fara varlega og gæta þess, að ekki væru misnotaðar samþykktir Alþingis, enn eitt atriði, sem veldur því, að ríkisábyrgðin vegna Keilis er ekki með sama hætti og allar aðrar ríkisábyrgðir, eins og hæstv. ráðh. hélt fram. En það er öðru nær en að nokkur aðgæzla hafi verið viðhöfð í þessu efni. Það lá þegar fyrir, að hlutafé Ásfjalls h/f nam aðeins 100 þús. kr. Ég veit í rauninni ekki, hvort það hefur dugað fyrir stimpilgjöldum. Og það nam aðeins 1/50 hluta af uppgefnu kaupverði togarans. Í ábyrgðarheimildinni frá Alþ. var kveðið á um, hversu miklu ábyrgð ríkissjóðs mætti nema, þ.e.a.s. allt að 4 millj. 320 þús. kr. En nú er í ljós komið, að ábyrgð hefur verið veitt á lánum, sem koma til með að kosta ríkissjóð um 9 millj. kr. í vöxtum og afborgunum eftir núverandi gengi. Þetta er líka atriði, sem er, sem betur fer, einstakt um ríkisábyrgðir. Það er því fráleit staðhæfing hjá hæstv. ráðh., að ríkisábyrgð vegna Keilis hafi verið veitt í einu og öllu með sama hætti og aðrar.

Eins og ég hef rakið, er hér í fjölmörgum atriðum um einstakt atferli að ræða, misbeitingu og brot á samþykktum Alþingis, og það er full ástæða fyrir hv. Alþ. að taka þegar í taumana, þegar svo er að farið, ella er óvist um, hvað hinir hæstv. ráðherrar telja sér úr þessu heimilt.

Hæstv. ráðh. reyndi lítils háttar að koma fram með skýringar vegna Brimneshneykslisins. En eins og ég áður rakti, var skipið tekið undan allri útgerðarstjórn og einn einasti maður látinn um að gera skipið út á kostnað ríkissjóðs, og auk þess var það gert lengur út á ábyrgð ríkissjóðs en þingið hafði heimilað. Um það litla, sem hæstv. ráðh. sagði um það mál, má segja nákvæmlega það sama og endurskoðendur ríkisreikninganna segja á einum stað í athugasemdum sinum með ríkisreikningnum 1960, um eitt af fylgiskjölum Axels Kristjánssonar í reikningum Brimness, en það er svo hljóðandi:

„Ekki hefur fengizt skýring á þessum lið, sem nokkurs virði er.“