22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

116. mál, viðskipti fjármálaráðuneytisins við Axel Kristjánsson

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að taka mjög undir það, að orðið verði við því, sem tili. til þál. á þskj. 203 fer fram á. Ég álít, að eftir að við höfum heyrt glögga framsögu af hálfu 1. flm. og ræður tveggja ráðh., þá sé orðið alveg greinilegt, að hér er um mál að ræða, sem Alþingi verður að láta til sín taka. Þetta er mál, sem má ekki eingöngu vera í stjórnarráðinu, eins og mér virðast dálitlar tilhneigingar koma fram til, bæði frá hæstv. fyrrv. og núv. fjmrh.

Höfuðatriði í þessu er, að Alþ. hefur veitt fjmrh. heimild til að ábyrgjast allt að 4 millj. 320 þús. kr. lán og það hefur raunverulega ábyrgzt miklu hærri upphæð. Og spurningin, sem þess vegna liggur fyrir, er sú: Hver er persónuleg ábyrgð fjmrh., — í þessu tilfelli mundi það vafalaust vera fyrrv. fjmrh., — á þessu atferli? Og það er hlutur, sem Alþ. verður að láta til sín taka, þannig að hér er um að ræða mál, sem hefur ekki aðeins þýðingu í þessu tilfelli, sem hér er um að ræða, heldur einnig framvegis. Ef það ætti t.d. framvegis að verða svo, að Alþ. samþykkir að heimila fjmrh. að taka ábyrgð upp á 1 millj. til einhvers og hann gengur síðan í 10 millj. kr. ábyrgð og sleppur með slíkt, þá er auðséð, að það er búið að afhenda algert einræðisvald í hendur viðkomandi fjmrh. yfir ábyrgðum ríkissjóðs. Og á sama tíma sem er verið að fara fram á, og er að sumu leyti tiltölulega skiljanlegt, einmitt af hálfu núv. hæstv. fjmrh., að það sé haft meira eftirlit með því af hálfu ríkisstj., hvernig farið er með og fer um ábyrgðir þær, sem Alþ. veitir, þá er ekki óeðlilegt, að Alþ. framfylgi sinum kröfum um ábyrgð fjmrh., hvernig hann fer með þær ábyrgðir, sem Alþ. hefur heimilað honum að ganga í. Hér er rannsóknaratriði á ferðinni, sem er alveg afgerandi fyrir allt vald Alþingis um fjárveitingar og um allt framtíðarhlutfall á milli Alþ. og fjmrh. í þessum efnum. Það hefur verið gengið í meiri ábyrgð en heimilað hefur verið með fjárlögum.

Hæstv. núv. fjmrh. hefur ekki í þeim fáu orðum, sem hann sagði, gefið neina yfirlýsingu um, hvernig hann áliti að ætti að taka á þessu broti. Það skil ég að ýmsu leyti vel. En það þýðir, að Alþ. verður því meira að láta til sín taka um, hvernig þarna skuli fara að. Raunverulega er brot fyrrv. fjmrh. ekki það eitt að hafa ábyrgzt meira en hann hafði heimild til frá hálfu Alþingis. Alþ. lagði líka áherzlu á í sinni samþykkt, að það væru settar tryggingar, sem ríkisstj. skyldi meta gildar. Við höfum að vísu ekki fengið enn þá upplýsingar um, hvaða tryggingar þetta voru, alveg til fulls, en eftir því sem bezt er vitað, þá er það aðeins skipið sjálft og kannske þessar 100 þús. kr. sem sé hlutaféð. M.ö.o.: það virðist ekki hafa verið gerð gangskör að því að fá neinar meiri tryggingar fyrir þessari ábyrgð ríkissjóðs. Þarna er sem sé í öðru lagi af hálfu fjmrh. um vanrækslu að ræða, um vanrækslu í að framkvæma það, sem Alþ. fól honum að gera. Og það sýnir, að það er brýn nauðsyn á, að Alþ. láti sjálft rannsaka þessi mál.

Ég verð að segja það, að mér finnst ekkert undarlegt, þó að hæstv. núv. og fyrrv. fjmrh. séu ekki langorðir um þetta mál, eins og nú er komið. Við munum eftir því, þegar þær ráðstafanir voru gerðar, sem hér er lagt til að rannsaka, þá var það á þessu vori einkaframtaksins, 1959, þegar sá fagnaðarboðskapur var fluttur, að nú ætti einkaframtakið alls staðar að bjarga öllu, og Axel Kristjánsson, sá mikli maður einkaframtaksins, átti að fara að bjarga þessum gjaldþrota togaraútgerðum utan af landi og reisa við togaraútgerðina í nýjum skipum og annað slíkt, — og nú sjáum við, hvernig þessi fagnaðarboðskapur hefur orðið í praxis, og við stöndum frammi fyrir rústunum af þessu og við þurfum að gera þær rústir upp.

Ég vil þess vegna mjög taka undir það, að þetta mál fái nú í fyrsta lagi góða rannsókn í fjhn. og fjhn. ræði við núv. og fyrrv. hæstv. fjmrh. um þetta mál, reyni sjálf að athuga þetta eins vel og hægt er, en síðan verði þetta mál, ef þá fjhn. ekki tekst að rannsaka það til fullnustu, þá verði þessi þáltill. samþ. og þessi rannsóknarnefnd sett á laggirnar. Það hefur frá upphafi þingræðisins á Íslandi verið eitt höfuðatriði, að Alþ. hefði í sínum höndum valdið í sambandi við fjárveitingar, ábyrgðir og annað slíkt, einmitt valdið gagnvart ríkisstj. á hverjum tíma. Og þetta er spurning um að halda á því valdi Alþingis og hafa fullt eftirlit með þessum málum, líka gagnvart hæstv. ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma. Þess vegna álít ég, að fjhn., sem nú fær þetta mál til meðferðar, ætti að sjá til þess, að þetta mál hlyti afgreiðslu á þessu þingi. Það er það mikilvægt, ekki bara sem einstakt mál, heldur líka sem prófmál á vald Alþ. viðvíkjandi fjárveitingu og ábyrgð og eftirlit Alþ. gagnvart fjmrn. á hverjum tíma.