27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3656)

37. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt tveim samþingismönnum mínum úr Suðurlandskjördæmi leyft mér að bera fram fyrirspurn, sem prentuð er á þskj. 41 og er á þessa leið:

„Hvað veldur því, að rafstrengur hefur enn ekki verið lagður frá orkuveitum ríkisins til Vestmannaeyja, þótt rafvæðingaráætlunin geri ráð fyrir lagningu hans 1960 og ráðherra upplýsti í fyrrahaust, að öllum tækniundirbúningi væri lokið og lögn sæstrengsins mundi fara fram síðari hluta júlímánaðar 1961?”

Mál þetta er svo vaxið, að þegar gerð var 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins, þá var Vestmannaeyjakaupstaður settur með sæstreng frá rafveitum ríkisins uppi á landi á þá áætlun á árinu 1960. Þetta var að vísu seinna en allir aðrir kaupstaðir landsins, og þegar sýnt þótti, að undirbúningur að þessu máli gengi ekki eins greiðlega og æskilegt hefði mátt teljast, þá fluttum við Jóhann Þ. Jósefsson, þáverandi þm. Vestmannaeyjakaupstaðar, tillögu hér á Alþingi á árinu 1958, þar sem við lögðum til, að lagningu þessarar raftaugar yrði sérstaklega hraðað, og vitnuðum til þess, að þá þegar voru allir kaupstaðir landsins komnir í samband við raforkuveitur ríkisins utan Vestmannaeyjakaupstaður einn. Og þörfin þar var ákaflega brýn á því að fá samband frá raforkuveitum ríkisins allra hluta vegna, ekki sízt vegna hins vaxandi fiskiðnaðar, sem stöðugt þarfnast meiri raforku þar á staðnum. Þessi tillaga var samþykkt á Alþingi, og lét Alþingi þar með í ljós ákveðinn vilja sinn um það, að þessari rafstrengslögn yrði hraðað sem mest mætti verða, og töldum við báðir flm. þeirrar till., að þar með ætti að geta verið nokkurn veginn tryggt, að lögn þessa rafstrengs yrði ekki siðar á ferðinni en 10 ára raforkuáætlunin gerði ráð fyrir.

En svo leið af sumarið 1960, þegar rafstrengurinn hefði átt að leggjast, án þess að þess sæjust nokkur merki, að hann væri á ferðinni, — það orkar ekki tvímælis, að slíka framkvæmd verður að framkvæma að sumrinu til, — og þar með var sýnt, að rafstrengurinn var orðinn á eftir áætlun. Þá leyfðum við okkur, þeir sömu þingmenn, sem nú gerum þessa fyrirspurn, sem hér er til umræðu á s.l. hausti að gera fyrirspurn um það, hverju það sætti, að lagning þessa strengs drægist svo úr hömlu sem raun bar þá þegar orðið vitni. Hæstv. raforkumrh., Ingólfur Jónsson, svaraði fyrirspurninni þá og gaf upplýsingar, að milli hans ráðuneytis og raforkuveitna ríkisins hefðu farið bréf um málið. Í þeim bréfum var það upplýst, að þá væri öllum tæknilegum undirbúningi að verkinu lokið og ekkert væri því til fyrirstöðu, að rafstrengurinn yrði lagður í júlílok 1961, eins og þar upplýstist.

Í framhaldi af þessu má geta þess, að raforkuveitur ríkisins knúðu fast á Vestmannaeyjabæ um að gera samning um raforkukaup í gegnum þennan streng strax á árinu 1960. Þó að það sé nú annað mál, þá hygg ég, að raforkuveitur ríkisins hafi þar gert hagfelldari samning við Vestmannaeyjakaupstað en þær hafa yfirleitt gert við aðra raforkukaupendur, í skjóli þess, að Vestmanneyingar vildu ekki láta standa á neinu, sem í þeirra valdi kynni að standa, til þess að þessi strengur gæti komið sem allra fyrst í notkun. En það verður greinilega engin raforka seld til Vestmannaeyja frá raforkuveitum ríkisins á þessu yfirstandandi ári, og með því nú að þær dagsetningar, sem hér voru gefnar á s.l. hausti, hafa ekki staðizt og engar upplýsingar hafa komið fram af opinberri hálfu um það, hvað það er, sem hér um veldur, þá höfum við fyrirspyrjendur leyft okkur að gera þessa fyrirspurn, í trausti þess, að hæstv. raforkumrh. upplýsi það, hvað veldur þessari töf og hvenær megi vænta þess, að henni ljúki.