18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 242 hefur samvinnunefnd samgöngumála lagt fyrir nál. um framlög til flóabáta og til vöruflutninga fyrir árið 1962. Samkvæmt till. nefndarinnar, sem hún stendur óskipt að, eru framlög til þessarar þjónustu að mestu þau sömu eða aðeins 62 500 kr. hærri en á yfirstandandi ári.

Þar sem vitað er, að kostnaður við rekstur flóabátanna hefur aukizt verulega eftir hækkun kaupgjaldsins í sumar og aðrar hækkanir, sem fylgdu í kjölfar þess, er nauðsynlegt fyrir eigendur flóabátanna að fá auknar tekjur á næsta ári til að fyrirbyggja taprekstur. Til að bæta eigendum bátanna hinn aukna rekstrarkostnað virðist eðlilegt að heimila þeim hækkun á farm- og fargjöldum, sem ætti að auka tekjur flóabátanna, svo að komizt verði hjá hallarekstri. Skipaútgerð ríkisins mun hafa farið þá leið, eftir því sem forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur tjáð mér, að hækka fargjöld og farmgjöld ríkisskipa, svo að unnt sé að reka þau með minni taprekstri en verið hefur undanfarin ár, sérstaklega á þessu ári.

Ég vil leyfa mér fyrir hönd samvn. samgm. að fylgja úr hlaði till. hennar í sambandi við framlög ríkissjóðs til þessarar þjónustu.

Það eru þá fyrst Norðurlandssamgöngur. Nefndin leggur til, að framlag til Drangs verði 700 þús. kr., en það er sama upphæð og þessi bátur fær á þessu ári. Framlag til Strandabáts verði 160 þús. kr. eins og í ár og rekstrartími bátsins nái yfir allt að 8 mánaða tímabil. Þá leggur nefndin til, að Haganesvíkurbátur fái framlag að upphæð 20 þús. kr., sem er 11500 kr. hærra en sá bátur fær á þessu ári. Það eru ýmsar aðstæður, sem gera það nauðsynlegt, að þessi bátur fái meira framlag í framtíðinni en hann hefur haft á þessu ári og á árinu 1959, meðfram líka það, að flóabáturinn Drangur kemur oftast við að næturlagi á Haganesvík, sem veldur miklum aukakostnaði fyrir þá, sem eiga að bera þann kostnað að skipa upp og út flutningi í bátinn. Til Hríseyjarbáts er lagt til að sé varið 30 þús. kr. og til Flateyjarbáts á Skjálfanda 48 þús. kr., en það eru sömu rekstrarframlög og veitt eru á yfirstandandi ári.

Þá eru Austfjarðasamgöngur. Nefndin leggur til, að framlag til Loðmundarfjarðarbáts verði hækkað í 50 þús. kr. úr 42 þús. kr., sem báturinn hefur á þessu ári. Það hefur komið bréf til samgmn. um aðstoð vegna vélakaupa í þennan bát, en nefndin sá sér ekki fært að verða við þeirri ósk, en ákvað hins vegar að hækka framlagið um 8 þús. kr. Þá er framlag til Mjóafjarðarbáts. Leggur nefndin til, að það verði hækkað um 20 þús. kr., eða úr 90 þús., sem hann hefur í ár, í 110 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að báturinn sé í ferðum á milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar með líkum hætti og undanfarin ár. Þessi hækkun er til komin vegna þess, að póststjórnin hefur gert kröfu til þess, að báturinn haldi uppi vikulegum ferðum á milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar þann tíma, sem er ekki hægt að komast á snjóbíl yfir Oddsskarð, og af þessu framlagi, 110 þús. kr., er gert ráð fyrir að nokkuð gangi til snjóbíls, sem annast ferðir á milli Seyðisfjarðar og upp á Hérað, og að eigandi bílsins fái 30 þús. kr. af upphæðinni. Þessi venja hefur skapazt á síðustu árum.

Þá eru Suðurlands- og Vestmannaeyjasamgöngur. Nefndin leggur til, að framlög vegna vöruflutninga úr Vestur-Skaftafellssýslu verði 270 þús. kr., eins og greitt er á þessu ári, og að framlag til vöruflutninga til Öræfa verði 108 þús. kr., en það er 12 þús. kr. lægri upphæð en á þessu ári, með því að framlag til bátaferða fellur niður, þar sem þeirra er ekki þörf, eftir að Hornafjarðarfljót hefur verið brúað. Þá leggur nefndin til, að til Vestmannaeyjabáts verði veittar 150 þús. kr. vegna mjólkurflutninga.

Þá eru Faxaflóasamgöngur. Skallagrímur h/f nýtur á þessu ári 850 þús. kr. vegna rekstrar Akraborgar, og ganga till. nefndarinnar í sömu átt, að Skallagrímur fái einnig 850 þús. kr. á árinu 1962. Þá leggur nefndin til, að framlag til Mýrabáts verði hið sama og í ár, eða 4 500 kr.

Þá eru Breiðafjarðarsamgöngur. Nefndinni höfðu borizt óskir frá eigendum Flateyjarbáts um hækkað rekstrarframlag og sömuleiðis framlag vegna viðgerðar á bátnum s.l. sumar. Nefndin gat ekki orðið við því, nema hvað það snertir, að hún mælir með, að báturinn fái hækkun á rekstrarframlaginu úr 200 þús. í 230 þús. Af þessari upphæð er gert ráð fyrir, að 20 þús. kr. gangi til snjóbílaferða á milli fjarða í Austur-Barðastrandarsýslu og Patreksfjarðar. í sambandi við rekstur Stykkishólmsbáts er lagt til, að hann njóti sama framlags, 660 þús. kr., og hann hefur á þessu ári. Það mun vera bréf frá hæstv. sjútvmrh. í vörzlum hv. fjvn., þar sem rætt er um ríkisframlag til nýs skips í Breiðafjarðarsamgöngur. Ég hef ekki orðið þess var, að hv. fjvn. hafi sinnt því máli að neinu, en ég vil þó taka það fram, að það er mikil nauðsyn á því, að sá bátur, sem nú annast þessar samgöngur, verði endurnýjaður, því að það er öllum ljóst, sem til þekkja, að sjóhæfni hans er ekki á þann veg, að hægt sé að reka hann í vetrarferðum á milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur. Þetta er flestum þeim kunnugt, sem til bátsins þekkja, og hafa því komið fram ákveðnar óskir frá eigendum bátsins, að byggt verði nýtt skip til þess að annast þessar samgöngur. Og þó að hv. fjvn. hafi ekki treyst sér að sinna þessu máli í þetta sinn, þá er það eigi að síður mjög nauðsynlegt, að þessu máli verði veitt athygli og gerðar jákvæðar aðgerðir til þess, að nýtt skip verði byggt. Til Langeyjarnesbáts leggur nefndin til að veittar verði 40 þús. kr., en það er 10 þús. kr. hærra rekstrarframlag en á þessu ári. Þessi bátur hefur einnig sótt um framlag úr ríkissjóði vegna mikilla aðgerða á bátnum, sem nefndin hefur ekki séð sér fært að sinna.

Þá eru Vestfjarðasamgöngur. Nefndin leggur til, að rekstrarframlag til Djúpbátsins verði 660 þús. kr., eins og það er á þessu ári. Ég vil geta þess, að á þessa árs fjárlögum var veitt heimild á 22. gr. fjárlaga að veita til Djúpbátsins 100 þús. kr., ef það sýndi sig, að hann þyrfti þess með til að forðast taprekstur. Þessi upphæð mun hafa verið greidd úr ríkissjóði í ár, og ég geri ráð fyrir, að það hafi verið færðar fram óskir við hv. fjvn. um það, að þessi upphæð yrði einnig veitt á fjárlögum 1962. Þá leggur nefndin til, að sömu framlög og í ár verði veitt til Dýrafjarðarbáts og Patreksfjarðarbáts, en það eru 10 þús. kr. til hvors báts. Og þá er ný fjárveiting til Skutulsfjarðarbáts, sem á að annast ferðir frá Hvítanesi við Skutulsfjörð í sambandi við Djúpbátinn. Nefndin leggur til, að til þessara ferða verði veittar 10 þús. kr.

Eins og tekið er fram í nál., hefur nefndin ekki séð sér fært að þessu sinni, þrátt fyrir nokkrar umsóknir um styrki til vélakaupa og endurbygginga á flóabátum, að leggja fram sérstök framlög í þessu skyni, en eins og ég hef nefnt hér, hefur hún hækkað lítils háttar einstaka framlag til að komast svolítið á móts við óskir bátaeigenda í þessum efnum.

Samkv. framangreindum till. samvn. samgm. eru heildarframlög til þessarar þjónustu flóabáta og vöruflutninga 4120 500 kr., eða 62 500 kr. hærri en á þessu ári. Eins og ég tók fram í byrjun míns máls, stendur samvn. samgm. sameinuð að þessum tillögum, en ef það væru einhverjar óskir eða fyrirspurnir, sem hv. alþm. vilja bera fram til nefndarinnar eða til mín sem frsm. hennar, er mér ljúft að svara þeim.