27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í D-deild Alþingistíðinda. (3663)

301. mál, hækkun framfærsluvísitölu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Spurt er um það, hvað gert sé ráð fyrir, að framfærsluvísitalan hækki mikið frá því, sem hún var í júnímánuði s.1., þegar fult áhrif allra þeirra verðhækkana, sem nú er vitað um, séu komin fram.

1. júlí s.l. var vísitalan 105 stig. Hagstofan gerði fyrir nokkru áætlun um, hversu mikið vísitalan mundi hækka vegna þeirra kauphækkana, sem samið var um á s.1. sumri, og vegna gengisbreytingarinnar, sem í kjölfar þeirra sigldi, og af öðrum ástæðum. Hagstofan telur, að vísitalan muni hækka um 14 stig eða í 119 stig.

Þá er um það spurt, hversu mikið af þessari hækkun eigi rót sína að rekja til kauphækkana, til gengislækkunarinnar síðustu, til hækkaðrar álagningar, sem leyfð hefur verið á vörum og þjónustu, og til annarra ástæðna. Kauphækkanirnar hækka vísitöluna um 5.1 stig, en 1.2 stig af þessum 5.1 stigi eiga rót sina að rekja til kauphækkana við vörudreifingu, sem taka varð tillit til með hækkaðri álagningu í krónum. Gengislækkunin hækkar vísitöluna um 6.1 stig. 0.7 stig af þessu 6.1 stigi eiga rót sína að rekja til hækkaðs rekstrarkostnaðar við vörudreifingu vegna gengislækkunarinnar, en til þessa aukna rekstrarkostnaðar hefur orðið að taka tillit í álagningu. Vísitalan hækkar um 0.4 stig vegna þess, að álagning hefur verið hækkuð nokkuð umfram það, sem beinlínis leiddi af kauphækkunum og gengislækkuninni. Ýmsar aðrar ástæður valda því, að vísitalan hækkar um 3.6 stig, svo sem fiskverðshækkun í ágústmánuði, annars vegar vegna hærra fiskverðs til skipa frá byrjun vetrarvertíðar 1961 og hins vegar vegna hækkaðrar álagningar, vegna hækkunar á útsvarslið vísitölunnar, á almannatryggingagjaldi og kirkjugjaldi, vegna hækkunar á verði dagblaða, á strætisvagnagjöldum, hitaveitu o.fl. umfram það, sem telja má beina afleiðingu kauphækkana og gengislækkunar. Enn fremur er hér um að ræða hækkun á landbúnaðarvöruverði vegna hækkunar á svonefndu kaupi bóndans í grundvelli landbúnaðarvöruverðs, í kjölfar hækkunar tekna verkamanna, sjómanna og íðnaðarmanna. Þessar hækkanir nema samtals 15.2 stigum, en frá því dregst væntanleg hækkun fjölskyldubóta um 13.8%, sem svarar til 1.2 stiga, þannig að nettóhækkun vísitölunnar verður 14 stig, svo sem ég gat um áðan. Af þessum 14 stigum, sem vitað er nú um að vísitalan muni hækka umfram það, sem hún var 1. júlí s.l., eiga 10.4 stig rót sína til að rekja til kauphækkunarinnar s.l. sumar, sem nam 13–19%, og gengisbreytingarinnar í ágúst. En þessi 10.4 stig fást þannig, að verðhækkunin brúttó nemur 11.6 stigum, en frá því verður að draga 1.2 stiga lækkun á vísitölunni vegna hækkaðra fjölskyldubóta, sem nema 13.8%.