27.10.1961
Sameinað þing: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

301. mál, hækkun framfærsluvísitölu

Menntmrh.(Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem fram kom í síðari ræðu hv. fyrirspyrjanda, þar sem hann sagði, að sú hækkun vísitölunnar, sem leiddi af kauphækkuninni, nemi 3.9 stigum af henni, eins og hann orðaði það, en sú hækkun hennar, sem leiddi af gengisbreytingunni nemi hins vegar 6.1 stigi. Það kom skýrt fram í því, sem ég sagði, að fyrri talan, sem hann þarna nefndi, er ekki rétt. Sú hækkun vísitölunnar, sem leiðir af kauphækkunum, er ekki 3.9 stig, heldur 6.1 stig, vegna þess að kaup hækkaði að sjálfsögðu einnig við vörudreifingu, kaup verzlunarmanna hækkaði, eins og öllum er kunnugt, og það er enginn eðlismunur á þeirri kauphækkun, sem verzlunarmenn sömdu um í sinum samningum, og þeirri kauphækkun, sem sjómenn eða pípulagningamenn sömdu um í sínum samningum, og þess vegna er ekki unnt, ef menn vilja greina rétt og satt frá áhrifum kauphækkunarinnar á vísitölu eða verðlag, að greina á milli þeirrar hækkunar, sem varð hjá t.d. verkamönnum og iðnaðarmönnum annars vegar og hjá verzlunarmönnum hins vegar, en það er það, sem hv. fyrirspyrjandi gerði, þegar hann nefndi bað, að kauphækkunin hefði aðeins valdið 3.9 stiga hækkun. Þá er sem sagt sleppt áhrifunum af þeirri kauphækkun, sem varð hjá verzlunarmönnum og að sjálfsögðu varð að taka tillit til við ákvörðun á seldri þjónustu verzlunarinnar, rétt eins og það hefur orðið að taka tillit til áhrifa af kauphækkunum verkamanna og iðnaðarmanna við ákvörðun á verði þeirrar vöru og þjónustu, sem þessar stéttir vinna við. Tölurnar, sem um er að ræða, eru þær, að kauphækkanirnar eiga 5.1 stig af þessari 14 stiga hækkun, en gengislækkunin 6.1 stig af henni.

Þá sagði hv. fyrirspyrjandi, að 3.6 stig af þessari 14 stiga hækkun ættu rót sína að rekja til verðhækkana, sem leyfðar hefðu verið, en væru óskyldar kauphækkuninni eða gengisbreytingunni. Þetta er ekki heldur alls kostar rétt, og vil ég ekki lá hv. fyrirspyrjanda það, því að eins og hann sagði, er hér um að ræða margar tölur og flókið efni og e.t.v. ekki gott að átta sig á því, sem í svari felst, við að heyra það lesið, svo sem ég gerði hér áðan. En það kom þó greinilega fram í svari mínu, að þessi 3.6 stig eiga rót sína að rekja til margs konar hækkana, sem eru óskyldar hækkun á kaupi og gengisbreytingu, umfram það, sem telja má beina afleiðingu kauphækkana og gengislækkunarinnar. En um orsakir margra af þessum hækkunum var vitað, áður en til kauphækkananna kom og áður en til gengisbreytingarinnar kom í ágúst s.l., og aðdragandi sumra af þessum hækkunum var þegar orðinn um það bil ársgamall. Hér er yfirleitt um að ræða hækkanir, sem varla mun vera hægt að deila um að óhjákvæmilegar hafi verið og í raun og veru var búið að taka ákvörðun um fyrir löngu, án þess þó að þær hafi allar komið til framkvæmda. Nokkrar þeirra voru þegar komnar til framkvæmda, áður en til gengislækkunarinnar var gripið, þar sem þessi samanburður, sem hér er um að ræða, er miðaður við 1. júlí s.l., en gengisbreytingin varð ekki fyrr en í ágúst.

Ég skal gefa upplýsingar til viðbótar við það, sem ég sagði áðan, um þær hækkanir, sem standa ekki í sambandi við kauphækkunina eða gengisbreytinguna. En sundurliðun á þessum hækkunum er þannig:

Hækkun á útsvarslið vísitölunnar nemur 1 stigi. Hækkun á almannatryggingagjaldi nemur 0.4 stigum. Hækkun á kirkjugjaldi nemur 0.1 stigi. Hækkun á fiskverði nemur 0.6 stigum, hækkanir á erlendum vörum 0.4 stigum og ýmsar smávægilegar hækkanir 0.3 stigum. Þessar hækkanir, sem ég nú hef nefnt, svara til 2.8 stiga í vísitölunni. Þá er liðurinn kaup bóndans í verðlagi landbúnaðarvara, vísitöluhækkun á honum um 1.3. stig, þannig að heildarhækkunin á þessum líðum nemur 4.1 stigi. Vegna kaupgjaldshækkunar og gengisbreytingar hefur vísitalan hækkað um 11.6 stig, þannig að þessar hækkanir nema samtals 15.7 stigum. Vísitalan lækkar aftur vegna 13.8% hækkunar á fjölskyldubótum sem svarar 1.2 stigum, þannig að alveg nákvæmlega reiknað nemur hækkunin 14.5 stigum. Þetta hálfa stig, sem hér er um að ræða, á rót sína að rekja til þess, að vísitalan var talin nema 105 stigum 1. júlí. Hún er alltaf gefin upp í heilum stigum, en með brotum reiknað nam hún 104.5 stigum.

Það, sem hér er því í raun og veru mergurinn málsins og það, sem skiptir eflaust mestu máli fyrir hv. fyrirspyrjanda að upplýsa um, er, að þær hækkanir, sem hafa orðið eða munu verða á vísitölunni í framhaldi af 13—19% kauphækkun í sumar og gengisbreytingunni í ágúst, munu nema 10.4 stigum nettó, þ.e.a.s. 11.6 stigum brúttó mínus 1.2 stig vegna hækkunar fjölskyldubótanna. Það, sem kauphækkanirnar um 13—19% og gengislækkunin hafa því valdið af hækkunum í vísitölunni, nemur því nettó 10.4 stigum. Engin stétt mun hafa fengið minni kauphækkun en sem nemur 13% og sumar stéttir 19%. Þær stéttir, sem minnsta kauphækkun hafa fengið, hafa því fengið um það bil 3% meira í kauphækkun en svarar þeirri hækkun vísitölunnar, sem af kauphækkunum og gengislækkuninni leiddi. Þær stéttir, sem minnsta kauphækkun fengu, halda því eftir u.þ.b. 3% af þeirri kauphækkun, sem þær fengu, og aðrar þeim mun meira sem kauphækkunin var meiri.

Þannig er þetta, ef litið er á áhrif kauphækkananna og gengisbreytingarinnar og afleiðingar þessara ráðstafana út af fyrir sig. Hitt er svo annað mál, að vísitalan hefur af öðrum ástæðum hækkað um meira en þessi 11.6 stig, þ.e.a.s. um 14 stig, en sú hækkun hefði reynzt óhjákvæmileg, hvort sem um nokkra kauphækkun eða gengisbreytingu hefði orðið að ræða eða ekki.