18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1962

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlaganna bar ég fram brtt. við 14. gr. B, XXIII. lið, að veittar væru til Jochums Eggertssonar til ritstarfa og skóggræðslu að Skógum 10 þús. kr. Nú hefur hv. formaður fjvn. tjáð mér, að fjvn. hafi tekið þennan lið upp í sínar tillögur, og vissi ég ekki um það, fyrr en ég hafði borið till. fram aftur á þskj. 244, en eftir að hafa fengið þær upplýsingar, er þessi tillaga tekin aftur. Það er VIII. till. á þskj. 244.

Ég hef hins vegar borið fram þrjár till. á sama þskj., að við 22. gr., XXIII. lið, komi þrír nýir liðir.

Fyrst, að ríkisstj. sé heimilt að gefa Gróttu h/f og Sindra h/f á Patreksfirði eftir 1. veðrétt í eignum þeirra, kr. 4 789 250,26, auk áfallinna vaxta, allt vegna kaupa á togaranum Gylfa, enda yrði jafnframt samið um það við viðskiptabanka fyrirtækjanna, að atvinnurekstur þessara fyrirtækja geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Fyrir þessu vil ég gera dálitla grein. Þegar togarinn Gylfi var keyptur á sínum tíma, ábyrgðist ríkissjóður lán hjá Hambrosbanka fyrir allt að 70% af kaupverði skipsins, eins og þeirra annarra togara, sem þá voru keyptir til landsins, og enn fremur var lánað af ríkissjóði þá fé, allt að 20% af upphæðinni, á sama hátt og einnig var lánað til annarra skipa, en tekinn var 1. og 2. veðréttur í togaranum, en auk þess 1. veðréttur í þeim eignum, sem ég hef hér rætt um að framan. Nú var ekki hafður sá háttur á að taka 1. veðrétt í öðrum eignum en togurum yfirleitt, þegar þetta var gert, og þess vegna þykir eðlilegt, að þetta sé gefið eftir, auk þess sem upplýst er, að ef þessi veðréttur sé ekki gefinn eftir, þá sé ekki hægt að komast að samkomulagi við viðskiptabankana um að halda rekstrinum áfram, en það er mjög mikil nauðsyn, eins og nú er atvinnuháttum hagað á Patreksfirði. Ég skal taka það fram, að hér er um aðra eigendur að ræða. Grótta og Sindri eru ekki sömu eigendur og þeir, sem eiga Gylfa, þeir hafa hins vegar gefið leyfi til þess að veðbinda þessar eignir, og er því enn meiri ástæða til þess að gefa veðréttinn eftir.

Ég hef einnig borið fram undir b-lið, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast fyrir Suðurfjarðahrepp nauðsynlegan kostnað við umbætur á m/s Pétri Thorsteinsson vegna smíðagalla, sem komið hafa fram á skipinu, þó eigi yfir 100 þús. kr., enda framselji eigendur ríkissjóði skaðabótakröfuna á hendur byggjenda skipsins. Það hefur komið fram nú, meira en ári eftir að skipið hefur verið keypt, að öll undirbyggingin undir vélinni er skökk, aðalvél skipsins ekki í línu við skrúfuöxulinn, og hefur því verið nauðsynlegt að umbæta þennan smíðagalla. Það hefur verið látin fara fram á þessu skoðun af löglega útnefndum mönnum, sem hafa staðfest, að hér sé um að ræða smíðagalla frá verkstæðinu, skipabyggingarstöðinni, og óhjákvæmilegt sé að gera við þetta, en þetta mun fara í allt að 100 þús. kr. Ríkissjóður gerði kaupsamninginn fyrir hönd eigenda á sínum tíma, og hann var raunverulega milliliður um þessi kaup. Þetta er einn af þeim bátum, sem voru keyptir frá Austur-Þýzkalandi, og er því eðlilegt raunverulega, að ríkissjóður fái framselda skaðabótakröfuna og aðstoði eigendur um að fá hana greidda frá byggjendum. Ég skal leyfa mér að geta þess, að verði ekki hægt að leysa þetta mál þannig, þá er ekki annað sýnilegt en skipið verði að hætta og ríkissjóður að láta ganga að eigendum og selja skipið, og þá kemur að sjálfsögðu einnig á hann að greiða viðkomandi upphæð, þar sem það hvílir á skipinu hjá viðgerðarverkstæðinu, sem nú verður að gera við þetta, þangað til upphæðin er annaðhvort tryggð eða greidd.

Þriðji töluliðurinn, c-liður, er um, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast fyrir Togarafélag Ísfirðinga 175 þús. kr. skuld við Rafveitu Ísafjarðar vegna gjalds, sem er greiðsla fyrir rafmagn, til að afstýra rekstrarstöðvun frystihússins, sem nýlega hefur tekið til starfa. Um þessa skuld má segja það, að þetta er skuld fyrir ógreitt rafmagn. Nú hefur frystihúsið verið leigt öðrum aðilum, en Rafveita Ísafjarðar telur sig ekki geta eða vilja selja þeim aðilum rafmagn til rekstrar, nema því aðeins að þessi skuld sé greidd, og kemur þá í sama stað niður að því leyti til, að ef dómur félli um, að hún hefði fullan rétt til þess að stöðva þannig reksturinn, þar til þessi skuld yrði greidd, þá yrði að sjálfsögðu veðhafi hússins, sem er ríkissjóður og mundi að líkindum eignast húsið, ef það yrði boðið upp, einnig að greiða þá upphæð, þegar þar að kæmi, svo að það kemur raunverulega einnig í sama stað niður. Hins vegar mun verða látinn ganga dómsúrskurður um það, hvort hægt sé yfirleitt fyrir Rafveitu Ísafjarðar að stöðva sölu á rafmagni til nýrra aðila, þó að hinir fyrri aðilar hafi ekki greitt skuldir sínar. En það mundi taka alllangan tíma og þess vegna nauðsynlegt að fá þetta mál nú leyst á þann veg, sem ég hef hér óskað eftir.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að hv. Alþ. fallist á þetta og samþykki tillöguna.