22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

66. mál, rafvæðing Norðausturlands

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. raforkumrh. fyrir það, að hann skuli hafa svarað þessari fyrirspurn. Svar hans, eins og það kom hér fram, mun verða tekið til nánari athugunar, þegar tími er til, en til þess er ekki ráðrúm í þeim stutta ræðutíma, sem ég hef.

Hæstv. ráðherra gat þess í upphafi máls síns, að ekki hefði margt gerzt í þessu máli, þ.e.a.s. varðandi framkvæmd þál., en taldi þó síðar, að nokkur athugun hefði farið fram af hálfu raforkumálastjóra. Hins vegar gat ráðherrann þess ekki, í hverju sú athugun væri fólgin, ráðherra las síðan upp bréf það, sem raforkumálastjóri ritaði hv. fjvn. á síðasta þingi, áður en þál. sú var samþykkt, sem hér hefur verið minnzt á og er tilefni fyrirspurnarinnar, og var mér og okkur flm. þáltill. að sjálfsögðu kunnugt um þetta bréf, sem raforkumálastjóri þá ritaði hv. fjvn.

Ég vil svo aðeins rifja upp það, sem ég spurði um áðan, án þess að það sé í fyrirspurninni á þskj. 84, hvort eitthvert samráð hefði verið haft við raforkumálanefnd Norður-Þingeyinga um þetta mál, siðan þál, var samþykkt. Hæstv. ráðherra lét þess að vísu getið, að raforkumálaskrifstofan vissi um vegalengdir á milli bæja og hefði ýmis önnur gögn í höndum, en hingað til hefur það þótt hæfa að ræða við fulltrúa í héruðunum um þessi mál. jafnvel þótt langt sé síðan raforkumálaskrifstofan hafði þessar vegalengdir milli bæja, — og ég vildi mælast til þess, að hæstv. ráðherra skýrði frá því, hvort þetta samráð hefur átt sér stað, þó að ekki hafi verið skriflega um það spurt.

Að lokum vil ég segja það almennt út af því, sem hæstv. ráðherra sjálfur sagði eða las upp úr bréfi raforkumálastjóra frá í vor og átti að vera því til stuðnings, að dýrt og óhagkvæmt væri að veita raforku um byggðir Norður-Þingeyinga, að slíkt mat hlýtur að sjálfsögðu að fara mjög eftir því, hvaða samanburður er gerður. Ef eitthvað er kallað dýrt, þá er átt við venjulega, að það sé dýrt samanborið við eitthvað annað. Og ég vildi skjóta því til hæstv. ráðh., sem hefur með þessi mál að gera, hvort hann hafi athugað það til hlítar, að raforkuveita um þessi byggðarlög muni vera dýrari en raforkuveitur um sum önnur byggðarlög, sem rafmagni hefur þegar verið veitt í eða nú er í ráði að veita rafmagni í, því að það er það, sem máli skiptir. Ég vil benda á, að ég held, að það sé ekki fullathugað hjá hæstv. ráðh, og raforkumálastjóra, þegar það er sagt, að atvinnurekstur sé lítill í þorpunum Norðaustanlands. Ég held, að þar megi teljast mikill atvinnurekstur, miðað við fólksfjölda þar, og þar fer vaxandi bæði atvinnurekstur og fólksfjöldi, eins og hæstv. ráðh. getur sannfært sig um, ef hann kynnir sér skýrslur um þau mál.

Það getur vel verið, að það sé dýrt að leggja línur, sem kosta 30 þús. kr. á heimilismann. En það er líka dýrt að byggja stöðvar, hvort sem um er að ræða dísilstöðvar eða vatnsaflsstöðvar.

En annars fjallar fsp. okkar ekki sérstaklega um þessa línulagningu austur frá Laxárvirkjun, heldur fjallar hún um framkvæmd þál. frá 27. marz, sem var um athugun á því á árinu 1961, hvernig auðið sé að leysa raforkumál Norður-Þingeyinga á viðunandi hátt innan þeirra tímatakmarka, sem 10 ára rafvæðingaráætlunin gerir ráð fyrir. Það var þetta, sem hæstv. ríkisstj. var falið að framkvæma, og á þessu stigi er ekki ætlazt til þess af mér eða öðrum, sem að þessari fsp. standa, að. hæstv. ráðh. svari öðru en því, hvernig farið hafi um framkvæmdina á þessari tillögu. Og að því leyti sem mér skilst, að sú framkvæmd hafi ekki farið fram, þá vildi ég mega vænta þess, að hæstv. ráðh. í samræmi við vilja Alþingis sjái um það, að hún fari fram, að svo miklu leyti sem unnt er, á þeim tíma, sem eftir er af þessu ári.