22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í D-deild Alþingistíðinda. (3685)

80. mál, öryrkjamál

Fyrirspyrjandi (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, svo langt sem þau ná. Að vísu orðaði hann ekki neitt varðandi fyrirætlanir ríkisstj. um tvö af þeim fjórum atriðum, sem ég gerði hér að umtalsefni. En ég mun ekki núna fara að leggja sérstaklega mikið út af þeim svörum, sem við fyrirspurninni hafa borizt, heldur geyma það siðari og betri tækifæra. En þó kemst ég ekki hjá því að lýsa yfir sárum vonbrigðum mínum yfir því, að ekki skuli hafa verið gengið hraðar fram í að koma fram þessum málum heldur en svör hæstv. ráðherra bera vitni um, því að ég hygg, að engum geti dulizt, að af þeim fjórum aðalatriðum, sem ég nefndi hérna, þá er ekkert málið komið í höfn, um tvö fengust engin svör, og hin tvö eru í nýrri athugun í nýjum nefndum, eftir að milliþn. hefur athugað þessi mál, eftir því sem hún gat, niður í kjölinn og skilað sínum tillögum um þau.

Ég kemst ekki hjá því að minna hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. á það, að það eru nú liðin nærri því þrjú ár t.d. frá því, að Sjálfsbjargarfélögin báðu Alþingi fyrst ásjár í þeim efnum að skapa félagsskap sínum nokkuð traustan tekjustofn, þannig að félögin gætu verið fær um að vinna að verkefnum sinum, og þrjú ár eru langur tími, ef ekkert raunhæft gerist í málunum. Ég vil líka aðeins minna hæstv. ríkisstj, á það, að frá upphafi hefur verið leitazt við að ná sem beztri samstöðu milli allra flokka um slík mál sem þessi, og það hefur tekizt, og af því hefur orðið góður árangur, t.d. varðandi starfsemi SÍBS og öll afskipti löggjafarvaldsins af málefnum þess. Og það hefur jafnvel verið svo stundum, að nokkur bið hefur þótt illskárri en að fara að vekja upp deilur um þessi mál hér á hv. Alþingi. En ég vil segja það, að biðin getur orðið svo löng, að það verði ekki hjá því komizt að reyna að vinna upp samstöðu manna í öllum flokkum í þessum mikilsverðu málum á annan hátt en þann að bíða eftir forustu hæstv. ríkisstj., — og eins og ég sagði áður, þá tel ég, að þarna sé aðalatriðið og það stærsta, það sé að tryggja starfsgrundvöll þessara samtaka, sem þarna er um að ræða. Ég fyrir mitt leyti geri ekki mun á því, hvort þess fjár er aflað með örlítilli hækkun á tollvörum eða með einhverjum öðrum hætti. En að sjálfsögðu er það aðalatriðið, að löggjafarvaldið sjái öryrkjasamtökunum fyrir því fé, sem þau minnst geta komizt af með, til þess að geta létt af ríkisvaldinu og létt af fjárveitingarvaldinu stórkostlegum útgjöldum, sem því raunverulega ber skylda til að inna af hendi. Og ég vil ekki trúa því, að okkar ríkisbúskap sé þannig komið, að það sé hvergi hægt að sjá af 1–3 millj. kr. á ári til þessara mála, því að það er sannarlega ekki verið hér að eyða fé, heldur að verja því til mjög arðvænlegrar fjárfestingar, ef rétt er skoðað.

Ég vil svo að lokum aðeins lýsa þeirri von minni, að hvað sem aðgerðum hæstv. ríkisstj. í þessum efnum liður, þá ljúki þetta Alþingi ekki svo störfum, að verulegum áfanga verði ekki náð að því marki að framkvæma þær tillögur, sem fulltrúar allra flokka urðu sammála um að leggja til í milliþn.