14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

304. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf, og það gleður mig að verða þess áskynja, að tillagan hefur ekki verið lögð til hliðar og ekkert aðhafzt, heldur nokkuð eðlilegar aðferðir hafðar við það að afla upplýsinga um það, sem spurzt var fyrir um í till. Það gleður mig líka að heyra það, að hugleiðingar um að flytja burt það, sem eftir er af þessum verksmiðjum, eða sérstaklega Ingólfsfjarðarverksmiðjunni, hafi ekki komizt á það stig a.m.k., að aðstoðar ríkisstj. hafi verið leitað í sambandi við það.

Það er vissulega rétt, að síld hefur lagzt frá Vestfjarðasvæðinu núna allmörg undanfarin ár. En hitt vita allir, að ekki lengra til baka en um 1920 lögðust aðalsíldargöngurnar einmitt að Vestfjarðasvæðinu, og var þá mikil og margvísleg vinnsla síldar framkvæmd á Vestfjarðahöfnum. Nú hefur síldin meira lagzt að Norðausturlandssvæði og Austfjarðasvæði um sinn, en þó hefur einmitt nú á seinustu tveimur árum ýmislegt bent til þess, að síldin væri nú meira en áður að koma upp á Vestfjarðasvæðinu. Fyrsta síld, bæði í fyrra og s.l. vor, kom upp út af Horni og var sótt þangað vestur á bóginn. Það er því ekki óeðlilegt, að sá tími geti verið nærri, að síldin leggist aftur að Vestfjarðasvæði og verði þá hagkvæmast þjóðinni að geta nýtt einhvern verulegan hluta af aflamagni síldarinnar í verksmiðjum á Vestfjörðum. Ég teldi a.m.k. illa farið, ef þá væri búið að rífa til grunna þær síldarverksmiðjur, sem enn þá eru þó á Vestfjarðasvæðinu, og hygg, að það mundi vera miklu hagkvæmara fyrir þjóðfélagið að gera nú þegar eða sem allra fyrst ráðstafanir til þess, að þessar verksmiðjur væru hafðar í nokkurn veginn rekstrarhæfu standi. Við höfum áður lent í því, að síldin hefur gosið upp, þar sem verksmiðjur voru ekki fyrir eða ófullnægjandi, sbr. Hvalfjarðarsíldina og það óðagot, sem þá greip menn að byggja upp verksmiðjur hér við Faxaflóasvæðið, — þær hafa margar hverjar staðið lítt eða ekki notaðar síðan, en þá þótti mikil þörf á því og hefði miklum verðmætum verið bjargað, ef þessar verksmiðjur hefðu verið til hér suðvestanlands, hvað þær þá ekki voru. Ég hygg, að menn nöguðu sig illa í handarbökin fyrir það, ef það væri nýbúið að rífa þær verksmiðjur, sem eru á Vestfjörðum, og við þannig vanbúnir að taka á móti miklum aflafeng, ef síldin héldi nú innan fárra ára aftur að Vestfjarðasvæðinu, eins og vel má búast við. Við vitum, að þessi kynjafiskur færist mjög til, og möguleikarnir til þess að veiða hana eru mjög bundnir við það, að hægt sé að nýta aflann í námunda við veiðistaði.

Það kom m.a. fram í svari hæstv. ráðh., að flutningar um langa vegu væru það dýrir, að nokkurn veginn útilokaði vinnslu í fjarlægum verksmiðjum. Ég vil því beina því til hæstv. ráðh., að með því sé fylgzt, að Vestfjarðaverksmiðjurnar, sem enn þá eru þarna til, verði ekki rifnar og fluttar í burt af Vestfjörðum, því að þar er þó einasti möguleikinn, sem nærtækur er, til þess að hægt væri að nýta síld, ef henni skyti aftur upp á Vestfjarðasvæðinu, sem ég tel allar líkur benda til.