21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3696)

137. mál, vörukaupalán í Bandaríkjunum

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. 1. liður þessarar fsp. er um það, hve mikil vörukaupalán PL-480 voru tekin í Bandaríkjunum árið 1961. Árið 1961 var gerður samningur milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um kaup á bandarískum umframbirgðum af landbúnaðarvörum fyrir 1840 þús. dollara.

2. spurning: Hve mikil slík lán hafa nú verið tekin samtals og hve mikið á hverju ári? Heildarupphæðir þeirra vörukaupasamninga, sem gerðir hafa verið árlega árið 1957 og síðan, eru sem hér greinir: Árið 1957 2 millj. 785 þús. dollarar. Árið 1958 3 millj. og 60 þús. dollarar. Árið 1959 2 millj. 575 þús. dollarar. Árið 1960 1 millj. 925 þús. dollarar. Og árið 1961 1 millj. 840 þús. dollarar. Samtals á þessum 5 árum 12 millj. 185 þús. dollarar.

3. spurningin: Hve mikið af því fé kemur til útlána innanlands? Innkomið fé til ráðstöfunar til útlána innanlands var 8. þ.m. alls 213 millj., sem sundurliðast milli samninga eftir árum þannig: Af samningi ársins 1958 36.1 millj. Af samningi ársins 1959 55.9 millj. kr. Af samningi ársins 1960 48.5 millj. kr. Af samningi ársins 1961 37.9 millj. Samtals 213 millj. Til viðbótar þessu er áætlað, að enn komi samkv. samningnum frá 1960 um 1 millj. kr. og samkvæmt samningnum frá 1961 um 14 millj. kr. Verður þá heildarfjárhæð, sem kemur til útlána innanlands, væntanlega um 228 millj.

4. spurning: Hve mikið hefur nú verið samþykkt að lána út innanlands af þessu fé og í hvaða framkvæmdir? Samþykktar lánveitingar nema alls 174 millj., sem sundurliðast milli framkvæmda sem hér segir: Til virkjunar Efra-Sogs 80.7 millj. kr. Til rafmagnsveitna ríkisins vegna Keflavíkurlínunnar 15 millj. kr. Til verkstæða í einkaeign 1.3 millj. kr. Til hitaveitu Reykjavíkur 25 millj. kr. Til Keflavíkurvegar 10 millj. Til hafnarmála 15 millj. Til Rafmagnsveitu Reykjavíkur vegna varastöðvar við Elliðaár 5.5 millj. Til iðnlánasjóðs 21.5 millj. Alls, eins og ég gat um, 174 millj.

5. spurning: Hvað er áætlað, að við þessi vörukaupalán bætist á árinu 1962? Það er gert ráð fyrir, að á þessu ári verði gerður nýr vörukaupasamningur að upphæð um 1 millj. 740 þús. dollarar, og að 75% af innkomnum greiðslum samkv. honum á árunum 1962 og 1963, þ.e. um 59 millj. kr., komi til lánveitinga hér á landi.