21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (3701)

302. mál, ráðstöfun 6 milljón dollara lánsins

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Í 22. gr. fjárlaga 1959 er svo hljóðandi liður: „Að taka erlent lán að upphæð allt að 6 millj. dollara (þ.e.a.s. heimild fyrir ríkisstjórnina). Af þeirri fjárhæð skulu eftirtaldar upphæðir endurlánaðar sem hér segir: Til raforkusjóðs 45 millj. kr. Til ræktunarsjóðs 25 millj. kr. Til hafnarframkvæmda 28 millj. kr., og skal nefnd sú, sem um getur í 20. gr., skipta lánsfénu til einstakra hafna:

Ég sakna þess, að núna síðustu missirin eða síðustu tvö árin a.m.k. hefur ekki verið gefið yfirlit í sambandi við fjárlagaumræðurnar eins og áður hafði verið venja, um lántökur ríkisins og hvernig því fé hefur verið ráðstafað. Ég man því ekki til þess, að það hafi nokkurn tíma verið í sambandi við fjárlagaumræður gerð grein fyrir því hér á hv. Alþingi, hversu lántaka hefur farið fram samkv. þessari lagaheimild, hve há fjárhæð lánið varð samtals í íslenzkum krónum, og því síður rekur mig minni til þess, að hv. Alþingi hafi verið gerð grein fyrir því, hvernig lánsfénu hefur verið varið, þó að ég hafi grun um, að því hafi nú þegar öllu verið varið á einn eða annan hátt.

Þá vil ég leyfa mér að minna á, að núv. hæstv. utanrrh., sem var fjmrh. 1959, lýsti yfir því, að ekkí yrði ráðstafað af þessu lánsfé nema með samþykki Alþingis umfram það, sem heimilað var í fjárlagagreininni. sem ég las, enda mun öllum finnast það eðlilegt.

Mér sýnist því, að þetta mál þurfi allt að upplýsa á hv. Alþingi, og því hef ég borið fram þessa fyrirspurn á þskj. 267, II. lið, sem ég vænti að hæstv. ráðh. svari.