21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í D-deild Alþingistíðinda. (3703)

302. mál, ráðstöfun 6 milljón dollara lánsins

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. upplýsingarnar. Samkv. þessu hefur lánsfénu öllu verið ráðstafað. Ég vil leyfa mér að finna að því, að það hefur ekki verið fengið samþykki Alþingis til ráðstöfunar á þessu fé, eins og gert var um þann hluta lánsins, sem ráðstafað var samkvæmt fjárlögunum frá 1959, og eins og hæstv. þáv. fjmrh, hafði gefið yfirlýsingar um að gert yrði. Vænti ég, að hæstv. ríkisstj. sjái, að á því eru mikil missmíði að ráðstafa milljónum, jafnvel milljónahundruðum af lánsfé, án þess að sérstakar samþykktir Alþingis komi til. Skiptir vitanlega engu máli í því sambandi, hversu ágæt verk það kunna að vera eða eru, sem fjármagnið er veitt til. Það er „prinsip“-atriði og eitt hið þýðingarmesta í okkar stjórnskipun, að slíkt sé ekki gert.

Nú má vera, að í öðrum lögum en fjárlögunum frá 1959 séu heimildir, sem hæstv. ríkisstj. hefur notað við þessar lánveitingar, sem hæstv. fjmrh. greindi frá, og það vil ég vona að sé. En þá hefði verið æskilegt, að hæstv. fjmrh. hefði gert grein fyrir því, hvaða lánsheimildir það væru þá.