21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í D-deild Alþingistíðinda. (3707)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Á Alþingi 1960 fluttum við 8 þingmenn Framsfl. till. til þál. um undirbúning löggjafar um framleiðslu- og framkvæmdaáætlun þjóðarinnar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir, með leyfi hæstv. forseta, „að undirbúa löggjöf um það, hversu semja skuli fyrir ár hvert og fyrir nokkur ár í senn áætlun um framleiðslu og framkvæmdir í landinu með tilliti til vaxandi fólksfjölda, nauðsynlegra framfara og jafnvægis í byggð landsins.“

Þessi þáltill, varð ekki útrædd á þinginu, en meiri hluti hv. fjvn., sem fékk málið til meðferðar, þ.e.a.s. stuðningsmenn ríkisstj. í nefndinni, lagði til, að málinu yrði vísað til ríkisstj. Siðan höfum við flm. ekki endurflutt till., og her það m. a. til, að snemma á árinu sem leið, þ.e. á árinu 1961, tók það að spyrjast, að hæstv. ríkisstj. hefði tekið sér fyrir hendur að láta gera áætlun nokkuð fram í tímann, líklega til fimm ára, um framkvæmdir hér á landi, og þess varð þá einnig vart. að hingað voru komnir nokkrir útlendir menn, að ég ætla frá Noregi, sem unnu að ýmiss konar skýrslusöfnun fyrir ríkisstj. með aðstoð íslenzkra manna. Í umræðum á Alþingi 25. okt. s.1. gerði hæstv. þáv. forsrh., Bjarni Benediktsson, þetta mál að umtalsefni, þetta áætlunarmál. Forsrh. sagði þá m.a.: „Við styðjumst nú þegar mjög við reynslu þeirra (þ.e.a.s. Norðmanna, sem ráðherrann var að ræða um), við styðjumst nú þegar mjög við reynslu þeirra við samningu fimm ára áætlunarinnar, sem nú er verið að vinna að. Eins og kunnugt er, hefur lengið legið í landi, að við höfum keppzt við að gera allt í senn og ráðizt í að framkvæma meira en unnt var að hrinda áleiðis samtímis. Vegna þess hefur öllu seinkað og leitt til fjármunasóunar og skorts á erlendum gjaldeyri. Fimm ára áætluninni er ætlað að ráða bót á þessu. Efni hennar má skipta í þrjá meginþætti“, sagði ráðherrann. „Í fyrsta tagi verði samið almennt yfirlit eða heildarmynd af þjóðarbúskapnum og væntanlegri æskilegri þróun hans næstu fimm árin. Af þessu heildaryfirliti á að sjást, hvaða fjármunum þjóðin muni væntanlega ráða yfir til þess að fullnægja þörfum sínum og óskum, bæði um neyzlu og framkvæmdir. Á þeim grundvelli verður hægt að ákveða, hve mikið megi ráðast í án þess að bera getu þjóðarinnar ofurliði. Í öðru lagi verða samdar rækilegar og heilsteyptar ásetlanir um opinberar framkvæmdir, svo að þær geti orðið sem mestar og hagkvæmastar. Er þar um að ræða raforkuframkvæmdir, vegagerð, hafnarmannvirki, skólabyggingar, heilsuhæli o.fl. Í þriðja lagi verða gerðar áætlanir um þróun atvinnuveganna: Um þessa fyrirhuguðu áætlun segir ráðherrann í sömu ræðu: „Tilgangur hennar er tvíþættur: Annars vegar að koma fastri skipan á framkvæmdir ríkisins og annarra opinberra aðila og marka stefnu ríkisins í atvinnumálum. Hins vegar að sýna einstaklingum og samtökum landsmanna, hverju þjóðin getur áorkað, ef hún sameinar krafta sína til skipulegrar og frjálsrar uppbyggingar á efnahagskerfi landsins. Enginn efi er á því, að ef vel tekst til um þessa áætlun, getur hún orðið að ómetanlegu gagni.“

Daginn eftir, hinn 26. október s.1., birti Alþýðublaðið kafla úr ræðu eða útdrátt úr ræðu, sem það sagði að hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hefði haldið á fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur í fyrrakvöld. þ.e.a.s. 24. okt. Þessi frásögn um fundinn er birt undir fyrirsögninni: „Framkvæmdaáætlunin er stærsta málið“, og segir svo í blaðinu um ræðu ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Í niðurlagi ræðu sinnar ræddi ráðherrann þá miklu framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. væri nú að undirbúa. Kvað hann þar um stórmál að ræða og benti á, að þar væri um mál Alþfl. að ræða, þar eð Alþfl, hefði alltaf barizt fyrir því að taka upp áætlunarbúskap. Sagði Gylfi, að framkvæmdaáætlunin mundi móta starf ríkisstj. síðari helming kjörtímabils hennar.”

Nú er það svo, að enn þá hefur ekki verið tilkynnt neitt um það hér á hinu háa Alþingi, að þessari áætlunargerð væri lokið, og ekki heldur borizt neinar fregnir af því á annan hátt. En með tilliti til þess, sem haft var eftir hæstv. viðskmrh. á sinum tíma, þá vil ég leyfa mér að benda á það, að kosningar til Alþingis fóru fram í októbermánuði 1959, þannig að nú er komið yfir á siðara hluta kjörtímabilsins. Ef áætlunin á að móta starf ríkisstj. síðari hluta kjörtímabilsins, þá virðist manni ekki seinna vænna, að hún fari að koma fram.

Með tilliti til þessa, sem ég nú hef sagt, höfum við þrír þm. leyft okkur að bera fram á þskj. 292 svo hljóðandi fyrirspurn:

Í fyrsta lagi: „Hvenær verður lokið fimm ára framkvæmdaáætlun þeirri (þ.e.a.s. samningu áætlunarinnar), sem forsætisráðherra gerði að umræðuefni á Atþingi 25. okt. s.l.?“ Og í öðru lagi: „Verður áætlunin lögð fyrir Alþingi og þá hvenær?“