21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3709)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa gefið svör við fsp. okkar á þskj. 292, þ.e.a.s. þau svör, sem hann virðist telja sér fært að gefa á þessu stigi málsins. En ef ég skildi hæstv. ráðh. rétt, þá voru svörin á þá leið, ég tek svarið við síðari spurningunni fyrr, að fimm ára áætlun sú, sem um er að ræða, muni verða lögð fyrir Alþingi „eftir því sem talið verður við að eiga og efni standa til, en um það, hvenær lokið verði áætlunargerðinni, væri ekki hægt að segja að svo stöddu, en mundi þó a.m.k. taka nokkra mánuði, eða þannig skildi ég hæstv. ráðh. Hér er ekki tími eða tækifæri til þess að ræða þetta nánar af minni hálfu, og mun ég því láta máli mínu lokið.