21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í D-deild Alþingistíðinda. (3712)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil aðeins gefa þá skýringu, sem hæstv. forsrh,. hefur raunar þegar komið að, að sá hluti af framkvæmdaáætlun fyrir landbúnaðinn, sem Alþýðublaðið birti, var eingöngu tekinn eftir Árbók landbúnaðarins. Ef ég man rétt um það mál, þá skilst mér, að samtök landbúnaðarins hefðu um nokkurt skeið unnið að söfnun gagna til tíu ára áætlunar fyrir landbúnaðinn. Úr því að unnið er að slíkri framkvæmdaáætlun, hlýtur það starf að falla mjög saman við fimm ára áætlunina, sem er síðar til komin.

Þarna er um aðra áætlun að ræða, sem hægt var að birta um upplýsingar, sem eru í þessari árbók, án þess að brjóta nokkurn trúnað um 5 ára áætlunina. En Alþýðublaðið hefur ekki fengið í sínar hendur né heldur til birtingar þau drög að áætlun, sem ríkisstjórnin hefur með höndum.