21.02.1962
Sameinað þing: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

148. mál, framkvæmdaáætlun til 5 ára

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths. — Auðvitað var það misskilningur hjá hv. 1. þm. Austf. (EystJ), að hinum erlendu sérfræðingum hefði verið sagt: Þefið þið nú austur og vestur og norður og suður, og þá getið þið fundið þá, sem eitthvað vita um þessi mál. — Þeir höfðu sér til aðstoðar fimm mjög mikilhæfa starfsmenn ríkisins, tvo ráðuneytisstjóra, hagstofustjóra og tvo bankastjóra og störfuðu í samráði við þá og hvað þetta áhrærir náttúrlega undir þeirra leiðsögu, eins og ég fann að hv. 1. þm. Austf. í sjálfu sér gerði ráð fyrir og þótti skynsamlegt.

Ég finn ástæðu til að taka fram, að þessir erlendu menn áttu að leita upplýsinga sem. viðast, en ekki beint tillagna, svo að það er nokkur blæmunur þar á.

Varðandi það, sem hv. þm. enn gerði að umræðuefni um Alþýðublaðið, þá er nú svarað fyrir það. Það getur vel verið, að uppsetning greinarinnar hafi gefið mönnum tilefni til að álíta þetta, sem hv. 1. þm. Austf. segir, en þeir, sem lásu greinina til enda, hlutu að sjá, að þetta var, eins og hv. 5, þm. Vesturl., ritstjóri Alþýðublaðsins, sagði frá, tilvitnun í opinbera skýrslu bændasamtakanna eða árbók bænda.

Ég get ekki gefið aðrar eða meiri skuldbindingar en ég hef gert í sambandi við málið, og ríkisstj. hefur svo lítill tími unnizt til með gaumgæfni að athuga þetta mikla mál, að ég tel ekki, að það sé ástæða af hennar hendi til frekari skýrslugerðar eða skuldbindinga á þessu stigi málsins heldur en ég í öndverðu gaf.