07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3722)

303. mál, ríkislántökur 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi gat þess, að ein af ástæðum fyrir þessari fsp. væri sú, að í fjárlagaræðu hefði ekki verið gerð grein fyrir lántökum ríkisins. Út af þessu vil ég taka það fram, að það er engan veginn nein venja, að í fjárlagaræðu sé gerð grein fyrir lántökum ríkisins. Það hefur stundum verið gert og stundum ekki. Og varðandi þær umr., þá var ekki áhuginn fyrir upplýsingum um það mál meiri en svo, að ég minnist þess ekki, að þessi hv. þm. né aðrir hafi gert neina fsp. um lántökur ríkisins í umr. um fjárlögin.

Varðandi svör við þeirri fsp., sem hér liggur fyrir, vil ég, áður en gerð er grein fyrir lántökunum, geta þess, að varðandi lántökur ríkisstofnana er það stundum svo, að ríkisstofnanir taka lánin beint, en stundum að forminu til ríkissjóður, sem endurlánar þeim stofnunum, sem óskað hafa eftir lántökunum. Í þessu yfirliti, sem ég hér mun gefa, verða þau lán, sem ríkisstofnanir hafa fengið, en ríkissjóður hefur haft milligöngu um og er formlegur lántakandi, talin með lántökum ríkissjóðs. Lántökurnar eru eins og hér skal greint:

Lán hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna viðbyggingar við Landsspítalann samkv. heimild í fjárlögum, 22. gr., 3 millj. til 8 ára, 11/2 millj. er með 8% vöxtum og 11/2 millj. með 9% vöxtum, sem geta þó lækkað niður í 7%.

Lán hjá lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóði barnakennara og Tryggingastofnun ríkisins vegna byggingar Kennaraskóla Íslands að upphæð 5 millj. kr. með 91/2 vöxtum. 3 millj. eru til 9 ára, 2 millj, til 8 ára. Heimildin er í 22. gr. fjárlaga fyrir 1962.

Lán hjá Seðlabanka Íslands, 20 millj. kr., endurlánað Búnaðarbanka Íslands vegna ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs. Lánið er til 3 ára, vextir 81/2 %, en þetta lán er tekið og endurlánað sem bráðabirgðalán, þar til löggjöf hefur verið sett um frambúðarlausn á fjárhagsvandamálum þessara sjóða, sem væntanlega verður á þessu þingi.

Lán hjá Seðlabankanum vegna framlags Íslands til Hinnar alþjóðlegu framfarastofnunar, International Development Association, 1 millj. 598 þús. kr. Ekki hefur endanlega verið samið um lánstíma eða vaxtakjör, en lánið er tekið samkvæmt heimild í lögum nr. 59 frá 29. marz 1961, mun aðild Íslands að þessari stofnun.

Lán hjá Seðlabanka Íslands, endurlánað bæjarútgerð Hafnarfjarðar skv. heimild í 1. nr. 94 frá 1956. Hér er um tvö lán að ræða: Lánsupphæð 1 millj. þýzkra marka eða í ísl. kr. 10 millj. 756 þús., til 5 ára með 7% vöxtum. Þetta lán var tekið til lengingar á erlendu láni bæjarútgerðarinnar. Hitt er lán að upphæð 18.5 millj. til 15 ára með 7% vöxtum, það er afborgunarlaust til ársins 1967, endurgreiðist eftir það á 9 árum.

Reikningslán landbrn. í Búnaðarbanka Íslands vegna kaupa á jörðinni Kollafirði, allt að 2.2 millj. kr., með ábyrgð ríkissjóðs. Lánið verði afborgunarlaust í 5 ár, og er lántakan gerð samkv. heimild í fjárlögum fyrir 1961, 22. gr.

Þá er lán hjá Seðlabanka og Búnaðarbanka, sem endurlánað var raforkusjóði, 23.6 millj. kr.

Lán hjá Seðlabanka Íslands, 8 millj. 266 þús., sem var endurlánað Flugfélagi Íslands. Það lán er til 6 ára með sömu vöxtum og eru af byrjunarvíxlum með handveði í ríkistryggðum skuldabréfum, en þetta lán var tekið vegna vanskila á erlendu láni Flugfélags Íslands með ríkisábyrgð, en það var greitt upp með þessu láni.

Þá eru lántökur ríkisstofnana, og það er fyrst raforkusjóður. Hann hefur tekið lán hjá Landsbanka Íslands, 5 millj. 280 þús., hjá Útvegsbanka Íslands 1 millj. 760 þús., hjá Búnaðarbanka Íslands 1 millj. 320 þús. og hjá Iðnaðarbanka Íslands 200 þús., samtals 8 millj. 560 þús. kr. Lánin eru öll til 20 ára með almennum lánsvöxtum banka og tekin samkv. heimild í lögum nr. 5 frá 1956.

Rafmagnsveitur ríkisins tóku á árinu vörukaupalán sem hér segir: Enskt lán, £ 37200 til dísilvélakaupa. Lánið er til 3 ára og vaxtalaust. Þýzkt lán, 750 þús. þýzk mörk til dísilvélakaupa. Lánið er til 4 ára með 6% vöxtum. En þessi lán eru bæði í víxilformi. Danskt lán að upphæð 1 millj. 260 þús. danskar kr., sem að mestu er til kaupa á streng til Vestmannaeyja. Lánið er til 6 ára og vextir 6%. Sænskt lán, 448200 sænskar kr. vegna kaupa á Norðurlandsbor, til 3 ára, vextir 5%, og lánið er í víxilformi. Flestar þær vörur, sem keyptar voru út á þessi lán, sem hér hafa verið greind, komu til landsins árið 1960, nema vörur út á danska lánið, sem eru ókomnar. Rafmagnsveitur ríkisins tóku á árinu 1961 að forminu til enskt lán, £ 21420, vegna dísilvéla, sem settar voru upp á Akureyri, en endurlánaði Laxárvirkjuninni þetta lán. Lán þetta, sem er í víxilformi, er til 3 ára og ber 71/2% vexti.

Þá er póstur og sími, tók lán í Svíþjóð vegna kaupa á sjálfvirkum útbúnaði í símstöðvar fyrir Vestmannaeyjar, Akranes, Kópavog og fleiri staði, að upphæð sænskar krónur 5 millj. 199 þús., til 5 ára með 5% vöxtum.

Vegamálaskrifstofan tók lán hjá Framkvæmdabanka Íslands að upphæð 10 millj. kr. til 20 ára með 5% vöxtum vegna Keflavíkurvegar. Vegamálaskrifstofan hefur fengið 5 millj. af því greiddar, en áætlað, að hún fái allt lánið útborgað fyrir 30. júní 1962.

Loks er lán sementsverksmiðjunnar hjá Framkvæmdabanka Íslands, sem texið var í Sviss og endurlánað sementsverksmiðjunni. Það eru 2 millj. svissneskra franka til 10 ára með 81/2% vöxtum.