07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3724)

303. mál, ríkislántökur 1961

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Varðandi heimildir fyrir þeim lántökum, sem ríkisstofnanir hafa tekið, þá er það oftast svo, að í lögum um hlutaðeigandi ríkisstofnanir eru rúmar heimildir fyrir lántökum. Á það m.a. við um rafmagnsveitur, raforkusjóð o.fl. aðila.

Varðandi lántöku til búnaðarsjóðanna, þá lét hv. fyrirspyrjandi í ljós undrun yfir því, að það væri aðeins til bráðabirgða, en út af því vil ég upplýsa, að þetta 20 millj. lán, sem tekið var í des., að ég ætla, hjá Seðlabankanum vegna sjóðanna, það var sem sagt ákveðið til 3 ára í byrjun, en um það er samið við Seðlabankann, að þegar Alþingi hefur afgr. löggjöf um búnaðarsjóðina, verði það lán framlengt til langs tíma.

Varðandi orðalagið um, hver lántakandi var vegna Keflavíkurvegar, þá var það orðað þannig í skýrslunni, að það væri vegamálaskrifstofan, það hefði ef til vill verið réttara að orða það: vegagerð ríkisins. En ég ætla, að það skipti ekki neinu meginmáli.