14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3734)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. ríkisstj. um alúminíumverksmiðju. Fsp. er á þskj. 326 og er svo hljóðandi:

„1) Hafa farið fram samningar eða samningaumleitanir á vegum ríkisstj. eða með vitund hennar við erlenda aðila um að reisa hér alúminíumverksmiðju, og ef svo er, þá við hverja?

2) Hefur verið gerð athugun á byggingu alúminíumverksmiðju hér á landi, liggja fyrir drög að áætlunum, hefur byggingarkostnaður verið áætlaður, og þá hve hár er hann og um hvaða stað eða staði er rætt fyrir staðsetningu slíkrar verksmiðju?“

Ástæðan til þess, að þessi fsp. hefur verið lögð hér fram, er fyrst og fremst sú, að frá því hefur verið skýrt í blöðum borgarinnar að undanförnu, að fulltrúar á vegum ríkisstj. hafi verið að ræða við erlenda aðila um byggingu alúminíumverksmiðju hér á landi, og fjöllesin erlend blöð og tímarit hafa skýrt frá þessu, og þar hefur einnig komið fram, að starfandi mundi vera á vegum ríkisstj. sérstök undirbúningsnefnd, og einnig hefur komið fram í frásögnum af þessu áætlað kostnaðarverð verksmiðjunnar og fleira þar að lúlandi. Mér finnst, að hér sé um svo stórt og þýðingarmikið mál að ræða, að full ástæða sé til þess, að hæstv. ríkisstj. skýri Alþingi frá því, hvað raunverulega hefur gerzt í þessu máli, og vænti, að ríkisstj. sjái sér fært að veita þær upplýsingar, sem um er beðið í þessari fyrirspurn.