14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í D-deild Alþingistíðinda. (3735)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og fyrirspyrjandi gat um, eru fyrirspurnir hans tvær, og hinni fyrri svara ég svo:

Áratugum saman hafa farið fram athuganir á vegum íslenzku ríkisstj, um möguleika á að reisa hér alúminíumverksmiðju. Ég skal þó einungis ræða um það, sem gerzt hefur í tíð núv. stjórnar, enda skilst mér, að í fsp. sé einungis átt við það.

Haustið 1960 leitaði svissneska fyrirtækið Aluminium-Industrie Aktiengesellschaft, AIAG, í Zürich eftir upplýsingum um aðstöðu til vinnslu alúminíums, hér á landi, og komu tveir aðalframkvæmdastjórar fyrirtækisins hingað til lands og ræddu við ráðh. iðnaðarmála og raforkumála ásamt sérfræðingum, sem til voru kvaddir. Fyrirtækinu voru þá og síðar veittar ýmsar upplýsingar um afstöðu til raforkuvinnslu hér á landi.

Um svipað leyti varð vart áhuga af hálfu sænskra aðila á vinnslu alúminíums hér, og voru ráðgerðar viðræður við þá um það efni sumarið 1961. En þegar til kom leystu Svísar úr þörf sinni á annan hátt, og voru þess vegna aldrei teknar upp viðræður við þá af hálfu ríkisstj.

Í októbermánuði s.l. kom hingað til lands fulltrúi frá frönsku fyrirtæki, Pechiney, sem hefur aðalstöðvar sínar í París, og kom í ljós að hið franska fyrirtæki vill kanna möguleika til alúminíumvinnslu hér. Voru síðan teknar upp viðræður við fulltrúa fyrirtækisins með sama hætti og við AIAG.

Viðræðum við bæði fyrirtækin, AIAG og Pechiney, hefur verið haldið áfram, og verður enn ekki sagt um, hver árangur verður af þeim, en bæði fyrirtækin svo og fulltrúar ríkisstj. hafa lýst hug sínum til þess að kanna til hlítar, hvort samkomulagsgrundvöllur er fyrir hendi. Hingað til hefur í viðræðum þessum eingöngu verið skipzt á upplýsingum. Ríkisstj. hefur jafnframt látið vinna að söfnun gagna um ýmis atriði, er skipta máli um rekstur sem þennan og menn þurfa að átta sig á, þegar að því kemur, að taka skuli ákvörðun í málinu, en að sjálfsögðu verður hún ekki gerð nema með atbeina Alþingis. Við seinni spurningunni er þetta svar:

Eins og ráða má af því, sem sagt hefur verið hér að framan um viðræður við AIAG og Pechiney, eru þær ekki komnar svo langt á veg, að tímabært hafi verið að gera áætlanir um byggingu alúminíumverksmiðju og þá ekki heldur um byggingarkostnað. Ráðgert er, að hinir erlendu aðilar reisi og eigi a.m.k. að mestu umrædda verksmiðju eða verksmiðjur, en skuldbindi sig til að kaupa af íslenzka ríkinu ákveðið lágmark raforku um tiltekinn árafjölda fyrir umsamið verð. Algengur byggingarkostnaður erlendis mun vera nálægt þúsund dollurum fyrir hvert tonn af alúminíum, sem verksmiðja getur framleitt á ári. 30 þús. tonna verksmiðja, sem er algeng eining í stærð slíkrar verksmiðju, mun þannig að líkindum kosta nálægt 30 millj. dollara eða nær 1300 millj. ísl. kr. Á hinn bóginn mundi virkjunarkostnaður t.d. við Búrfell ásamt nauðsynlegum háspennulínum nema um 28 millj. dollara eða nær 1200 millj. ísl. kr.

Af sömu ástæðum og að framan greinir hefur staðsetning hugsanlegrar alúminíumverksmiðju ekki verið ákveðin. Virkjunarstaðir, sem sérstaklega hafa verið til athugunar, eru tveir, í Þjórsá við Búrfell og Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Staðir, sem athugaðir hafa verið fyrir verksmiðju, eru á Húsavík, Eyjafjörður nálægt Dagverðareyri, Geldinganes við Reykjavík, svæðið sunnan Hafnarfjarðar og Þarlákshöfn.

Hygg ég þá, að ég hafi svarað því, sem um var spurt.